Landssöfnun á birkifræi

Hafin er landssöfnun á birkifræi í samstarfi Landgræðslunnar og Hekluskóga við Olís.

Landssöfnun á birkifræi
Almennt - Hafþór Hreiðarsson - Lestrar 125

Hafin er landssöfnun á birkifræi í samstarfi Landgræðslunnar og Hekluskóga við Olís.

Söfnunin er liður í verkefni sem snýr að endurheimt birkiskóga, en þeir eru mikilvægur þáttur í uppgræðslu lands og auka kolefnisbindingu þess.

Söfnunarpokar eru fáanlegir á Olís-stöðvum á Akureyri, í Álfheimum og Norðlingaholti Reykjavík, í Borgarnesi, á Reyðarfirði, Selfossi, Höfn, Hellu, Fellabæ (Egilsstaðir) og Húsavík. Þessar sömu stöðvar taka við pokunum þegar fólk hefur safnað fræi í þá. Starfstöðvar Landgræðslunnar taka einnig við fræpokum.

Ef ekki hentar að koma við á einhverri Olísstöðvanna má safna birkifræi í tau- eða pappírspoka og skila þeim á fyrrnefnda staði. Safnarar eru beðnir að láta miða í pokana miða með upplýsingum um hvar á landinu fræinu hafi verið safnað. Fræið þarf að vera þurrt í pokunum og best er að koma því sem fyrst á söfnunarstaði. Ef söfnunarpokum er ekki skilað inn strax þarf að geyma þá í kæli.

Nöfn þeirra sem safna þurfa líka að fylgja fræpokunum. Átakinu lýkur um miðjan október og þá verður dregið úr nöfnum þeirra sem söfnuðu fræi og vegleg – umhverfisvæn – verðlaun veitt.

Landgræðslan er með starfstöðvar í Gunnarsholti Rangárvallasýslu, Keldnaholti í Reykjavík, á Sauðárkróki, Hvanneyri, Húsavík og Egilsstöðum. Starfstöðvarnar eru opnar virka daga á venjulegum skrifstofutíma. Vefur Landgræðslunnar er á slóðinni land.is.

Á vef Hekluskóga er fínn fróðleikur um söfnun og sáningu birkifræs.


  • Steinsteypir

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744