Við erum einir og í því felst mikil áskorun

Samkaup reka tvær matvöruverslanir á Húsavík og er eina fyrirtækið í matvöruverslun í bænum. Samkaup reka um fimmtíu verslanir víða um landið og um 75% af

Við erum einir og í því felst mikil áskorun
Almennt - - Lestrar 491

Innkaupakerran
Innkaupakerran

Samkaup reka tvær matvöru-verslanir á Húsavík og er eina fyrirtækið í matvöruverslun í bænum. Samkaup reka um fimmtíu verslanir víða um landið og um 75% af veltu fyrirtækisins er utan höfuðborgarsvæðisins.

Velta Samkaupa og dótturfélags-ins Búrs, var tæplega 23,5 milljarðar á árinu 2013 og jókst um tæp 3,6% frá fyrra ári. Hagnaður félagsins eftir skatta var rúmar 296 milljónir. Félagið Búr ehf. er heildsala með grænmeti og ávexti.

Samkaup reka 48 verslanir undir merkjum Nettó, Kaskó, Samkaup úrval og Samkaup strax, verslanirnar eru á 34 stöðum um allt land. Starfsmenn félagsins á árinu 2013 voru 874 í 498 stöðugildum.

Sem eini aðilinn í matvöruverslun á Húsavík hefur fyrirtækið ákveðna skyldur gagnvart samfélaginu. Stefna Samkaupa er að styðja við íþrótta-, menningar- og mannúðarstarf á þeim svæðum sem fyrirtækið rekur verslanir. Áhersla fyrirtækisins er frekar á hópa en einstaklinga og börn og unglinga frekar en fullorðna. 640.is hafði samband við Ómar Valdimarsson framkvæmdastjóra Samkaupa til að kanna stöðu fyrirtækisins á Húsavík. Eru Samkaup í einokunarstöðu á Húsavík?

„Það felst mikil áskorun í því að vera eini aðilinn í dagvöruverslun, það er alltaf hægt að gera betur í versluninni og eðlilega gerir kúnninn alltaf auknar kröfur“ segir Ómar og bætir því við að samgöngur hafa batnað og fólk er meira á ferðinni en áður. Jafnframt sækir fólk í meiri tilbreytingu bæði varðandi verslun og þjónustu.

Að sögn Ómars ver Samkaup um einni milljón í styrki á svæðinu, m.a. í formi matarúttekta. „Það er sambærilegt og við gerum á öðrum stöðum þar sem við rekum verslanir“ – segir Ómar og segir að fyrirtækið sé kannski ekki nógu duglegt að koma því á framfæri sem vel er gert. „Það fylgir því mikil ábyrg að vera eini aðilinn og já, það er áskorun sem felst í því“. Ekki fæst uppgefið hversu mikill hagnaður er að deildum fyrirtækisins á Húsavík. Arðgreiðslur úr Samkaupum síðastliðin fjögur ár hafa verið á bilinu 250-300 milljónir á ári eða samtals um milljarður síðastliðin fjögur ár.

Nokkur neikvæð samfélagsleg umræða er um stöðu Samkaupa og segir Ómar að fyrirtækið vilji vera í góðri sátt við samfélagið og hann er ánægður með sitt starfsfólk. „Við bjóðum afsláttarkjör til handa félagsmönnum í kaupfélögum landsins“ – segir hann og bætir því við að þeir vilji gera betur.

Framundan séu spennandi tímar á Húsavík . „Það er okkar vilji að taka þátt í því með heimamönnum“ segir Ómar. Fyrirtækið horfir til framtíðaruppbyggingar á verslun á miðbæjarsvæðinu þar sem Kaskó er nú staðsett. „Það er hringiðan, þar er fólkið“ segir Ómar. Tekið skal fram að fyrirtækið hefur nokkuð lengi leitað leiða í húsnæðismálum félagsins á Húsavík en sem komið hafi það ekki skilað niðurstöðu. 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744