Ferð til Egyptalands í mars 2006

Húsvíkingurinn Sólveig Sigurðardóttir sem búsett er á Seyðisfirði er ferðalangur mikill og hér segir hún frá ferð sem hún fór í með Rúnari manni sínum til

Ferð til Egyptalands í mars 2006
Fólk - - Lestrar 663

Eitt af mörgum farartækjum ferðarinnar.
Eitt af mörgum farartækjum ferðarinnar.

Húsvíkingurinn Sólveig Sigurðardóttir sem búsett er á Seyðisfirði er ferðalangur mikill og hér segir hún frá ferð sem hún fór í með Rúnari manni sínum til Egyptalands vorið 2006.

Ég hef haft áhuga á Egyptalandi svo lengi sem ég man og hlýt að hafa smitað dóttur mína, sem fór á ráðstefnu til Egyptalands á háskólaárum hennar og kom þaðan trúlofuð aftur heim. Þau hafa nú verið gift í meira en áratug og eiga tvö börn. En þegar eldra barn þeirra, Adam var tæplega árs gamall, þá létum við hjónin þann draum að heimsækja Egyptaland verða að veruleika. Við eltum ungu hjónakornin með soninn til Cairó, eftir að hafa farið á netið og keypt okkur flug þangað gegnum Kaupmannahöfn og Amsterdam. Sú ferð gekk eins og í sögu og tengdasonur okkar mætti á flugvöllinn í Cairó til að fullvissa sig um að tekið væri á móti okkur af þeim ferðaþjónustuaðila sem við höfðum pantað ferð hjá.

Allt gekk eins og um var talað, bílstjórinn mætti með nafnið mitt á spjaldi og bros út að eyrum. Hann ók okkur beina leið inn í íbúðahverfi í Cairo, til að hitta yfirmann ferðaskrifstofunnar, svo við gætum greitt honum í beinhörðum dollurum eins og um var samið fyrir 10 daga ferð um Egyptaland, með öllu inniföldu. Yfirmaðurinn kom út á bílastæði í náttslopp og inniskóm kl. 3 að nóttu og gengu viðskiptin vel fyrir sig þó brosleg væru.  Við fengum pappíra þess efnis að við hefðum greitt fyrir tiltekna þjónustu og fengum símanúmer hans ef eitthvað óvænt kæmi uppá. Það átti reyndar eftir að gerast.

Solla1

Solla2

Bílstjórinn ók okkur síðan á Delta Piramid Hótel, þaðan sem við höfum einstakt útsýni yfir hina vel þekktu píramída. En hitt var verra, að hávaðinn við aðalstrætið sem lá framan við hótelið var yfirþyrmandi, því þar er umferð allan sólarhringinn með flauti og látum, svo mér varð ekki svefnsamt þessa nótt.

Bílstjórinn var mættur í býtið morguninn eftir með fróðan og ágætan leiðsögumann með sér og ók með okkur beint upp að píramídunum. Við vorum svo óheppin að þar var óvenju hvasst og mikið sandfok, svo dvölin þar varð styttri en til stóð.  

Solla3

Solla4

En þaðan héldum við til Zakhara að skoða stallapíramídann og musterið sem þar er. Einnig fórum við til Memphis á safn sem hýsir risastóra styttu af Ramsesi II faraó og fleira. Eftir það tók við ÓTRÚLEG bílferð um stræti borgarinnar, þar sem þeir frekustu í umferðinni komust fyrst áfram, því umferðarreglur virðast litlar í þessari milljónaborg og raunar lífshættulegt að ganga þar yfir götu og sáum við mann verða þar fyrir bíl. En hægfara asnakerrur voru greinilega virtar meira en gangandi fólk. Bílstjórinn okkar Machmud fékk viðurnefnið „Crazy driver“ vegna aksturslagsins, enda var hann duglegur að nota flautuna og steita hnefann út um gluggann.

Solla5

Solla6

Við höfum aldrei séð jafn líflegt og fjölbreytt mannlíf í nokkurri borg og tækifærin þar fyrir ljósmyndara eru óendanleg, ef tími gefst. Eftir heimsóknir á veitingahús og nokkur fyrirtæki og verslanir, þar sem við komumst ekki hjá því að versla eitt og annað þá var dagur að kveldi kominn og tímabært að sækja föggur okkar á hótelið, því nú áttum við að halda áfram með næturlest upp til Aswan.  Sú ferð gekk að óskum og að þessu sinni svaf ég vært í vaggandi og skröltandi lestinni.

Við vorum vakin snemma morguns þegar komið var til Aswan og við tók bið eftir nýjum bílsstjóra sem átti að mæta tímanlega skv. áætlun. En þegar enginn mætti þá urðum við að lokum að nota neyðarnúmer yfirmannsins, sem lofaði að senda bíl í hvelli. Það stóðst og okkur var ekið á hótel með mjög fallegu útsýni yfir fljótið Níl. Eftir morgunnæringu vorum við sótt af ungum fararstjóra Achmed sem notaði daginn til að sýna okkur allt það helsta sem er í boði í Aswan, m.a. stífluna miklu sem Rússar sáu um að reisa fyrir þá. Einnig söfn, musteri og ekki síst námuna þar sem stóru broddsúlurnar voru höggnar út fyrir þúsundum ára. Síðdegis fórum við í siglingu yfir í lítið þorp Núbíumanna sem fluttir voru burtu úr dalnum, þegar stíflan var reist. Þar leið okkur eins og við hefðum hoppað nokkrar aldir aftur í tímann. Það var frábær upplifun.  Kvöldverð snæddum við á lítilli eyju í Níl með þjóðlega tónlist heimamanna í eyrum.

Solla7

Solla8

Við vorum vakin kl. 3 næstu nótt til að leggja af stað í ferð til Abu Simbel musterisins sem staðsett er langt upp með Níl. Sú ferð tók nokkra tíma í myrkri og langri röð hópferðabíla sem allir voru á sömu leið. Við vorum mætt þangað við sólarupprás og vorum svo heppin að geta skoðað þessi einstöku mannvirki áður en allt fylltist af ferðafólki. Hitinn varð líka nær óbærilegur þegar líða tók á morguninn og á bakaleiðinni leið yfir eina ungu stúlkuna sem sat framan við okkur, líklega af vatnsskorti. Henni var ekið á sjúkrahús í Aswan en við hittum unga fararstjórann okkar á ný ásamt 4 nýjum ferðalöngum frá USA sem áttu eftir að dvelja með okkur næstu vikuna á siglingu niður Níl. Fararstjórinn nefndi okkur Ramses-hópinn :)

Solla9

Solla10

Við héldum öll af stað um borð í skipið Anni sem var þægileg ferja og þjónustan þar góð. Við skoðuðum ótal musteri og söfn sem voru á leið okkar niður eftir Níl og stoppuðum heilu dagana á hverjum stað. Heimsóknin í  dal konunganna stendur einna helst uppúr, því þar fengum við að skoða nokkrar grafir, m.a. gröf Tutankamons sem fannst óröskuð 1922. En það sem kannski er eftirminnilegast var óvænt uppákoma niðri í einni gröfinni, þar sem hópar fólks voru staddir  ásamt okkur, þegar rafmagnið fór og það svartasta myrkur sem við höfum séð, helltist yfir okkur. Við áttum von á ópum og látum, en allir voru rólegir og fóru að kveikja á símum, vasaljósum og kveikjurum og biðu rólegir í sömu sporum þar til rafmagnið kom aftur. Þetta var mjög sérstök upplifun.

Ég lenti líka í því að taka mynd af varðmanni sem hafði lagt sig í skugga, því hitinn var um 40 gráður og notaði hann riffilinn sinn sem kodda. Einhver sá mig taka myndina og það varð auðvitað til þess að fararstjórinn var neyddur til að semja við mig um að eyða myndinni úr vélinni, því slík mynd mátti ekki birtast opinberlega. 

Solla11

Solla12

Heimsókn í Dauðamusteri Hatshetsup sem var eini kven-faraóinn var líka einstök sem og tækifærið að skoða musterin í Karnak og Luxor og Horusar musterið í Edfu svo eitthvað sé nefnt af öllu því sem við skoðuðum.  Það var líka boðið upp á ýmsa skemmtan á kvöldin um borð í Anni, m.a. þjóðbúningakvöld, en þá mættum við öll í kvöldverð klædd búningum innfæddra og fórum í ýmsa leiki. Annars sátum við mest í sólbaði uppi á dekki ef siglt var að degi til, enda sólskin alla daga.

Solla13

Solla14

Eitt var það sem fararstjórinn notaði óspart þegar þessi litli hópur hans var stoppaður, en það gerðist nokkrum sinnum. Hann sagðist vera með hóp frá Íslandi, en nefndi aldrei Bandaríkin og engin athugasemd var gerð við ferðir okkar, sem betur fer.

Eftir vikuferð niður Níl var komið að því að taka næturlest frá Aswan, til Cairo, en þar eyddum við síðasta deginum með samferðakonum okkar frá USA, Jill og Söru, en við fylgdumst að alla vikuna og skemmtum okkur vel saman. Jill var mjög fróð um Egyptaland og hafði komið þangað ótal sinnum og fékk fararstjórann stundum til að breyta út af áætlun, til að við gætum fengið að sjá og gera áhugaverðari hluti en ferðaáætlunin gerði ráð fyrir. T.d. fengum við að sleppa við frekara búðarráp í Cairó, en fórum þess í stað á úlföldum og hestum út í eyðimörkina kringum píramídana við sólsetur, þegar bænaköllin ómuðu úr öllum hátölurum borgarinnar, það var ógleymanleg stund.

Solla17

Solla15

Við fórum líka í Mohamed Ali moskuna sem er stærsta moska múslíma, a.m.k. í Egyptalandi. Þar urðum við Sara að klæðast sérstökum sjölum til að hylja hálfnakta handleggi en Rúnar sem var sá eini okkar sem var á stuttbuxum og stuttermabol mátti sýna sitt bera hold án athugasemda :)  En hann varð þó að afklæðast skónum eins og við innandyra. Við fórum líka á þjóðminjasafnið þar sem við gátum m.a. séð alla þá frábæru hluti sem fundust í gröf Tutankhamons, en þar var bannað að taka myndir, því miður.  Heimsókn í gamla kirkju var líka sérstök fyrir þá sök að undir henni er ævagamall kjallari, sem okkur var sagt að hefði verið heimkynni Maríu, Jósefs og Jesúbarnsins þegar þau flúðu til Egyptalands.

Við enduðum síðasta kvöldið okkar saman með því að horfa á frábæra sögusýningu við Píramídana og svingsinn, en höfðum ekki gætt þess að klæða okkur nógu vel, því hitamunur dags og nætur er mikill og sömuleiðis er ekki jafn hlýtt í Cairó og Aswan, svo okkur varð hálfkalt þess vegna.

Eftir að hafa kvatt okkar ágætu ferðafélaga og þá starfsmenn sem sáu um okkur þessa daga, þá mættu dóttir okkar og tengdasonur á bílaleigubíl og fluttu okkur á annað hótel, nær fjölskyldu þeirra. Síðan tóku við skemmtilegar og fróðlegar heimsóknir til fjölskyldunnar og akstur um borgina, til að skoða ýmislegt sem ekki var boðið uppá í nýafstaðinni ferð okkar. Við fórum reyndar enn eina ferð að píramídunum og í þetta sinn gátum við skoðað safnið og allt umhverfið almennilega.

Solla17

Solla17

Við fórum líka í fallegan garð á einni af mörgum hæðum borgarinnar og  á stærsta útimarkaðinn Khan el-Khalili. Á meðan við dvöldum þar varð sólmyrkvi sem sást einmitt best í Egyptalandi. Við sáum bara smá skugga á sólinni með því að horfa varlega í gegnum dökk sólgleraugu, en annars fannst okkur þetta ekki neitt stórmál, þó ýmsir væru á annarri skoðun. Það kom í ljós að stór hluti samferðamanna okkur í KLM breiðþotunni „Hollendingnum fljúgandi“, á heimleiðinni til Amsterdam, voru áhugahópur sem fór sérstaklega til Egyptalands til að sjá þennan sólmyrkva. Við vorum greinilega ekki með á nótunum :)

Solla19

Solla20

Þessi stutta ferðalýsing er í raun aðeins brot af því ævintýri sem þessi ferð var og ótal skemmtilegar uppákomur áttu sér stað, sem gaman hefði verið að segja frá en það tekur of mikið pláss að segja frá því öllu. En þetta gefur vonandi hugmynd um hve frábærar svona ferðir eru og þessi ferð var ekki eins dýr og ætla mætti, þó allir þjónustuaðilar hafi fengið sitt „tipps“.

Þess má geta að lokum að við sluppum næstum alveg við að fá í magann og flugnabit sem margir hafa lent óþægilega í. En við notuðum líka flugnafælur og skoluðum meltingarfærin með koníakssopa á hverjum morgni til að tryggja sótthreinsun fyrir daginn og það dugði, þó ekki séum við að mæla með víndrykkju, enda er það annað mál :)


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744