Sigurður Pálsson frá Húsavík - Minningargrein

Sigurður Pálsson frá Húsavík. Fæddur 20. október 1939. Dáinn 16. mars.2020. Útför frá Háteigskirkju 3. apríl 2020.

Sigurður Pálsson frá Húsavík - Minningargrein
Fólk - Hafþór Hreiðarsson - Lestrar 526

Sigurður Pálsson.
Sigurður Pálsson.
Sigurður Pálsson frá Húsavík. Fæddur 20. október 1939. Dáinn 16. mars.2020. Útför frá Háteigskirkju 3. apríl 2020. 
 

Sigurður ólst upp á Rauðatorgi á Húsavík, sonur Huldar Sigurðar-dóttur og Páls Kristjánssonar.

Honum lá á að komast til manns eins og mörgum ungum mönnum og leiðin að því á þessum árum var að hleypa heimdraganum nógu snemma og komast á sjó. Engan tíma mátti missa og varð skyldunámið því að duga að sinni. Fimmtán ára gamall réði hann sig á Hagbarð á Húsavík en síðan tóku við nokkur vertíðarár fyrir sunnan og norðan á stærri bátum. Löngum var hann kokkur á aflaháum skipum og fórst eldamennskan vel. Þessi reynsla kom svo að góðu gagni á heimilinu þar sem hann var iðinn við matargerðina meðan fátítt var að karlar létu standa sig að slíku verki.  

Sigurður var að þessu leyti sigldur maður og hlóðst upp veruleg eftirvænting hjá okkur systkinum þegar hann kom heim á milli vertíða og fylgdi honum viss framandleiki hins siglda manns. Þarna hlaut að fara marktækur maður enda létum við okkur hafa það að hlusta með honum á Elísabethu Schwarzkopf og fleiri ágæta söngvara sem heimurinn skartaði á þessum árum. Þá nutum við þess að nokkru að kokkurinn á aflabátunum átti peninga í vösum. 

Eftir nokkur ár á sjó festu þau Sólveig Karvelsdóttir ráð sitt og settust að í Ytri Njarðvík. Þar í bæ lærði Sigurður málaraiðn sem varð ævistarf hans. Hann var ekki málari uppmælinga eða hinna stóru flata heldur nákvæmur penslari fínni og vandasamari verka. Við gerð líkansins af Íslandi í Ráðhúsi Reykjavíkur fór saman nostursemin og handmenntin sem hann hafði lært og ástundað. 

Sigurður varð aldrei uppiskroppa með áhugamál og með þeim ósköpum gerður að þau urðu nær undantekningarlaust að ástríðu meðan á þeim stóð. Áhugi á landafræði átti um tíma hug hans og eftir ótal ferðir um landið og lestur bóka var vart til sá landskapur sem hann kunni ekki skil á. Hið sama einkenndi áhuga hans á tónlist sem hann hafði ákveðnar skoðanir á: klassísk skyldi hún vera og flytjendur hennar helst engir meðalmenn. Spánverjarnir Aragall og Fleta urðu smám saman hans menn. Lestur bóka af ýmsu tagi stundaði hann sér til mikillar ánægju og allt virtist festast honum í minni, hafði einskonar límheila.

Ótalin er veiðimennskan sem án vafa var það áhugamál sem tók hann mestum heljartökum. Hann veiddi á flugu víða um land en sennilega átti hann mestu ánægjustundirnar á bökkum skaftfellsku ánna. Sigurður skrifaði bók um straumflugur og var sjálfur skapandi og laginn við fluguhnýtingar, kenndi áhugasömum veiðimönnum þá list á námskeiðum og skemmti þeim í leiðinni með góðum sögum. Hans þekktasta höfundarverk í fluguhnýtingum er Flæðarmúsin sem kunnugir segja að sé öflugasta flugan enn sem komið er til nota í skolugum ám eins og mörgum þeim skaftfellsku. 

Á heimili Sigurðar og Sólveigar var mikill gestagangur af frændfólki og vinum. Það virtust engin takmörk fyrir því hvað heimilið gat veitt mörgum skjól og munaði þá engu hvort talið var í dögum eða mánuðum enda smámunasemi þeirra hjóna í þessu tilliti engin. 

Sól er gengin undir og ekki þurfti Sigurður að grafa sitt gull fyrir brottförina úr þessum heimi, hann fór eins og hann kom.

Afkomendur og fjölskyldur þeirra eiga samúð okkar.

Kristján, Ásm. Sverrir og systkin


  • Steinsteypir

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744