Háskólalestin á Húsavík

Háskólalestin lýkur ferð sinni um Austur- og Norðausturland um komandi helgi þegar hún nemur staðar á Húsavík með sín fjör og fræði fyrir alla

Háskólalestin á Húsavík
Fréttatilkynning - - Lestrar 406

Háskólalestin lýkur ferð sinni um Austur- og Norðausturland um komandi helgi þegar hún nemur staðar á Húsavík með sín fjör og fræði fyrir alla fjölskylduna.

Þetta er fimmta árið í röð sem Háskólalestin brunar um landið en hún hefur fengið fádæma góðar viðtökur á þeim liðlega 20 stöðum á landsbyggðinni sem sóttir hafa verið heim fá árinu 2011. Lestin hefur það sem af er maímánuði heimsótt Höfn á Hornafirði, Vopnafjörð og Þórshöfn á Langanesi og fengið glimrandi móttökur á öllum stöðum. Dagana 29. og 30. maí stoppar Háskólalestin á fjórða og síðasta áfangastað þessa árs, Húsavík, með sína fjölbreyttu dagskrá fyrir alla aldurshópa.


Föstudaginn 29. maí taka kennarar í Háskólalestinni hús á nemendum í 6.-10. bekk í Borgarhólsskóla og bjóða þeim upp á námskeið úr Háskóla unga fólksins. Alls sækja 150 nemendur námskeiðin sem eru ellefu talsins, þ.e. eðlisfræði, stjörnufræði, stærðfræði, vísindaheimspeki, hvalir, efnafræði, forritun, næringarfræði, japanska, Biophilia og vindmyllur og vindorka.

Laugardaginn 30. maí er svo komið að vísindaveislunni sem jafnan fylgir Háskólalestinni og verður hún haldin í Borgarhólsskóla frá kl. 12-16. Þar fá kennarar úr Háskóla unga fólksins liðsauka og verður eitt og annað skemmtilegt á boðstólum. Stjörnutjaldið sívinsæla verður á sínum stað þar sem forvitnir gestir geta fræðst um undur himingeimsins og þá verður næringarfræðingur á staðnum með skemmtilega leiki. Teiknandi róla og syngjandi skál bíða einnig gesta í veislunni ásamt japönskum búningum og menningu og enn fremur bjóða efnafræðingar upp á litríkar sýnitilraunir og sprengingar. Þá býðst Húsvíkingum að glíma við þrautir og gátur Vísindavefsins en þær hafa notið mikilla vinsælda meðal gesta á þeim stöðum þar sem lestin hefur stoppað í ár.

Allir eru hjartanlega velkomnir í vísindaveisluna og aðgangur er ókeypis.

Þess má geta að Háskólalestin hefur í ár forystu um Norrænu þekkingarlestina svokölluðu sem ásamt Biophilia-menntaverkefninu var stór hluti af framlagi Íslands á formennskuári þess í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Þau norrænu byggðarlög sem taka þátt í verkefninu munu á þessu ári útfæra Þekkingarlestina í sínu heimalandi að fyrirmynd Háskólalestarinnar ásamt því að þróa Biophilia-verkefnið frekar, en það á rætur sínar í samstarfi Háskóla Íslands við tónlistarkonuna Björk Guðmundsdóttur og Reykjavíkurborg. Öll norrænu ríkin taka virkan þátt í verkefninu auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Hægt er að fylgjast með Háskólalestinni á vef hennar: http://haskolalestin.hi.is/

og Facebook: https://www.facebook.com/Haskolalestin


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744