Völsungar gerðu góða ferð til Ísafjarðar á Íslandsmótið í boccia

Glæsilegt Íslandsmót í boccia einstaklingskeppni fór fram helgina 4-6 október á Ísafirði.

Aron Fannar Skarphéðinsson.
Aron Fannar Skarphéðinsson.

Glæsilegt Íslandsmót í boccia einstaklingskeppni fór fram helgina 4-6 október á Ísafirði.

Mótið var í umsjá íþróttafélagsins Ívars í samvinnu við Íþróttafélag fatlaðra.

Alls tóku um 150 keppendur þátt í mótinu. Næsta Íslandsmót 2020 fer fram á Selfossi í byrjun október á næsta ári.

Bocciadeild Völsungs mætti til leiks með fjölmennan hóp keppenda en Völsungar átti rétt á fjórum keppendum í 1. deild, fjórum í 2. deild, þrem í 3. deild, fjórum í 4. deild en átti engan í 5.deild.

Mikil eftirvænting var í hópnum þegar lagt var á stað frá Borgarhólsskóla kl. 8 á föstudagsmorgun 4. okt.með rútu frá Fjallasýn, Til Ísafjarðar var komið um kvöldmatarleytið og allir klárir á glæsilega setningarhátíð sem hófst kl. 21 í Íþróttahúsinu á Ísafirði.

Eftir formlega setningu með inngöngu marseringu keppenda, ræðuhöldum, söng og tónlistaratriðum var glæsileg flugeldasýning í frábæru veðri.

Síðan hófst keppni kl. 9,00 um morguninn og keppt tvo langa daga, laugardag og sunnudag.

Árangur Völsunga var frábær, enginn féll niður um deild og nokkrir fóru upp um deild sem er góður árangur. Í 4 deild komust þrjú upp úr riðlakeppninni og í úrslit, þau Aron Fannar Skarphéðinsson, Sigurður Haukur Vilhjálmsson og Bryndís Edda Benediktsdóttir. Aron Fannar endaði svo í 3 sæti sem er frábært á hans öðru Íslandsmóti.

Bocciamót á Ísafirði

Í 3. deild vann svo Hildur Sigurgeirsdóttir silfur sem er magnaður árangur hjá henni.

Í 2. deildinni komust áfram í úrslit þau Anna María Bjarnadóttir og Vilberg Lindi Sigmundsson, sem er frábær árangur og að lokum spilaði Vilberg Lindi svo um bronsið en varð að láta í minni pokann að lokum. Í 1. deildinni áttum við svo fjóra keppendur sem gekk nokkuð vel án þess þó að enda í verðlaunasæti.

Að móti loknu á sunnudagskvöldið var svo að venju lokahóf með mögnuðum matseðli, skemmtun, söng og dansleik. Heim var svo haldið á mánudeginum í fallegu haustveðri, alsæl með einstaklega ljúfar minningar frá Ísafirði.

Við í Bocciadeild Völsungs þökkum öllum kærlega fyrir samveruna á frábæru Íslandsmóti á Ísafirði. Skipulag og framkvæmd hjá Íþróttafélaginu Ívari var til fyrirmyndar og þeim sem að komu til mikils sóma.

Fh. Bocciadeildar Völsungs, Húsavík Egill Olgeirsson, formaður.

Hér má sjá öll úrslit mótsins.

Hildur Sigurgeirsdóttir

Hildur Sigurgeirsdóttir vann silfur í 3. deildinni.

Stefán Páll Skarphéðinsson

Aron Fannar Skarphéðinsson varð í 2. sæti 4. deildar.

Bocciamót á Ísafirði

Anna María Bjarnadóttir, Vilberg Lindi Sigmundsson og Bryndís Edda Benediktsdóttir stóðu sig vel.

Bocciamót á Ísafirði

Sigurður Haukur Vilhjálmsson býr sig undir að kasta boltanum.

Þorgeir Baldursson tók meðfylgjandi myndir og með því að smella á þær er hægt að fletta þeim og skoða í hærri upplausn.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744