Miklar framkvæmdir að Hafnarstétt 1

Ytra útlit Hafnarstéttar 1 sem meðal annars er heimili Hvalasafnsins hefur heldur betur breyst undanfarna daga en verið er að mála húsið í haustblíðunni.

Miklar framkvæmdir að Hafnarstétt 1
Almennt - - Lestrar 740

Verið er að mála Hvalasafnið þessa dagana.
Verið er að mála Hvalasafnið þessa dagana.

Ytra útlit Hafnarstéttar 1 sem meðal annars er heimili Hvalasafnsins hefur heldur betur breyst undanfarna daga en verið er að mála húsið í haustblíðunni.

Sautján ár eru liðin síðan að japanska listakonan Namiyo Kubo skreytti húsið að utan með listaverkum sínum sem nú víkja eftir langa og dyggja þjónustu.

Hið nýja útlit tekur mið af skiptri notkun hússins en eftir að Steinsteypir festi kaup á hluta jarðhæðarinnar hefur veitingahúsið Lókal og handverkshúsið Kaðlín flutt starfsemi sína þangað auk þess sem rýmið hýsir almenningssalerni.

Að sögn Heiðars Hrafns Halldórssonar verkefnisstjóra Hvalasafnsins er málningarvinnan þó aðeins brot af frekari framkvæmdum sem standa til á næstunni. Leitað hafi verið til Arnhildar Pálmadóttur arkitekts varðandi hönnun á nýju ytra útliti hússins og verið sé að vinna eftir þeim hugmyndum.

Næst á dagskránni sé að skipta um þakrennur og niðurföll, auk þess sem endurnýjun á hurðum og gluggum á jarðhæð sé á verkefnaáætlun. Þá verði settir upp nokkrir stálrammar utan á húsið sem munu koma til með að merkja þá starfsemi sem er í byggingunni á hverjum tíma.

„Þetta var allt löngu komið á tíma og ánægjulegt að hægt sé að endurnýja innviði hússins eins og þörf krefur á um. Í framhaldinu verður farið í endurnýjun á geymslurými safnsins að norðan í samvinnu við leiðbeinandi reglur Safnaráðs“, segir Heiðar Hrafn en á myndinni hér að neðan má sjá málarann geðþekkka Sigurmund Friðrik Jónasson munda pensilinn við vesturstafn hússins.

Frissi Jónasar


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744