PCC BakkiSilicon styrkir verkefni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík hefur undanfarin ár staðið fyrir verkefni þar sem áhersla er lögð á að meta hávaðamengun í sjónum og hvaða áhrif

Marianne Helene Rasmussen með mælitækin góðu.
Marianne Helene Rasmussen með mælitækin góðu.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík hefur undanfarin ár staðið fyrir verkefni þar sem áhersla er lögð á að meta hávaðamengun í sjónum og hvaða áhrif hún hefur á hvalina í flóanum. 

Skjálfandi er þekktur fyrir þann fjölda hvala sem þar halda sig. Hrefna er einn algengasti hvalurinn í Skjálfandaflóa en hnúfubakar, höfrungar og hnísur eru einnig algeng sjón.

Steypireyður, stærsta dýr veraldar sést þar líka sem og aðrir sjaldséðari gestir eins og t.d. langreyður, sandreyður, andarnefja og háhyrningur. 

Spurningar hafa vaknað hvaða áhrif aukin umferð um flóann hefur á hvalina, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna í hvalaskoðun, auknar komur farþegaskipa og aukningu flutningaskipa í tengslum við uppbygginguna á Bakka.

Í vor ákvað PCC BakkiSilicon að taka höndum saman við verkefnið og styrkja þessar rannsóknir og lagði til fé svo hægt væri að fjárfesta í hljóðmælitækjum til að fylgjast betur með þessum áhrifum. Marianne Helene Rasmussen sem leiðir rannsóknina sagði að mælitækið muni einnig vera notað til að rannsaka hegðun lunda með tilliti til aukinnar umferðar um flóann.

Frá þessu er greint á fésbókarsíðu PCC BakkaSilicon en þaðan er meðfylgjandi mynd fengin.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744