Margir fögnuðu áætlunarfluginu sem hófst í gær

Það var hátíð í Aðaldalnum í gær þegar reglubundið áætlunarflug hófst aftur á Húsavíkurflugvöll eftir tólf ára hlé.

FT-ORC nýlent í Aðaldalnum.
FT-ORC nýlent í Aðaldalnum.

Það var hátíð í Aðaldalnum í gær þegar reglubundið áætlunarflug hófst aftur á Húsavíkurflugvöll eftir tólf ára hlé.

Um þrjú hundruð manns mættu í flugstöðina til að fagna komu TF-ORC frá flugfélaginu Ernir sem hafði innanborðs m.a. núverandi og fyrrverandi ráðherra flugmála, þá Ögmund Jónasson og Kristján L. Möller.

Forystumenn Norðurþings tóku á móti Herði Guðmundssyni og hans fólki með blómum og þakkaði Gunnlaugur Stefánsson forseti bæjarstjórnar Norðurþings þeim þessar samgöngubætur sem heimamenn hafi miklar væntingar til.

Hörður var að vonum ánægður með þann áhuga sem íbúar svæðisins sýndu með því að leggja leið sína í flugstöðina til að fagna þessum tímamótum og ekki síður með viðtökurnar þær sem flugið fær. Hann tók þó fram að þetta væri tilraun og ef almenningur og fyrirtæki nýti ekki flugið þá gangi það ekki upp.

Eftir örstutt ræðuhöld var gestum boðið upp á veitingar, kaffi, kleinur  og veglegar hnallþórur sem runnu ljúflega ofan í þá.

Flogið verður sjö ferðir á viku á flugvöllinn í Aðaldal, fjóra daga vikunnar. Það er von forsvarsmanna Ernis að hægt verði að gera út flug til Húsavíkur allt árið um kring. Bókanir fara vel af stað og hafa nú þegar nokkur flug fyllst í apríl og maí og bætt hefur verið inn aukaflugum þá daga, segir í tilkynningu.

Húsavík er fimmti áætlunarstaður Flugfélagsins Ernis en fyrir flýgur félagið á Vestmannaeyjar, Höfn í Hornafirði, Bíldudal og Gjögur.

 

Flug

Þingeyingar sýndu fluginu áhuga og fjölmenntu í flugstöðina.

Flug1

Eigendur Ernis, Hörður Guðmundsson og Jónína Guðmundsdóttir fengu blómakörfu frá Norðurþingi.

Flug2

Og síðan var stillt upp til myndatöku.

Flug3

"Við áttum heima í sömu götu heima á Ísafirði". Sagði Svavar Cesar sem hér er á tali við Hálfdán flugstjóra með dótturdóttur sína á öxlunum.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744