Uppgjri: Sumari 2012 - Aldrei segja aldrei

N er komi a v a setja punktinn aftan vi gleymanlegt feralag sem knattspyrnusumari 2012 var lkt og raun bar vitni. Me llu mti sgulegt fyrir

Uppgjri: Sumari 2012 - Aldrei segja aldrei
rttir - Rafnar Orri Gunnarsson - Lestrar 1044 - Athugasemdir ()

Nú er komið að því að setja punktinn aftan við ógleymanlegt ferðalag sem knattspyrnusumarið 2012 var líkt og raun bar vitni. Með öllu móti sögulegt fyrir mig og eflaust alla þá sem finna græna hjartsláttinn óma í brjósti sér.



Í apríl mánuði bar ég þá hugmynd undir Ingvar Björn, minn elskulega vin, um hvort að hann hefði áhuga á því að leggja mér lið í verkefni sem væri búið að blunda innra með mér um tíma. Hugmyndin var að taka umfjöllunareggið okkar síðustu ára og gera það að skrímsli. Skapa hér umhverfi á Húsavík í kringum Völsung sem væri í hæðsta klassa, vera all-inn eins og maðurinn sagði. Hann svaraði játandi og í kjölfarið náðum við samkomulagi við Hafþór Hreiðarsson um samstarf og Græni Herinn varð að veruleika sem hluti af 640.is heimasíðu Hafþórs samhliða facebook síðu okkar undir sama nafni.

Mig langaði til þess að gera eitthvað sérstakt fyrir félagið, gera eitthvað sem að ætti engan sinn líka hér á landi og myndi hjálpa Völsungi á einn eða annan hátt. Mig langaði til þess að leikmönnum og fólkinu sem starfar í kringum liðin myndi finnast það vera virkilega þess virði sem það svo sannarlega er og mig langaði til þess að fá bæjarbúa og brottflutta Völsunga til þess að fá áhuga á liðinu af einhverri alvöru. Með ómældri ástríðu, metnaði og dugnaði tókst mér ásamt hjálp skæruliða Græna Hersins að ná markmiðunum og sterkur umfjöllunarpakki auk fyrsta flokks Völsungsleikskráar mótaði grunninn. Græni Herinn er orðinn skrímsli en gæfuríkt og gott skrímsli sem brosir til allra Völsunga og Húsvíkinga. Til þess er leikurinn einmitt gerður. Í gegnum sumarið hafa borist þakkarkveðjur allstaðar að úr heiminum, bæði af götum bæjarsins sem og langt utan að úr heiminum stóra þar sem fólk tjáir þakklæti sitt fyrir að gefa sér kost á því að fylgja hverju skrefi hjá liðunum en einnig að upp hafi vaknað aftur Völsungshjartað og stoltið sem fylgir því að vera Völsungur, partur af órjúfanlegri heild sem þessi einstaka fjölskylda er. Þetta er eitt það dýrmætasta sem mér hefur hlotnast fyrir mitt framlag.

haffi

Í sumar voru beinar lýsingar, umfjallanir, myndir og viðtöl frá öllum leikjum meistaraflokka Völsungs bæði karla og kvennaliðsins. Með örfáum undantekningum voru allir leikir liðanna teknir upp á myndavél og oftar en ekki myndavélum svo hægt væri að bjóða upp á fleiri sjónarhorn. Frá fyrsta leik til hins síðasta ferðaðist ég með karlaliðinu og ég horfði á þessa frábæru íþróttamenn sækja sér gull um háls, þungavigtareynslu og kreisti þá og hvatti í gegnum súrt og sætt en hvæsti líka er þeir ekki stóðu sig sem skyldi. Það er partur af leiknum.

Það er öllum ljóst að það er töfrum líkast hversu langt er hægt að komast ef trúin er til staðar á verkefninu og það á við um öll lífsins svið og form. Ef hugur allra sem að verkefninu koma er stilltur á sömu tíðni fer ferðin aðeins eina leið, upp á við. Það þykir öllum vænt um íþróttafélagið okkar Völsung og það eru flestir sammála um það að félagið er hjartsláttur samfélagsins. Því skal ekki gleyma og má aldrei þar sem með sterku íþróttafélagi er býr yfir faglegri og metnaðarfullri nálgun á öllum sviðum getur það styrkt okkur öll sem einstaklinga og heild til muna, bæði yngri sem og eldri iðkendur.

Það er efniviður í fagra bók og jafnvel heilu regnskógana ef ég ætlaði mér að fara djúpt og ítarlega í sögulega ævintýraferð sumarsins hér í þessari kveðjugrein en þetta sumarið var allur tilfinningaskalinn klifinn. Mig langar til þess að tala um samkenndina, samhuginn og kærleikann sem ríkti svo sterkt allt um kring síðustu skref þessarar ferðar og gerir enn. Ef fegurð er lýsingarorð sem nota skal þá myndi ég ætla að það sé yfir samstöðu Húsvíkinga í kjölfar kveðjustundar Steingríms Kristins Sigurðssonar af þessu tilverusviði. Þetta sýndi okkur og minnti öll á hvað það er sem býr innra með okkur og við eigum og getum öll notað og gefið svo miklu meira í stærra magni á fleiri stundum, jafnvel öllum stundum. Ef við stöndum svona þétt saman í öllum lífsins verkefnum sem snerta okkur sem samfélag og einstaklinga þá getum við hjúfrað okkur saman og alið okkar sálir á besta stað veraldar en það er aðeins undir okkur komið. Við ráðum því sjálf, hugsið um það.

Ástæða þess að þetta fyrirbæri sem Græni Herinn er til ber að þakka yndislegu og frábæru fólki en það eru Steini og Maja. Fyrir tæpum sex árum síðan er ég byrjaði fyrst að skrifa um Völsung og halda úti heimasíðu fyrir liðið þá voru þau fyrst til að koma sem klettur að baki mér og standa enn. Þau hafa styrkt mig og okkur sem að þessu koma frá fyrsta degi og það er í formi allskyns krafta sem ég verð ætíð þakklátur fyrir. Heimabakarí hefur borið kostnað á verðlaunagripum á lokahófi, bolagerð, peysugerð, heimasíðu og verðlaun fyrir mann leiksins á heimaleikjum svo eitthvað sé nefnt öll þessi ár. Þau voru ein af fáum einstaklingum sem klöppuðu mér á bakið síðustu ár og virkilega þökkuðu mér fyrir vinnu mína en eldmóður og ástríða þeirra til félagsins leyndi sér aldrei. Fyrir mig hefur það verið þvílík forréttindi að fá það tækifæri að gera þessa hluti í samstarfi við þau og sendi ég þeim allar mínar hjartansþakkir og kærleika því það er fyrir þau að Græni Herinn er til í dag.

Að lokum vil ég enda þetta á því að þakka ykkur sem að fylgdu okkur í sumar, ykkur sem að sátuð sveitt yfir beinum lýsingum á facebook, lásuð umfjallanirnar og viðtölin sem og horfðuð á myndböndin. Þakkir færi ég fyrirtækjunum sem styrktu okkur í sumar og gerðu okkur það kleift að fjármagna upptökuvél í háklassa en engin vél var til innan félagsins fyrir gagnasafn Völsungs þegar út í sumarið var farið. Þúsund þakkirnar sendi ég til Ingvars, Haffa Hreiðars, Bjarka Breiðfjörðs, Kjarra Trausta, Sindra Ingólfs, þjálfara, leikmanna, stjórn Völsungs og síðast en ekki síst Hrannars Björns sem sat með mér heilu næturnar á meðan ég klippti myndbönd og undirbjó næstu daga og vikur. Nærvera hans var mér ómetanleg.

Þetta er lokasöngur sumarsins og bikarinn er kominn til Húsavíkur. Það höfðu ekki margir trú á því í upphafi tímabils að við myndum lyfta dollunni hér á loft í lok sumars en sú varð raunin og meirihluti bæjarbúa varð vitni að því, aldrei segja aldrei. Það er ljóst að Græni Herinn er kominn til að vera og markmið og metnaður okkar hefur alltaf verið skýr en það er að gera enn betur og stækka enn meira með hverju skrefi og hverju ári. Annað væri fáfræði og heildarhugmyndin fallin um leið. Ég vona innilega að metnaður og vilji þeirra sem að Völsungi standa sé svo að þið fáið áfram umhverfi og umfjöllun sem Völsungur á skilið. Hvort það verði ég eða einhver annar sem standi fremstur fylkingar næsta sumar með hjartað á yfirferð og sigurvímukeiminn angandi um allar götur yfir sumartímann er enn óákveðið. Aldrei segja aldrei.

Ég tileinka alla mína vinnu og minn þátt í þessum titli þeim Steina bakara og Maju. Takk fyrir allt!

ÁFRAM VÖLSUNGUR!!

Með einlægri Völsungskveðju,
Rafnar Orri Gunnarsson
Ritstjóri Græna Hersins
lokamynd


Athugasemdir

  • Herna

Ingvar Bjrn-Rafnar Orri- Bjarki Breifjr