Ungir Húsvíkingar kynnast lífríki Skjálfandaflóa með Norðursiglingu

Áralöng hefð er fyrir því að Norðursigling bjóði nemendum á unglingastigi Borgarhólsskóla í haustsiglingu á Skjálfandaflóa.

Áralöng hefð er fyrir því að Norðursigling bjóði nemendum á unglingastigi Borgarhólsskóla í haustsiglingu á Skjálfandaflóa. 

Í fréttatilkynningu segir að slík ferð hafi verið farin á dögunum þegar um 100 nemendur og kennarar sameinuðust í bátana Bjössa Sör og Náttfara og sigldu um flóann, skoðuðu hnúfubaka og tóku svo land í Flatey. 
 
Ljósmynd aðsend

Að sögn Hjálmars Boga Hafliðasonar, kennara við Borgarhólsskóla, var veðrið með besta móti þegar út í eyju var komið, sunnan andvari og hlýtt. Hópurinn gekk um eyjuna, gæddi sér á nesti í Samkomuhúsinu og naut útsýnisins úr vitanum ásamt því að rekast á eyjaskeggja sem dvalið höfðu í eyjunni frá því í byrjun september. 
 
Eftir vel heppnaða heimsókn út í eyju var stefnan tekin aftur á Húsavík en á heimleiðinni var að sjálfsögðu boðið upp á heitt kakó og kanilsnúða. 
 
Ljósmynd aðsend

Það er órjúfanlegur hluti af haustinu að bjóða unglingum bæjarins í haustsiglingu og eru starfsmenn Norðursiglingar stoltir að fá nemendur skólans um borð í báta sína og kynna þá fyrir lífríki Skjálfanda og því magnaða umhverfi sem umlykur bæinn. 

Þetta er ekki fyrsta skipti þetta árið sem ungir Húsvíkingar stíga um borð í báta Norðursiglingar en í sumar fóru um 30 börn úr Sumarfrístund Norðurþings í hvalaskoðun sem heppnaðist afar vel. Að auki unnu félagasamtökin Ocean Missions að verkefni með Vinnuskóla Norðurþings þar sem áhersla var lögð á fræðslu um hafið og lífríki þess ásamt því að vekja börnin til umhugsunar um umhverfismál.
 
“Tvívegis var farið með hópa á rafmagnsskonnortunni Ópal og sýni tekin úr flóanum til að kanna magn plastagna í sjónum. Skemmst er frá því að segja að vel tókst til en Norðursigling er aðalstuðningsaðili Ocean Missions” segir Stefán Jón Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri Norðursiglingar.  
 
Ljósmynd aðsend

Það er sannur heiður fyrir fyrirtæki eins og Norðursiglingu að fræða unga fólk bæjarins um mál sem hafa alla tíð verið stofnendum fyrirtækisins hugleikin. 
 
Norðursigling þakkar bæði nemendum og kennurum kærlega fyrir komuna og hlakkar til áframhaldandi samstarfs í framtíðinni. 

  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744