Skokki fagnar 10 ára afmæli í dag

Nýverið fengu Guðmundur Árni Ólafsson og Sigurjón Ármannsson heiðurstilnefningu Völsungs fyrir að vera brautryðjendur almenningsíþrótta á Húsavík.

Skokki fagnar 10 ára afmæli í dag
Aðsent efni - - Lestrar 331

Nýverið fengu Guðmundur Árni Ólafsson og Sigurjón Ármannsson heiðurstilnefningu Völsungs fyrir að vera brautryðjendur almenningsíþrótta á Húsavík. 

Þeir félagar hlupu úti allan ársins hring áratugum saman og sífellt fleiri tóku sér þá til fyrirmyndar, létu veður og færð ekki á sig fá og skokkuðu reglulega sér til heilsubótar.

Í febrúar árið 2010 stofnuðu nokkrir hlauparar á Húsavík Skokka og er hér stiklað á stóru í 10 ára sögu hlaupahópsins.

Hlaupahópurinn Skokki stofnaður

Skokki leit dagsins ljós þegar nokkrir húsvískir hlauparar undirbjuggu sig fyrir Mývatnsmaraþon vorið 2010. Lítill hópur kom saman á tveimur löngum æfingum laugardagana 6. og 13. febrúar.  Skokki varð til og starfsemin mótuð meðan hlaupið var rólega frá sundlauginni út að Hringveri og til baka, rúmlega 20 km leið í hvort skipti. Þeir sem lögðu grunn að Skokka þann 13. febrúar 2010 voru Ásgeir Kristjánsson, Guðmundur Árni Ólafsson, Heiðar Smári Þorvaldsson, Jón Friðrik Einarsson og Þórir Aðalsteinsson. Nafnið var valið til heiðurs Bjarna Ásmundssyni, blessuð sé minning hans. Bjarni "Skokki" var léttur í spori og virtist varla tylla tám á götu þegar hann gekk rösklega. Mikill fjöldi hlaupara hefur mætt á Skokkaæfingar, sem hafa aldrei fallið niður í 10 ár! Æfingar eru á laugardögum frá sundlaug Húsavíkur og á íþróttavellinum á þriðjudögum. 

Allir skokkarar eru velkomnir í hópinn

Skokki fer í hlaupaferðir erlendis annað hvert ár, stendur fyrir Botnsvatnshlaupi á Mærudögum og Gamlárshlaupi í samvinnu við Völsung. Um nýliðin áramót var Heiðar Hrafn Halldórsson úr Skokka valinn íþróttamaður ársins hjá Völsungi fyrir árið 2019. Árið 2017 hafði Anna Halldóra hlotið þann heiður og árið 2013 var Jón Friðrik Einarssonar kjörin frjálsíþróttamaður Kiwanis. Afreksfólkið okkar er góð fyrirmynd, en gaman væri að fá fleiri til að skokka á Húsavík sér til heilsubótar. Við viljum greiða götu byrjenda og bjóða þeim sem hlaupa með Skokka upp á tilsögn í þeim tilgangi að fjölga í hópnum til framtíðar. Við skorum á fólk sem hefur áhuga á hreyfingu að vera með í hollri útivist þar sem allir eru jafnir og glaðir. Í Skokka hafa alltaf verið einhverjir fremstir meðal jafningja, tilbúnir til að bera keflið fram um veg.  Megi svo áfram verða!

fh. Skokka, Þórir Aðalsteinsson

Ljósmynd - Aðsend 

Við Sigurbogann að loknu Parísarmaraþoni í apríl 2015.  Fv. Þórir Aðalsteinsson, Ágúst Óskarsson, Guðmundur Árni Ólafsson, Jón Kristinn Haraldsson og Jón Friðrik Einarsson.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744