Umfjöllun, myndbönd af mörkunum og myndir frá fyrsta leik vetrarins

Völsungur mćtti KF í Boganum fyrr í dag í fyrsta leik sínum ţetta áriđ í Kjarnafćđisdeildinni. Völsungar skörtuđu hvítum búningum líkt og “heimaliđiđ” og

Umfjöllun, myndbönd af mörkunum og myndir frá fyrsta leik vetrarins
Íţróttir - Rafnar Orri Gunnarsson - Lestrar 750 - Athugasemdir ()

Fyrsta skref vetrarins
Fyrsta skref vetrarins

Völsungur mætti KF í Boganum fyrr í dag í fyrsta leik sínum þetta árið í Kjarnafæðisdeildinni. Völsungar skörtuðu hvítum búningum líkt og “heimaliðið” og þurftum við því að spila í grængulum vestum yfir. Eins og gengur og gerist á þessum árstíma spila aðallega þeir Völsungar sem búsettir eru norðan heiða og fengu því margir að sýna sig og sanna í þessum fyrsta leik undirbúningstímabilsins.

Nýtt andlit mátti finna í markinu en Grenvíkingurinn Hjörtur Geir Heimisson stóð á milli stangana og mun gera það í mótinu. Hann komst vel frá sínum fyrsta leik fyrir Völsung en hann hefur allan sinn meistaraflokksferil spilað með Magna. Í bakvarðarstöðunum voru Sindri Ingólfsson og Bergur Jónmundsson og miðvarðaparið skipuðu Gunnar Sigurður Jósteinsson og Sigvaldi Þór Einarsson.

Á miðri miðjunni voru Eyþór Traustason, Arnþór Hermannsson og Guðmundur Óli Steingrímsson sem spilaði í Völsungsgrænu(m sokkum) í fyrsta skipti í langan tíma. Hann mun gera það áfram vonandi sem lengst! Á köntunum voru Bjarki Freyr Lúðvíksson og Hrannar Björn Steingrímsson en uppi á topp var Ásgeir Sigurgeirsson.

Völsungar byrjuðu leikinn illa og létu lítið fyrir sér finna og áttu erfitt fram á við. Á 15.mínútu komust KF menn í 1-0 eftir glæsilegt skallamark en Eggert Kári Karlsson var þar að verki. Völsungar bættu sig þó eftir því sem leið á leikinn og Hrannar Björn fékk vítaspyrnu á 20.mínútu eftir fyrirgjöf frá hægri kanti í ágætis sókn. Arnþór Hermannsson steig á punktinn en brást bogalistin í þetta skiptið þar sem markvörður heimamanna varði vel.

arnthor

Menn fóru að komast aðeins betur inn í leikinn og til að mynda átti Hrannar gott skot frá vítateigshorni sem var varið og Ásgeir skallaði rétt framhjá. Rétt fyrir hálfleik átti Sindri Ingólfs svo fyrirgjöf inn í teig og Ásgeir kom á ferðinni og skallaði fast í átt að marki en markvörðurinn varði í horn. Upp úr horninu sparkar varnarmaður boltanum upp í loft og svífur hann í fallegum boga út í teig þar sem Ásgeir Sigurgeirs er fyrstur að boltanum og setur hann fallega í slá og inn! 1-1 í hálfleik.

beggi

Okkar menn spiluðu mun betur í seinni hálfleik og voru líklegri en í þeim fyrri. Þó var mikið stress á mönnum og menn mikið að drífa sig á síðasta þriðjungnum sem orsakaði það að sóknirnar runnu út í sandinn.

Á 60.mínútu komust Fjallabyggðarmenn í 2-1. Kristinn Rósbergsson slapp einn í gegn og skaut að marki en Hjörtur varði vel. Því miður speglaðist boltinn til baka í Kristinn og þaðan í markið.

Okkar menn gáfust þó ekki upp og voru líklegri eftir þetta. Á 85.mínútu tókst svo loks að jafna en Bergur Jónmunds tók þá innkast á Ásgeir sem lék á varnarmann og sendi laglega inn í teig, beint í hlaupið hjá Eyþóri Traustasyni sem lék upp að marki og kláraði færi sitt af mikilli yfirvegun. Virkilega góð sókn og vel gert hjá Eyþóri sem þar með skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark fyrir Völsung. Til hamingju Eyþór.

paro

Leikurinn var svo flautaður af fljótlega og 2-2 jafntefli því niðurstaðan. Heilt yfir átti liðið ágætis leik. Byrjaði illa en skánaði eftir því sem á leið. Menn uxu í stöður sínar og frambærilegasta breytingin þótti mér hjá Eyþóri Trausta sem spilaði sig betur og betur inn í leikinn í hlutverki sínu aftarlega á miðjunni. Sigvaldi var öflugur í nýrri stöðu í hjarta varnarinnar og hreinlega geislaði af sjálfsöryggi eftir sumarið. Hjörtur varði nokkrum sinnum vel í markinu og verður gaman að fylgjast með honum í mótinu. Bergur var traustur í sínum aðgerðum og það er virkilega gaman að sjá Guðmund Óla í Völsungstreyjunni á nýjan leik. Hann mun færa liðinu aukin gæði og reynslu úr 1.deildinni sem getur klárlega nýst okkur.

gummi

Semsagt; Döpur byrjun en ágætis bæting og jafntefli niðurstaðan. Fínasti leikur miðað við 6.janúar og fyrsta æfingarleik. Gaman verður að fylgjast með framhaldinu.

Hér má sjá myndasyrpu frá Sævari Sigurjónssyni.

Hér fyrir neðan má sjá myndband með helstu atvikum leiksins.


Athugasemdir

  • Herna

Ingvar Björn-Rafnar Orri- Bjarki Breiđfjörđ