Vel heppnuð afmælishelgi í Hvalasafninu

Um síðastliðna helgi hélt Hvalasafnið á Húsavík upp á 20 ára afmæli safnsins.

Vel heppnuð afmælishelgi í Hvalasafninu
Almennt - - Lestrar 309

Eva framkvæmdastjóri skar fyrstu kökusneiðina
Eva framkvæmdastjóri skar fyrstu kökusneiðina

Um síðastliðna helgi hélt Hvalasafnið á Húsavík upp á 20 ára afmæli safnsins. 

Á heimasíðu Hvalasafnsins segir að upphaflega hafi staðið til að halda upp af afmælið í fyrra en sökum mikilla breytinga á starfsmannateymi safnsins var ákveðið að fresta hátíðinni um eitt ár. 

Dagskráin hófst á fimmtudagskvöldið með Hvalaráðstefnunni sem nú var haldin í fimmta sinn. Fjöldi fyrirlesara héldu erindi, þar af fjórir sem komu til landsins frá Englandi í þessum tilgangi. Þeirra á meðal voru góðkunningjar safnsins, þeir Richard Sabin sýningastjóri hjá Náttúrugripasafninu í London og hinn bandaríski hvala- og höfrungasérfræðingur Erich Hoyt. Báðir hafa verið í samskiptum við safnið frá upphafi þess og komið oft til Húsavíkur. Hvalaráðstefnan var vel sótt og voru áhorfendur um 70 talsins.

Á föstudaginn kl. 18 var sögusýning Hvalasafnsins opnuð með pompi og prakt. Sýningin spannar sögu safnsins allt frá því að forsendur þess sköpuðust vegna vinsælda hvalaskoðunar sem þá var nýleg atvinnugrein á Íslandi og allt fram til dagsins í dag. 

Á laugardaginn milli 14-16 var svo sérstök hátíðaropnun hvar boðið var upp á afmælistertur frá Heimabakarí og fleira kruðerí. Frítt var inn á safnið og var mætingin frábær eða rétt um 200 manns.

"Afar ánægjulegt var að sjá heimamenn sýna safninu slíkan áhuga og nýta tækifærið til þess að skoða aðrar sýningar þess í leiðinni" sagði á heimasíðu Hvalasafnsins.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744