Glatvarmi á Bakka hlýtur styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra

Verkefnið Glatvarmi á Bakka fékk nýverið úthlutaðan styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra en verkefnið er samstarfsverkefni Eims, PCC BakkiSilicon og

Verkefnið Glatvarmi á Bakka fékk nýverið úthlutaðan styrk úr Sóknaráætlun Norðurlands eystra en verkefnið er samstarfsverkefni Eims, PCC BakkiSilicon og Orkuveitu Húsavíkur.

Markmið verkefnisins er að svara því hvort hagkvæmt sé að nýta glatvarma frá verksmiðju PCC BakkiSilicon á Bakka við Húsavík, ýmist í aðra iðnaðarstarfsemi eða fyrir hitaveitu á svæðinu.

Á heimasíðu eims segir að í verkefninu felist söfnun og greining gagna sem nauðsynleg eru fyrir hagkvæmnigreiningu á föngun glatvarma sem myndast í kælikerfi PCC Silicon á Bakka fyrir utan Húsavík. Markmiðið er að sjá hvort það sé hagkvæmt að nýta varmann í uppbyggingu hitaveitu á Bakka þar sem uppbygging Græns Iðngarðs mun eiga sér stað á næstu árum og sú leið borin saman við kostnað á hefðbundinni framlengingu dreifikerfis Orkuveitu Húsavíkur frá Húsavík og að Bakka.

Alls bárust 123 umsóknir í Uppbyggingarsjóð Norðurlands eystra í ár. Þar af voru 70 menningarverkefni, 43 atvinnu- og nýsköpunarverkefni og 10 stofn- og rekstrarstyrkir. Veittir voru 76 styrkir að heildarupphæð 73.592.200 kr., ef af þeim voru 44 fyrir menningarverkefni, 23 fyrir atvinnu- og nýsköpunarverkefni og 9 stofn- og rekstrarstyrkir.

Úthlutunin úr Sóknaráætlun er fjármögnuð af menningar- og viðskiptaráðuneytinu, innviðaráðuneytinu og sveitarfélögum Norðurlands eystra.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744