Byggjum upp sterkari miðbæ

Mikil tækifæri eru til þróunar í miðbæ Húsavíkur. Þá ekki síst við hin sögufrægu Kaupfélagshús.

Byggjum upp sterkari miðbæ
Aðsent efni - - Lestrar 1143

Hlöðver Stefán Þorgeirsson.
Hlöðver Stefán Þorgeirsson.
Mikil tækifæri eru til þróunar í miðbæ Húsavíkur. Þá ekki síst við hin sögufrægu Kaupfélagshús.
 
Húsin að Garðarsbraut 5 (Kaupfélagshúsið og Garðar) eru í eigu fasteignafélagsins Gb5 ehf. og við sem stöndum að því félagi höfum lengi séð fyrir okkur að leggja til uppbyggingar miðbæjarins með því að skapa eitthvað nýtt og spennandi á þessu svæði. Það er
 
þess vegna ekki úr vegi að skrifa nokkur orð um okkar hugmyndir.
 
Nýr miðbæjarkjarni – betri aðstæður
Okkar markmið er að styrkja það sem fyrir er með því að búa verslun, þjónustu og mannlífi sem bestar aðstæður. Hugsanlegar framkvæmdir við Kaupfélagshúsin, með þessu markmiði, hafa verið á hugmyndastigi í mörg ár en nú má segja að þær séu komnar á hönnunarstig. Vinna er farin af stað við útfærslu hugmyndanna en hún er unnin í samráði við Norðurþing með fyrirvara um endanlegt samþykki skipulagsyfirvalda.
 
Við viljum skapa nýjan miðbæjarkjarna með iðandi mannlífi. Við sjáum fyrir okkur að nýr og betri stórmarkaður yrði hryggjarstykkið og grunnur til að búa til eitthvað annað og meira. Við trúum því að nálægð við stórmarkað, þangað sem svo margir eiga erindi oft í viku, skapi kjöraðstæður fyrir aðra verslun og þjónustu sem svo mikilvægt er að dafni í miðbænum. Við trúum því einnig að þessar kjöraðstæður megi svo nýta til að búa til iðandi mannlíf í hinum nýja miðbæjarkjarna. Miðbæjarkjarna þangað sem fólk á erindi og hittist þess vegna fyrir tilviljun. Miðbæjarkjarna þar sem fólk getur sest niður og fengið sér kaffi, líkt og í anddyri kaupfélagsins áður fyrr. Miðbæjarkjarna þar sem fjölbreytt verslun og þjónusta getur blómstrað við sem bestar aðstæður.
 
Ekki er búið að hanna byggingar og enn er þó nokkuð í að byggingarframkvæmdir geti farið af stað. Í hönnunarferlinu viljum við leggja mikla áherslu á að hugsanlegar byggingar og umhverfi þeirra falli vel inn í þá byggð sem fyrir er. Við viljum að nýjar byggingar fegri miðbæinn og dragi ekki úr vægi Kaupfélagshússins og annarra reisulegra húsa í nágrenni þess. Við gerum miklar kröfur til allra hönnuða hinna hugsanlegu nýbygginga. Með þessum hætti vonumst við til að skapa megi umhverfi sem styrki miðbæinn og auðgi mannlífið.
 
Næstu skref með samfélaginu
Vinnan við útfærslu þessara hugmynda heldur áfram og við viljum svo sannarlega að hún fari fram í sátt við samfélagið. Við munum því, eftir því sem vinnunni vindur fram, kynna verkefnið frekar fyrir bæjarbúum og öðrum áhugasömum með von um að það hrindi af stað umræðu. Frjó umræða getur verið mikilvægt innlegg í hönnunarferli sem þetta. Helsta markmiðið er jú að byggja upp sterkari miðbæ fyrir bæjarbúa og gesti þeirra.
 
Fyrir hönd Gb5 ehf.,
Hlöðver Stefán Þorgeirsson.
Húsavík

  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744