Prjónar lopapeysur fyrir barnaheimili í Rúmeníu

Ein ég sit og sauma inní litlu húsi segir í vísunni en það á ekki alveg við um Guðrúnu Kristinsdóttur kennara á Húsavík.

Guðrún Kristinsdóttir.
Guðrún Kristinsdóttir.

Ein ég sit og sauma inní litlu húsi segir í vísunni en það á ekki alveg við um Guðrúnu Kristinsdóttur kennara á Húsavík.

Hún hefur aftur á móti setið og prjónað lopapeysur af miklum móð það sem af er ári.

Og er hvergi nærri hætt því Guðrún ætlar að prjóna 57 peysur sem hún ætlar að gefa til barnaheimilis í Rúmeníu.

Þegar ljósmyndari 640.is heimsótti hana að heimili hennar við Sólvelli sat hún við prjónaskapinn og horfði um leið á HM í frjálsum íþróttum í sjónvarpinu.

En hvernig kom það til að hún ákvað að prjóna peysur á heilt barnaheimili ?

“Við hjónin höfum verið SOS styrktarforeldrar frá árinu 2014 og frá þeim tíma höfum við reglulega fengið fréttir af stúlkunni sem við styrkjum en hún býr í Rúmeníu. Í bréfinu sem við fengum um jólin 2018 var sagt frá miklum kulda í desember.

Þá fór ég að hugsa hvort ég gæti ekki gefið þeim sem búa á heimilinu lopapeysur þar sem ég hef gaman af því að prjóna og vantaði verkefni eftir að ég hætti sem formaður Völsungs í september 2018 eftir sjö ára starf". Segir Guðrún sem hafði samband við skrifstofuna hér á Íslandi og þeir settu sig í samband við heimilið í Rúmeníu og þeir vildu gjarnan þiggja gjöfina frá henni.

"Ég fékk svo allar upplýsingar um stærðir og fjölda byrjaði að prjóna 6. febrúar og er stefnan sett á að skila peysunum 57 suður núna í nóvember. Lopann í peysurnar hef ég keypt hjá þeim stöllum í Urðarprent og þær hafa stutt vel og dyggilega við bakið á mér með því að gefa mér góðan afslátt af öllum lopanum í peysurnar.

Markmið mitt með þessu verkefni mínu var að gera allavega eitt gott góðverk á lífsleiðinni og í leiðinni veita hlýju og gleði til þeirra sem þurfa á því að halda og hafa þannig vonandi áhrif á að fleiri gerist styrktarforeldrar”. Sagði Guðrún að lokum en hún hefur fengið nokkrar vinkonur sínar í lið með sér til að ljúka verkinu í tíma.

Ljósmynd Hafþór - 640.is

Guðrún við prjónaskap á haustkveldi.

Með því að smella á myndina má skoða hana í hærri upplausn.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744