Mitt félag, Völsungur

Nýlega skrifaði aðalstjórn Völsungs grein sem bar titillinn Völsungur í vanda.

Mitt félag, Völsungur
Sveitarstjórnarkosningar 2018 - - Lestrar 388

Hafrún Olgeirsdóttir.
Hafrún Olgeirsdóttir.

Nýlega skrifaði aðalstjórn Völsungs grein sem bar titillinn Völsungur í vanda.

Þar var meðal annars farið yfir stöðuna á rekstri félagsins og þá staðreynd að framlag sveitarfélagsins til íþróttaæskulýðsstarfa hafa lækkað að raungildi á síðustu árum. Framlag Norðurþings til íþrótta- og æskulýðsmála sem hlutfall af heildargjöldum árið 2016 var 8,33%. Til samanburðar má nefna að þetta sama hlutfall var 14,12% í Fjarðabyggð og 11,94% í Snæfellsbæ.

Sjálf hef ég stundað íþróttir með Völsungi í 20 ár með hléum. Á mínum yngri árum æfði ég fótbolta, handbolta og skíði. Ég fór 6 ára gömul að æfa fótbolta. Fyrst um sinn gat ég einungis æft með strákunum, þar sem ekki var í boði flokkur fyrir svona ungar stelpur. Á þessum tíma var meistaraflokkur kvenna til að mynda ekki með lið hér í bæ. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og árið 2006 skráði meistaraflokkur Völsungs kvennalið til leiks í Íslandsmótinu eftir margra ára hlé. Þetta var gríðarlega mikilvægt skref fyrir allar stelpur sem æfðu fótbolta á svæðinu, meðal annars vegna þess að þær sem vildu halda áfram að stunda íþróttina þurftu ekki að flytja úr bænum til að gera það. Mig langaði til að mynda ekki að hætta að æfa fótbolta eða flytja úr bænum 15 ára gömul. Vert er að taka fram að reynsla mín af félaginu er að langmestu leyti tengd fótboltanum og þar af leiðandi taka skrif mín mið af því en ítreka ég mikilvægi þess að allt íþrótta-og æskulýðsstarf í sveitarfélaginu fái aukið framlag.

Iðkendur félagsins gera sér flestir grein fyrir því að það er dýrt að reka batterí eins og íþróttalið. Það er endalaust af fjáröflunum í gangi, verið að leita eftir styrkjum frá fyrirtækjum og einstaklingum, og gríðarlega mikið starf unnið í sjálfboðavinnu. Til að mynda eru tvær konur hér í bæ sem hafa í fjölda ára þvegið keppnisbúninga fyrir meistaraflokkana tvo í fótbolta eftir hvern einasta leik og fá ekkert fyrir nema ánægjuna. Svona einstaklingsframtök eru ómissandi en þau eru sjaldgæf og við sem samfélag verðum að gera betur.

 Mikilvægi þess að hafa virkt og gott íþróttafélag í bænum er varla hægt að setja í orð. Lang flestar minningar mínar úr æsku tengjast íþróttum á einhvern hátt. Nú er ég sjálf að verða 27 ára í haust, átti barn síðasta sumar og taldi mig vera hætta að stunda fótbolta. Svo kemur alltaf einhver púki í mig og hef ég undanfarið verið að spila leiki fyrir meistaraflokk kvenna Völsungs Ég er þó oft spurð hvernig í ósköpunum ég nenni ennþá að æfa fótbolta. Svarið er nokkuð einfalt. Í fyrsta lagi er fótbolti aðaláhugamálið mitt og því skiljanlegt að ég eigi erfitt með að slíta mig frá boltanum, en í öðru lagi, og þeim mun mikilvægara, þá er ótrúlega verðmætt að vera hluti af liðsheild. Að vera hluti af einhverju stærra og meira. Að upplifa sæta sigra og súr töp, jafnt innan innan vallar sem utan, með liðsfélögum sem síðar verða vinir, stundum til æviloka. Það er engin tilviljun að mikið af góðu íþróttafólki kemur frá Húsavík. Hér er lagður mikill metnaður í starfið, bæði æfingar hjá krökkum á unga aldri sem og lengra komna. Það breytir því samt ekki að við verðum að gæta okkur á því að taka starfinu ekki sem sjálfsögðum hlut og vanrækja það, heldur spýta í lófana og gera enn betur. 

Ég tel það til hagsbóta fyrir samfélagið okkar að íþróttafélagið standi ekki höllum fæti og tel ég því mikilvægt að auka framlag sveitarfélagsins til Völsungs. Það er eitt af baráttumálum mínum í komandi sveitastjórnarkosningum. Völsungur á ekki að vera í vanda. Ef þú ert sammála mér, hvet ég þig til að setja X við E á kjördag þann 26. maí næstkomandi. 

Hafrún Olgeirsdóttir skipar 2. sæti E-Lista Samfélagsins í komandi sveitastjórnarkosningum.

 

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744