12 ný herbergi hjá Húsavík Cape Hotel

Tólf ný herbergi með baði verða tekin í notkun í sumar hjá Húsavík Cape Hotel á Húsavíkurhöfða.

12 ný herbergi hjá Húsavík Cape Hotel
Almennt - - Lestrar 535

Tólf ný herbergi með baði verða tekin í notkun í sumar hjá Húsavík Cape Hotel á Húsavíkurhöfða. Um er að ræða nýja efri hæð sem byggð verður ofan á núverandi herbergjaálmu.

Það er Gistiheimili Húsavíkur sem á og rekur hótelið og verða herbergi fyrirtækisins eftir stækkunina orðin 30 talsins. Gistiheimilið rekur einnig Húsavík Guesthouse í Laugarbrekku og Mývatn Road Guesthouse í Reykjahverfi. Þessa dagana er unnið að byggingu veggjaeininga hjá Norðurvík, en vænta má að þakið verði tekið af húsinu um miðjan mars og þá fara að sjást verulegar breytingar.

"Við erum að veðja á að hér verði uppbygging á næstu árum og þörf á auknu gistirými", segir Örlygur Hnefill Örlygsson, framkvæmdastjóri Gistiheimilis Húsavíkur. Hann segir að herbergi fyrirtækisins séu rúmgóð og að með fullri nýtingu geti hann tekið 80 manns í gistingu. 

"Við höfum fengið góðar umsagnir um okkar þjónustu á vefsíðum eins og TripAdvisor og það hjálpar mjög við söluna. Það er ekki sama hvernig tekið er á móti gestum og sú upplifun og þjónusta sem gestir fá skiptir miklu um hvernig þeir skrifa um staði eins og Húsavík. Við eigum inni mikil sóknarfæri hér á þessu svæði og nálægð við náttúruperlur gefur okkur ágæta forgjöf í samkeppni við önnur svæði. Okkar helsta vandamál er hins vegar fjarlægðin frá Keflavík. Því er gríðarlega mikilvægt að hér verði uppbygging á millilandaflugi, og ég tel að ekki séu mörg ár þar til horft verður af alvöru til Húsavíkurflugvallar í því samhengi," segir Örlygur.

HC

Húsavík Cape Hotel fyrir og eins og það kemur til með að líta út.

HCH


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744