Samstarf Norðursiglingar, Nettó og Krambúðarinnar - Ekkert hvalkjöt í verslunum Samkaupa á Húsavík

Norðursigling og Samkaup, sem reka verslanirnar Nettó og Krambúðina á Húsavík, hafa gert með sér viljayfirlýsingu um samstarf í markaðssetningu Húsavíkur

Gústaf Gústafsson og Erna Dröfn Haraldsdóttir.
Gústaf Gústafsson og Erna Dröfn Haraldsdóttir.

Norðursigling og Samkaup, sem reka verslanirnar Nettó og Krambúðina á Húsavík, hafa gert með sér viljayfirlýsingu um samstarf í markaðssetningu Húsavíkur sem hvalamiðstöðvar á Íslandi.

Í tilkynningu segir að hluti samkomulagsins feli það í sér að hvalkjöt verður ekki selt í þessum verslunum. Kynningarefni Norðursiglingar verður jafnframt aðgengilegt í verslunum Samkaupa á Húsavík.


Norðursigling er frumkvöðull í hvalaskoðun á Íslandi. Fyrirtækið hefur mótað sér skýra og metnaðarfulla stefnu í umhverfis- og náttúruverndarmálum og hlotið margvíslegar viðurkenningar.

Gústaf Gústafsson, markaðs- og kynningarstjóri Norðursiglingar, segir viljayfirlýsinguna styrkja slagorðið „Húsavík – the Whale Capital of Iceland“ sem notað hefur verið um árabil. „Hvalveiðar og sala á hvalaafurðum hefur verið í algerri andstöðu við stefnu Norðursiglingar. Það er því táknrænt að einmitt hér á Húsavík sé hvalkjöt tekið úr sölu í verslunum.“

Mikill uppgangur er í starfsemi Norðursiglingar. Markvisst er unnið að því að ljúka endurbyggingu gamals eikarbáts sem tekinn verður í notkun 1. júlí. Þetta verður níunda skipið í flota Norðursiglingar og jafnframt umhverfisvænasta hvalaskoðunarskip veraldar, að fullu rafknúið. Tíunda skipið er svo nýkomið til Húsavíkur og hefur hlotið nafnið Sæborg ÞH.

Það sama má segja um Samkaup en í vetur var Samkaup Úrvals verslun á Húsavík breytt í  Nettó lágvöruverðsverslun og í apríl sl. opnaði Krambúðin á Húsavík til þess að mæta aukinni eftirspurn frá nærumhverfinu og einnig til þess að þjónusta aukinn fjölda ferðamanna sem leggur leið sína til Húsavíkur.

Krambúðin og Norðursigling

Gústaf Gústafsson markaðsstjóri Norðursiglingar og Erna Dröfn Haraldsdóttir forstöðumaður markaðssviðs Samkaupa fyrir utan nýopnaða Krambúðina Samkaupa á Húsavík. 


  • Steinsteypir

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744