Niðurstöður vetrarfuglatalningar

Árleg vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunar Íslands fór fram kringum áramótin og var þetta jafnframt í 61. skipti sem þessar talningar eiga sér stað.

Niðurstöður vetrarfuglatalningar
Almennt - - Lestrar 42788

Hrímtittlingur Carduelis hornemanni. Lj. Yann K.
Hrímtittlingur Carduelis hornemanni. Lj. Yann K.

Árleg vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunar Íslands fór fram kringum áramótin og var þetta jafnframt í 61. skipti sem þessar talningar eiga sér stað.

Annan veturinn í röð voru óvenjumörg svæði talin á Norðausturlandi eða 24 talsins. Fjöldi fugla var því enn og aftur mest mesta móti, eða 28.329 af 48 tegundum (auk ógreindra fugla sem voru 353).

Aðeins einu sinni áður hafa fundist fleiri fuglategundir í vetrarfuglatalningum á Norðausturlandi en það var veturinn 2009/10 þegar 53 tegundir sáust (yfir 23.000 fuglar). 

Ákveðið var að bæta við fjórum nýjum talningarsvæðum meðfram Vestur-Sléttu, frá Oddsstöðum suður í Hvalvík. Það er gert í framhaldinu af nýjum talningarsvæðum á Austur-Sléttu síðastliðinn vetur og er liður í því að bæta þekkingu okkar á vetrarfuglafánunni á Norðausturlandi.

Sem fyrr kemur æðarfuglinn sterkastur út, en nú sáust 16.058 slíkir, eða tæp 57% af heildarfjölda fugla sem er nokkuð hefðbundið. Nánar má lesa um niðurstöður talningu í töflunni hér fyrir neðan (smellið á hana til að stækka hana).

fuglatalning

 

Mikið sást af fýl að þessu sinni en nær allir voru á einu talningarsvæði, umhverfis Rauðanúp. Það sama svæði skilaði þremur súlum sem óvanalegt er að sjá hér á þessum árstíma. Fjöldi straumanda er einnig í hærra lagi, væntanlega vegna nýrra svæða á Melrakkasléttu, sem og fjölda flestra svartfugla, sér í lagi haftyrðla.

Eftir mikinn rauðhöfðafjölda í síðustu talningu er fjöldi þeirra kominn aftur í samt horf. Að sama skapi er fjöldi snjótittlinga langt undir meðallagi. Flækingsfuglar voru fremur fáir, æðarkóngar sáust í nágrenni Húsavíkur og við norðvestanvert Tjörnes, stök hrafnsönd sást á Mývatni og aðeins einn gráhegri sást (við Laxamýri).

Af spörfuglum sáust 22 silkitoppur, glókollur og hrímtittlingur á Húsavík.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur við niðurstöðum talninga en lesa má meira um þessar vetrarfuglatalningar sem og skoða niðurstöður á landsvísu aftur til 2002 á vef Náttúrufræðistofnunar. Einnig bendum við á langtímaniðurstöður talninga umhverfis Tjörnes sem sjá má á heimasíðu Náttúrustofunnar.

Talningarfólk í Þingeyjarsýslum að þessu sinni voru Aðalsteinn Örn Snæþórsson, Aðalsteinn Þórðarson, Ágúst Már Þórðarson, Bergþóra Kristjánsdóttir, Birkir Fanndal, Gaukur Hjartarson, Guðmundur Örn Benediktsson, Gunnar Jóhannesson, Gunnar Óli Hákonarson, Hermann Bárðarson, Jóhann Gunnarsson, María Einarsdóttir, Snæþór Aðalsteinsson, Sólveig Illugadóttir, Svala Björgvinsdóttir, Sædís Sævarsdóttir, Vilhjálmur Jónasson, Yann Kolbeinsson og Þorkell Lindberg Þórarinsson. 

Á meðfylgjandi mynd sem Yann Kolbeinsson er Hrímtittlingur Carduelis hornemanni sem sást nú í fyrsta sinn í talningu, en þessi fugl hefur sést reglulega á Húsavík síðan í apríl 2012. (nna.is)


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744