Létu drauminn rætast og fluttu í sveit

Í Gilhaga í Öxarfirði búa ung hjón með dætur sínar tvær og stefna á að setja upp ullarvinnslu ofl. til að koma sér upp heilsársatvinnu á bænum.

Létu drauminn rætast og fluttu í sveit
Almennt - - Lestrar 1232

Fjölskyldan í Gilhaga. Lj. HKB
Fjölskyldan í Gilhaga. Lj. HKB

Í Gilhaga í Öxarfirði búa ung hjón með dætur sínar tvær og stefna á að setja upp ullarvinnslu ofl. til að koma sér upp heilsársatvinnu á bænum.

Þetta eru þau Brynjar Þór Vigfússon frá Húsavík og Guðrún Lilja Dam Guðrúnardóttir úr Vík í Mýrdal.

Dæturnar heita Bóel Hildur og Edith Beta og eru þær í leikskóla í Lundi.

Brynjar Þór er húsa- og húsgagnasmíðameistari frá Tækniskóla Íslands og starfar hjá Trésmiðjunni Rein á Húsavík. Guðrún Lilja Dam er félagsfræðistúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni og húsgagnasmiður frá Tækniskóla Íslands. Hún starfar sem skólaliði í Öxarfjarðarskóla

Fjölskyldan í Gilhaga. Ljósmynd HKB

Brynjar Þór með Bóel Hildi og Guðrún Lilja heldur á Edith Betu.

Ljósmynd HKB.

“Við höfðum átt okkur þann draum um að flytja í Gilhaga í nokkurn tíma og létum verða af því í júní á síðasta ári” segir Brynjar Þór en hann er ættaður úr Gilhaga. Móðir hans Sigrún Elín Brynjarsdóttir er þar uppalin.

Gilhagi

Gilhagi í Öxarfirði.

“Okkur langaði  að vera í sveit með einhvern búskap og jafnframt því gera okkur einhverja atvinnu, t.d tengda ferðamennsku. Hægt og rólega höfum við verið að koma okkur fyrir með nokkrum dýrum og nátturunni og stefnum að því að gera okkur eins sjálfbær og hægt er með tilliti til vinnu, matar, orku og umhverfis” segir Guðrún Lilja og bætir við að skógræktin í Gilhaga sé orðin nokkuð umfangsmikil og það þurfi að sinna henni nokkuð til að hún dafni vel.

Gilhagi

Þá fannst þeim spennandi að taka við fjölskyldujörðinni og endurvöktu sauðfjárækt í Gilhaga sem var lögð niður að mestu haustið 1998, en þó verið alltaf nokkrar kindur á bænum. Móðurforeldrar Brynjars Þórs, Brynjar Halldórsson og Hildur Halldórsson (Thordis Hurlen), hófu skógrækt af alvöru þegar sauðfjárræktin var lögð niður en áður höfðu þau plantað trjám á jörðinni frá því að bærinn var byggður fyrir rúmlega hálfri öld. Núna eru um 50 tegundir og afbrigði af trjám í Gilhagalandi. Þá stunda þau Brynjar Þór og Guðrún Lilja einnig býflugnarækt.

Býhagi

Býrækt er fyrir alla. Brynjar Þór og Bóel Hildur huga að býinu.

Ljósmynd HKB.

“Býræktin hófst með saklausu tali yfir kaffibolla og eftir að hafa googlað smá um býrækt enduðum við Guðrún á býræktarnámskeiði 2015. Síðan þá höfum við haldið flugur með misjöfnum árangri. Erfiðast hefur verið að halda þeim lifandi yfir veturinn og er ástæðan stutt sumar og langur vetur. Heildar hunangsuppskera frá 2015 er 0.0025 tonn, eða 2,5 kg. “ segir Brynjar en sumarið 2017 byggðum þau hús utan um búin til að verja þau slæmum veðrum og virðist það virka vel.

Gilhagi

Býflugnahúsið hefur virkað vel. 


Um Ullarverkefnið segir:

Ullarvinnslan

Við tókum við verkefni í haust sem hefur verið í undirbúningi hér í Öxarfirði í nokkur ár og snýr að því að vinna ull úr héraði, auka verðmæti ullarinnar beint til bænda, stytta flutningsleiðir og bjóða öllu handverksfólki upp á spennandi efni til að vinna með. Verkefnið snýr að fullvinnslu á gæða ullarbandi fullunnu í héraði. Til þess þurfum við sérhæfðar vélar til vinnslunar. Við munum kaupa ull af bændum hér á bæjum í nágreninu, ásamt því að vinna fyrir alla aðra áhugasama.

Þar sem ullarvinnslan er lítil í sér og unnið í smáum skömmtum verður hægt að benda á kindina sem unnið var af. Við munum fyrst og fremst nýta alla fallegu sauðalitina án þess að lita bandið. Hægt yrði samt að lita með jurtum og helst þá með sem mestu hráefni af jörðinni okkar.

Bandið verður í öllum gerðum og stærðum allt frá þunnum þræði, venjulegu prjónabandi og yfir í stórband. Eins léttspunnu yfir í harðspunnið, í handspunann eða þæfinguna

Vinnslan

Vélarnar koma frá Kanada og ná að vinna ullina á hátt og stærðarskala sem ekki hefur verið mjög aðgengilegur hér á íslandi áður. Vélarnar skilja sundur þelið og togið og vinna bandið í þykktum, gerðum og gæðum sem fyrri tækni hefur ekki ráðið við af íslensku sauðfé.

Hægt er að vinna allskonar þræði í vélunum svo sem geitafiðu, angóru af kanínum og alpakkaull sem og flestum öðrum ullardýrum.

Við vonumst til að ná að panta vélarnar núna í vor og byrja vinnslu í sumar. 

Áfangastaðurinn Gilhagi

Ásamt vinnslunni munum við að setja upp gestastofu þar sem hægt verður að skoða vinnsluna og kynnast nýtingu sauðfjár með áherslu á ullarvinnslu allt frá því að land byggðist og til dagsins í dag. Þar verður hægt að kaupa afurðirnar sem og á heimasíðu.

Í boði verður að kíkja fallegan hring um jörðina og skógræktina hér í Gilhaga sem telur nú yfir 50 trjátegundir og njóta í leiðinni friðsældarinnar og náttúrunnar.

Hópfjármögnun

Nú stendur yfir hópfjármögnun á Indiegogo.com fyrir verkefnið til að fjármagna seinasta hjallann.  Auðvelt er að finna fjármögnunina í gegnum Gilhagi.is

Ullarvinnslan.    Ullarvinnslan.

Með því að smella á myndirnar, sem allar eru aðsendar, er hæg að fletta þeim og skoða í hærri upplausn.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744