Gamla myndin - Húsavíkurbær losnar við Skuld

Fyrsta gamla myndin sem birtist á þessu ári var tekin fyrir tíu árum, nánar tiltekið þann 4. janúar 2006.

Gamla myndin - Húsavíkurbær losnar við Skuld
Gamla myndin - - Lestrar 696

Unnið að því að fjarlægja Skuld 4. janúar 2006.
Unnið að því að fjarlægja Skuld 4. janúar 2006.

Fyrsta gamla myndin sem birtist á þessu ári var tekin fyrir tíu árum, nánar tiltekið þann 4. janúar 2006.

Hún sýnir starfsmenn frá trésmiðjunni Rein, þá Hall Þór Hallgrímsson og Arnþór Hauk Birgisson, vinna við að fjarlægja húseignina Skuld af grunni sínum við Stangarbakka. 

Morgunblaðið sagði svo frá þessu þann 15. janúar 2006:

Á fundi bæjarráðs Húsavíkur í lok síðasta árs var samþykkt að taka tilboði hvalaskoðunarfyrirtækisins Norður-Siglingar um að fjarlægja húseignina Skuld sveitarfélaginu að kostnaðarlausu en til stóð að rífa það. Skuld, sem byggð var árið 1920, stendur við Stangarbakkann og hefur áður verið flutt til, þá yfir götuna vegna brúar- og gatnagerðar á Stangarbakkanum.

Á heimasíðu Norður-Siglingar segir frá því að fyrirhugað sé að gera húsið upp og koma því síðan í rekstur í miðbæ Húsavíkur, sem hefur á síðustu áratugum mátt sjá á eftir óþarflega mörgum gömlum húsum sem hafa annaðhvort verið rifin eða færð.

Hugmyndin er að reka í húsinu Konditori, eða lítið kaffihús, í samstarfi við Heimabakarí og útvíkka þar með starfsemi þess ágæta fyrirtækis og færa hana nær ferðamannastraumnum á sumrin. Jafnframt segir að mikil viðskipti hafi um árabil verið milli Heimabakarís og Norður-Siglingar en fyrrnefnda fyrirtækið bakar hina frábæru "hvalasnúða" í tugþúsundavís á sumrin, segir Heimir Harðarson á heimasíðu Norður-Siglingar.

Skuld fjarlægð

Hallur Þór og Arnþór Haukur vinna hér að því að koma Skuld af grunni sínum.

Um svipað leyti birtist þessi kveðskapur Friðriks Steingrímssonar í Morgunblaðinu:

Um fjármálin þvarga og þvaðra

og þusa og rausa og blaðra,

uns allt fer í steik

í starfi og leik

þá skella þeir skuldinni á aðra.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744