Grćni púlsinn: Baldur Sigurđsson

Ţá er komiđ ađ ţví. Baldur Sigurđsson er síđasti Grćni púlsinn hjá okkur í sumar og vel viđ hćfi ađ ţessi frábćri og mikli Völsungur loki ţessu fyrir

Grćni púlsinn: Baldur Sigurđsson
Íţróttir - Rafnar Orri Gunnarsson - Lestrar 377 - Athugasemdir ()

Baldur Sigurđsson
Baldur Sigurđsson

Þá er komið að því. Baldur Sigurðsson er síðasti Græni púlsinn hjá okkur í sumar og vel við hæfi að þessi frábæri og mikli Völsungur loki þessu fyrir okkur um sinn. Hér fyrir neðan má lesa greinina sem birtist í síðustu Völsungsleikskránni en hún kom út í gær fyrir lokaleik sumarsins gegn Njarðvík á laugardag. Balli Sig gjörið svo vel!

Hvernig er að vera leikmaður í Úrvalsdeild á Íslandi ?

Það er virkilega fínt að spila í efstu deildinni hér á landi. Ég held að það sé spennandi fyrir alla íslenska leikmenn að stefna að því að spila í efstu deild. Ungur leikmaður sem stefnir hærra hefur virkilega gott af því að spila í eitt ár eða fleiri í henni. Gæðin eru fín fótboltalega séð og umfjöllunin er mikil. Það eru komnir gríðarlega margir fjölmiðlar (misjafnlega góðir) sem fjalla um deildina og því færðu fljótt mikla athygli ef þú spilar vel, eða illa. Það er því góður skóli að spila í efstu deild.  

Hvað er málið með þig og bikarúrslitaleiki ?
Haha það er erfitt að segja. Ég hef verið svo heppinn að fá að spila fjóra bikarúrslitaleiki og enn heppnari að vinna þrjá af þeim. Þetta hefur svo bara einhvern veginn dottið fyrir mig að skora í öllum þessum sigrum. Bikarúrslitaleikurinn er klárlega skemmtilegasti viðburðurinn sem fótboltamaður tekur þátt í með félagsliði (ef við undanskiljum kannski úrslitaleik meistaradeildarinnar, hugsa stórt, hugsa stórt). Það er mikið lagt í umgjörð um leikinn, þjóðsöngurinn spilaður og aðeins meiri spenna en í venjulegum deildarleik. Ég bíð samt enn eftir fullum velli í svona leik...

BikarBaldur vs Smalinn ?
Það er smalinn. Maður verður að vera stoltur af uppruna sínum og mér þykir vænt um þetta viðurnefni. Maður beið alltaf spenntur eftir smalamennskunni á haustin og það var, og er, eitt það skemmtilegasta sem gerði. Það verður eiginlega að koma fram hér að það var Maggi Halldórs sem á þetta nafn og gaf mér þetta viðurnefni. Hann skellti því á mig inn í Svartárdal hjá mömmu, þegar við vorum á leiðinni norður 2001 að fara á lokahófið eftir að við fórum upp úr 3. deildinni. Þá frumflutti Aggi einmitt Sonur hafsins. Pálmi komst einmitt ekki á hófið því hann var enn með plásturinn eftir Njarðvíkur leikinn...uss góðir tímar maður...

Á móti hvaða liði er skemmtilegast að spila eða hvaða liði hlakkar þig mest til þess að mæta ?
Það eru FH leikirnir. Það eru stærstu leikirnir í dag og leikirnir spilast yfirleitt skemmtilega. Mikil spenna og hiti og lítið gefið eftir.

Eftirminnilegasta stund á ferlinum til þessa ?
Það er árið í fyrra. Að vinna tvöfalt í fyrra var algjör draumur. Maður gleymir samt aldrei bikartitlinum 2006 með Keflavík þar sem við Haddi unnum titilinn saman. Haddi var líka svo hrikalega ljótur með þessa greiðslu í leiknum...

Hvernig horfir Balli Sig til framtíðar í sambandi við fótboltaferilinn ?
Ég er virkilega ánægður þar sem ég er núna hjá KR og sé mig spila þar í mörg ár í viðbót. Það er draumur að spila hjá félagi sem stefnir alltaf á að verða Íslandsmeistari. Það er svooo góð tilfinning að koma inn í klefa eftir sigurleiki og þeir hafa verið margir undanfarin ár. Ég lifi bara í „núinu“ og vill leggja mitt af mörkum til að liðinu sem ég er í hverju sinni, gangi vel.

ball

Hver er draumurinn ?
Það er að spila fótbolta sem atvinnumaður, það er ekki flókið. Ég var svo heppinn að ég fékk upplifa það í tvö ár í Noregi. Það eru algjör forréttindi að vakna á morgnana og mæta í vinnuna hjá fótboltaliði.

Hefur þú stefnt að því frá barnsaldri að verða atvinnumaður ?
Já í raun hefur maður gert það. Ég var allavega alltaf í fótbolta í sveitinni og það var það lang skemmtilegasta sem ég gerði. Svo þegar ég var tekinn í fótboltafóstur hjá Jónasi og Jónu og kynntist Hadda að þá snerist lífið eingöngu um fótbolta og við fórum svona að stefna að því saman að verða atvinnumenn.

Hvað er það mikilvægasta fyrir leikmann að gera til þess að ná árangri?
Úff, menn hafa skrifað fjölda bóka til að svara þessari spurningu. Ég tel allavega að það mikilvægasta sé hugurinn. 1 % fótboltamanna fæðast með fótboltanáðargáfu og hafa því efni á að vera hálfvitar en samt snillingar í fótbolta. Hin 99 % þurfa því að æfa til að verða góð. Og það telur allt saman. Ef þú sleppir æfingu í 6. flokki af því að þig langaði í golf í staðinn, ertu að missa úr æfingu þar sem gast bætt þig. Þetta snýst bara um það, mæta á allar æfingar og langa svo ógeðslega mikið að verða betri á næstu æfingu en þú varst á þeirri síðustu.  

Hver er besti samherji frá upphafi ?
Ég verð að nefna fjóra menn. Andri Valur, Haddi, Hemmi Alla og Jónas Guðni. Andri er einstakur framherji sem á engan sinn líkan á þeassari jörðu held ég. Við náðum alltaf vel saman hjá Völsungi á sínum tíma. Ég held reyndar að ég hafi verið betri samherji hans heldur en hann minn. Ég myndi segja að ég ætti hlut í svona 60 % af mörkunum hans. Eins er það með Hemma. Ég hef aldrei séð leikmann eins og Hemma. Hann „hljóp“(ég veit ekki hvort hann hleypur eitthvað yfir höfuð í dag) hraðar með bolta heldur en án hans og hlýtur enn að eiga met yfir fjölda klobba á Húsavíkurvelli. Við náðum ávallt vel saman og það var eftirminnlegt þegar við spiluðum við Fylki í bikarnum 2003. Helgi Valur Daníelsson bað um skiptingu í leiknum, en hann var í hægri bakverði og Hemmi á vinstri kanti. Jónas Guðni og ég höfum náð vel saman frá því við spiluðum okkar fyrsta leik saman á miðjunni í Keflavík. Algjört vinnudýr sem þú getur treyst á. Það segir sig síðan sjálft með Hadda...

Besti leikmaður sem þú hefur spilað með ?
Þetta er erfitt val en ég ætla að nefna Allan Borgvardt. Ég spilaði með honum þann tíma sem ég var hjá Bryne í Noregi. Allan var náttúrlegur markaskori með frábært sendingarauga. Ég lærði mikið af honum.

Þegar þú heyrir nafnið Völsungur, hvað er það fyrsta sem þú hugsar ?
Gleði, Uppeldi, Mærudagsleikur, Steini Bakari, Jónas Hallgríms, Red House, Íþróttahöllin, Sigur, o.fl o.fl...

Góð saga fra þínum tíma hjá Völsungi ?
Hún er frá Laugamóti sko árið svona 2000. Laugamótin voru gríðarlega skemmtileg og mikið lagt upp úr því að vinna. Völsungur undir styrkri stjórn Jónasar fór að sjálfsögðu á hverju ári með lið. A liðið var samansett af mörgum af bestu innanhúss spilurum Íslands á þeim tíma. Pálmi, Birkir Vagn, Andri, Ómar Þorgeirs, Jói Kóngur, Gunni Jóns jafnvel og fleiri hetjur. Svo ákvað Jónas að vera með B lið sem í voru, ég, Haddi, Hemmi Alla, Jónas og síðast en ekki síst Guðmundur Þráinn Kristjánsson. Bæði lið fóru tiltölulega létt í gegnum riðla og átta liða úrslit og mættust svo í undanúrslitum. Frekar fljótlega í leiknum náðu guttarnir í B liðinu forystu. A liðinu gekk illa að jafna og voru fljótt orðnir frekar pirraðir. Það var svo í seinni hálfleik að Hemmi skaut boltnaum yfir battana og átti að fara útaf. Ágætur dómari leiksins Raggi Bjarna missti eitthvað af þessu og ætlaði ekki að reka hann útaf. Upphófst mikið rifrildi á milli leikmanna sem endaði á því að greyið Hemmi, sem var orðinn lafandi hræddur við strákana í A liðinu, ákvað bara að labba útaf. B liðið endaði svo á því að vinna leikinn og þegar við löbbuðum sigurreifir inn í klefann eftir leikinn sat þar A liðið öskuillir og hótuðu okkur öllu illu. Við vorum fljótir út úr klefanum...Það má líka taka það fram að gera þurfti tvisvar hlé á leiknum á meðan Jónas jafnaði sig eftir að hafa varið boltann með hausnum.

Helduru að þú munir spila aftur fyrir Völsung ?
Það er algjörlega stefnan. Þar sem ég reikna ekki með að Mývetningur muni reiða fram lið á næstu árum langar mig að koma „heim“ og spila með Völsungi aftur.

Hversu mikið saknar þú Húsavíkur ?
Ég sakna Húsavíkur gríðarlega mikið. Ég átti algjörlega frábæra tíma á Húsavík. Það var heiður að spila með öllum frábæru leikmönnunum sem ég spilaði með og vinna með fólkinu sem starfaði í kringum liðið. Ég sakna Sólbrekku 24, borða matinn hennar Jónu og allra þeirra ótal klukkustunda sem var eytt í að tala um fótbolta. En allra mest sakna ég þó Heimabakarís. Ég fékk þann heiður að vinna þar í tvö sumur og það má segja að sá tími hafi breytt mér úr því að vera feiminn sveitastrákur yfir í alvöru karlmann. Þessi tími var yndislegur og algjör forréttindi að fá að vinna þarna í besta bakaríi landsins. Allir starfsmenn voru yndislegir með Steina fremstan í flokki. Steini með sinn einstaka húmor, sinn einstaka hlátur, gríðarlegan dugnað og metnað til að skila af sér fullkomnri vinnu, kenndi mér svo margt sem ég mun búa að alla ævi. Þvílíkur söknuður.

Lokaorð til stuðningsmanna Völsungs ?
Á laugardaginn spilar Völsungur einn sinn mikilvægasta leik í sögu félagsins. Mætum allir Völsungar, allir sem einn og hverjum strákana til sigurs. Hjálpum strákunum að gera laugardaginn 22. September 2012 að degi sem mun aldrei gleymast. Áfram Völsungur!!

kr

Eldri greinar:
Græni púlsinn: Elfar Árni Aðalsteinsson (2.tbl)
Græni púlsinn: Hallgrímur Jónasson (3.tbl)
Græni púlsinn: Hallgrímur Mar Bergmann
(4.tbl)
Græni púlsinn: Hafrún Olgeirsdóttir (5.tbl)
Græni púlsinn: Aron Bjarki Jósepsson
(6.tbl)
Græni púlsinn: Pálmi Rafn Pálmason (7.tbl)
Græni púlsinn: Bjarki Baldvinsson (8.tbl)
Græni púlsinn: Guðmundur Óli Steingrímsson (9.tbl)


Athugasemdir

Ingvar Björn-Rafnar Orri- Bjarki Breiđfjörđ