Nýtt fyrirtæki í hvalaskoðun

Á síðasta fundi Framkvæmda- og hafnanefndar Norðurþings lá fyrir nefndinni umsókn frá Berki Emilssyni f.h. Sölkusiglinga ehf. um aðstöðu í Húsavíkurhöfn

Nýtt fyrirtæki í hvalaskoðun
Almennt - Hafþór Hreiðarsson - Lestrar 1225

Nýi bátur Sölkusiglinga.
Nýi bátur Sölkusiglinga.

Á síðasta fundi Framkvæmda- og hafnanefndar Norðurþings lá fyrir nefndinni umsókn frá Berki Emilssyni f.h. Sölkusiglinga ehf. um aðstöðu í Húsavíkurhöfn fyrir 23 tonna eikarbát sem nota á til siglinga með ferðamenn.

640.is hitti Börk Emilsson fyrir á Sölku í dag og sagði hann fyrirtækið vera í eigu Sölkuveitinga ehf. sem þau systkinin, Börkur, Jónas og Guðrún Þórhildur, standa að .

En hvernig kom það til að hella sér út í þennnan bransa á ný en Börkur var einn eigenda að Faldinum á sínum tíma ? 

“Okkur bauðst að kaupa þennan glæsilega bát sem er ekki húsvíkingum alls ókunnur, hét upphaflega Fanney ÞH 130 og var smíðaður á Akureyri fyrir þá Sigurbjörn og Sigtrygg Kristjánssyni og Ívar Júlíusson. Okkur fannst því upplagt að koma með hann heim og hann fær aftur sitt fyrsta nafn. Ég vona bara að við fáum pláss við flotbryggju næsta sumar”.

Hvernig verður starfseminni háttað og telur þú að það sé svigrúm fyrir fleiri fyrirtæki sem sigla með ferðamenn á Skjálfanda ?

“Já við teljum pláss fyrir fleiri en fyrir utan hefðbundna hvalaskoðun verðum við með algjöra nýjung hér á Skjálfanda sem ekki er enn tímabært að segja frá. Það dæmi er í undirbúningi og hefur lítillega verið kynnt fólki í ferðaþjónustunni. Við reiknum með að hefja siglingar á vormánuðum 2013 og verðum með þrjár til fjórar hvalaskoðunarferðir á dag fyrir utan  þessa sérferð sem kynnt verður síðar.

Þar sem þetta tengist Sölku þá verður sölu- og kynningarmálin samtvinnuð Sölku þannig að  við teljum þennan rekstur koma til með að styrkja Sölku enn frekar”. Sagði Börkur borubrattur og bætti við að bátnum hafi þegar verið breytt í farþegabát og hann sé nánast tilbúinn en veturinn verður nýttur til að fínpússa hann fyrir sumarið".

En hvenær kemur báturinn ?

“Ja það er nú það, það þarf bara að setja á hann olíu og svo vantar skipstjóra. Ertu með réttindi ? “.

Þá má geta þess að Sölkusiglingar var ekki eina fyrirtækið sem sótti um aðstöðu við höfnina á síðasta fundi Framkvæmda- og hafnanefndar. Þorvaldur Jón Ottósson f.h. Rósir ehf. sótti um aðstöðu fyrir 18 tonna eikarbát sem nota á til hvalaskoðunar.

Framkvæmda- og hafnanefnd benti báðum umsækjendum á að hafa samband við hafnarvörð sem sér um að raða skipum og bátum í höfninni.

 


  • Steinsteypir

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744