Umfjöllun: Völsungur valtađi yfir Tindastól

Völsungur mćtti Tindastól í 1.umferđ Lengjubikars kvenna en liđin eru saman í riđli 3 í C-deild. Leikurinn fór fram í Boganum en hann var skráđur sem

Umfjöllun: Völsungur valtađi yfir Tindastól
Íţróttir - Ingvar Björn Guđlaugsson - Lestrar 782 - Athugasemdir ()

Varamenn léku sér fyrir leik!
Varamenn léku sér fyrir leik!

Völsungur mætti Tindastól í 1.umferð Lengjubikars kvenna en liðin eru saman í riðli 3 í C-deild. Leikurinn fór fram í Boganum en hann var skráður sem heimaleikur Tindastóls. 

Byrjunarlið okkar var svohljóðandi;
Anna Jónína Valgeirsdóttir, Elma Rún Þráinsdóttir, Bojana Besic, Jóney Ósk Sigurjónsdóttir (f), Brynja Matthildur Brynjarsdóttir, Ásrún Ósk Einarsdóttir, Dagbjört Ingvarsdóttir, Helga Björk Heiðarsdóttir, Anna Halldóra Ágústsdóttir, Ruth Ragnarsdóttir og Þórunn Birna Jónsdóttir. 

Á bekknum voru; Helga Jóhannsdóttir, Rakel Óla Sigmundsdóttir, Guðný Björg Barkardóttir, Berglind Héðinsdóttir, Magnea Ósk Örvarsdóttir, Sigrún Vala Hauksdóttir og Petra Rut Ingvarsdóttir. 

Völsungar áttu fyrri hálfleikinn með húð og hári og kom Anna Jónína í markinu aðeins við boltann þegar hún pikkaði upp langar hreinsanir og fékk sendingar til baka. Bojana Besic veitti öllu liðinu mikið öryggi og stýrði vel frá öftustu línu. Stelpurnar byrjuðu beittar en eftir 40 sekúndur slapp Þórunn Birna í gegn vinstra megin eftir sendingu Ruthar en skot hennar var varið í horn. 

Bojana átti svo skot úr teignum sem var varið áður en hún þrumaði aukaspyrnu rétt yfir markið. Helga Björk var næst til að reyna á markvörðinn sem enn sá við okkar stúlkum. Við fórum að vera grimmari í teignum og duglegri við að skjóta en enn má auka við skotafjöldann. Eftir hornspyrnu endaði skalli Þórunnar Birnu rétt framhjá stönginni.

Á markamínútunni 43. kom svo fyrsta mark leiksins. Dagbjört og Helga Björk spiluðu sín á milli upp völlinn og Helga lagði boltann að endingu út á Dagbjörtu sem skaut góðu skoti frá vítateig neðst í markhornið vinstra megin. 1-0 verðskulduð forysta. Rétt fyrir hálfleikinn munaði svo litlu að Anna Halldóra myndi auka við forystuna en fast skot hennar var varið yfir markið. 1-0 því staðan í hálfleik.

Völsungur gerði fjórar skiptingar í hálfleik. Petra Rut, Rakel Óla og Guðný Björg komu inn á í stað Elmu, Brynju og Ásrúnar sem allar höfðu átt fantafínan fyrri hálfleik. 

Liðið þurfti smá tíma til að ná áttum eftir breytingarnar og fengu Stólarnir aukaspyrnu alveg við vítateiginn strax í byrjun. ANNA JÓNÍNA varði þá spyrnu alveg gríðarvel. 

Á 50.mínútu jukum við forystuna í 2-0. Dagbjört skeiðaði þá upp vinstra megin og átti fyrirgjöf ætlaða Rakel sem lenti í baráttu við markvörðinn um boltann. Markverðinum tókst að kýla boltann út en ekki lengra heldur en á Þórunni Birnu sem lagði boltann snyrtilega í netið.

Aðeins mínútu síðar var forystan orðin 3-0. Völsungur spilaði sig upp vinstra megin sem endaði með frábærri fyrirgjöf á fjærstöngina þar sem Anna Halldóra mætti og þurfti lítið annað að gera en að stýra boltanum í netið sem og hún gerði. 3-0 eftir 51.mínútu og þótti það síst of stórt.

Jóney átti skot í slá og yfir áður en að Bojana óð upp allan völlinn og tók þríhyrning við Ruth rétt utan teigs. Hún fékk boltann auðvitað aftur (Þannig virkar þríhyrningur!) og hélt áfram inn í teig þar sem skot hennar var varið. Á 65.mínútu gerðum við skiptingu þar sem Ruth fór útaf og Berglind Héðins kom inn á í hennar stað.

Á 67.mínútu varð þung bylta inn á teig Stólanna þegar boltinn kom þangað boppandi og varnarmaður og markvörður óðu út í boltann. Guðný Björg ætlaði ekkert að gefa þetta auðveldlega eftir og óð á þær og næstum vann boltann. Því miður kútveltust þær allar um og Guðný þurfti að yfirgefa völlinn sökum meiðsla. Sigrún Vala kom inn á í hennar stað.

Á 71.mínútu skoruðum við eina ferðina enn. Langur bolti upp hægra megin á Önnu Halldóru sem óð upp að endamörkum og átti lága fyrirgjöf sem Rakel Óla skaut að marki en markvörðurinn varði með fótunum út í teig þar sem Þórunn Birna var rétt stúlka á réttum stað og kláraði af yfirvegun í auða hornið. 4-0 og leikurinn algjörlega okkar, hverja einustu sekúndu.

Magnea Ósk kom inn á í stað Þórunnar í kjölfarið og Helga Jóhanns kom svo í markið í stað Önnu Jónínu. Rakel og Helga Björk fengu nokkur hálffæri og ágætis færi sem þær klikkuðu á áður en að Rakel stakk boltanum inn á Helgu sem kláraði færi sitt vel yfir markvörðinn og kom okkur í 5-0 á 93.mínútu.

Urðu það lokatölur og því góður sigur í fyrsta leik. Í sannleika sagt vorum við mikið betra liðið í dag, allar 18 á skýrslu fengu að spila og margar voru að þreifa sig áfram í nýrri stöðu. Liðið geislaði af sjálfsöryggi og helst má segja að þær hafi skort drápseðlið framan af því sannarlega fengum við færin. Mjög jákvæður fyrsti leikur hjá stelpunum og þetta gefur þeim vonandi gott veganesti fyrir næsta leik sem er 6.apríl.

Bojana Besic og Petra Rut spiluðu sinn fyrsta leik fyrir Völsung og óskum við þeim til hamingju með það. Brynja Matthildur, Berglind Héðins, Sigrún Vala og Helga Jóhanns spiluðu allar sinn fyrsta meistaraflokksleik í Lengjubikar og óskum við þeim til hamingju með það. Einnig bjóðum við Rakel Ólu velkomna í liðið á nýjan leik.

ÁFRAM VÖLSUNGUR!


Athugasemdir

  • Herna

Ingvar Björn-Rafnar Orri- Bjarki Breiđfjörđ