Til hamingju HSÞ!

Um síðastliðna helgi sat ég glæsilega veislu í tilefni af aldarafmæli HSÞ, sem haldin var að Laugum í Reykjadal.

Til hamingju HSÞ!
Aðsent efni - - Lestrar 968

Kristján Þór Magnússon.
Kristján Þór Magnússon.

Um síðastliðna helgi sat ég glæsilega veislu í tilefni af aldarafmæli HSÞ, sem haldin var að Laugum í Reykjadal.

Á þessum tímamótum er tilhlýðilegt að staldra við, horfa yfir farinn veg og minnast alls þess frábæra starfs sem unnið hefur verið innan héraðssam-bandsins frá því í upphafi síðustu aldar. Saga HSÞ (og áður SÞN og UNÞ) er samofin sögu samfélag-anna í Þingeyjarsýslum undanfarna öld og hefur sannarlega skilað mikilvægum sigrum á hinum ýmsu sviðum samfélagsins, hvort heldur sé litið til ræktunar lýðs eða lands, svo vitnað sé í kjörorð sambandsins.

Sá félagsauður sem HSÞ hefur byggt upp á hverjum tíma hefur verið okkur ómetanlegur. Félagsauðurinn ber þess líka glöggt vitni hve mikla þýðingu það hefur hverju samfélagi að eiga dugmikið og fórnfúst fólk sem er tilbúið að helga sig félagsstarfi í héraðinu. Félagsstarfi sem hefur það að markmiði að gera samfélag okkar auðgra af fólki sem leggur sig fram við að rækta garðinn sinn, hvernig svo sem á það er litið. HSÞ má vera stollt af sínu starfi í þágu betra, öflugra, og heilbrigðara samfélags Þingeyinga í 100 ár.


Mér persónulega hlýnar alltaf um hjartaræturnar þegar HSÞ ber á góma, ekki síst vegna þeirra fjölmörgu góðu minninga sem ég tengi starfi þess. Æskuminningar frá heitum júlídögum Landsmótsins 1987 á Húsavík, keppni á Sumarleikum HSÞ að Laugum, héraðsmótum í fótbolta, eða víðavangshlaupum í Mývatnssveit eða Bárðardal. Síðast en ekki síst er ég þakklátur fyrir þau sterku vináttubönd sem með okkur börnum úr héraðinu tókust fyrir að verða aldarfjórðungi síðan, og haldast mörg hver enn. Það eru raun-verðmæti. Takk fyrir það HSÞ!

Ég hvet alla Þingeyinga til að standa vörð um starfsemi héraðssambandsins til framtíðar. Hvort sem það er með því að taka þátt í langstökki á Landsmóti 50+ undir merkjum HSÞ, hita kaffi á unglingalandsmóti eða sinna sjálfboðastarfi hvurskonar á vegum sambandsins. Megi framtíð HSÞ vera björt og einkennast af mörgum persónulegum og samfélagslegum sigrum Þingeyinga, ungra sem aldinna. Fyrir hönd íbúa Norðurþings þakka ég fyrir samstarfið hingað til og hlakka til að leggja mín lóð á vogarskálarnar svo starfsemi HSÞ megi áfram blómstra.

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744