Mér rennur til rifja

Á Húsavík hrukku ýmsir upp við vondan draum nú á dögunum.

Mér rennur til rifja
Aðsent efni - - Lestrar 963

Kristján Pálsson.
Kristján Pálsson.

Á Húsavík hrukku ýmsir upp við vondan draum nú á dögunum. Þá höfðu margir kjörnir trúnaðar-menn okkar þvert á reynslu undanfarinna áratuga álpast til sameiningar Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Eyþings.

Að auki eru þeim fengin öll völd í nýja félaginu þegar þannig ber undir. Þá loksins náðum við langþráðum minnihluta í stjórn þessara nýju samtaka og þannig hyggjumst við ná árangri. Sem stuðningsmanni meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings rennur mér til rifja að sjá hve nafna mínum Kristjáni Þór virðist umhugað  um að láta sporðrenna sér með þessum hætti.

Í miðlinum 640.is  frá 12. febrúar birtist Langhundur undirritaður af einum sveitarstjóra og oddvitum þingeyskum. Þar er útskýrt hvernig sá litli  sem hefur afsalað sér öllu nema meðaumkuninni kemur ár sinni fyrir borð í samskiptum við þann stóra og sterka. Það á meðal annars að  gerast  með því að styrkja og efla þá tilfinningu okkar að Akureyri sé borg og íbúarnir borgarbúar.  Einnig taka þeir fólki vara við því að velta sér um of upp úr styrkleika hlutföllum innan stjórnar hins nýja félags því Akureyringar séu 63% íbúa svæðisins og við þannig öll í sama liði.

Í ljósi sögunnar og þessarar  efnislegu tilvitnunar minnar í „Langhundinn“ Þá virðast þrátt fyrir allt glampar í stöðunni.  Þeir byggjast á því hvernig sá sem geispað hefur golunni félagslega varðandi tiltekið mál  horfir glaður fram á veginn fyrir hönd okkar kotunganna.

Ég hef í seinni tíð verið einn þeirra Húsvíkinga sem reynt hefur að glöggva sig á þeim einfalda veruleika að um áratuga skeið höfum við í augum Akureyrar sem bæjarfélags fyrst og síðast flokkast sem beitiland. Þessu hlutskipti una ekki allir hér heima nógu vel, því nú er löngu nauðbeitt á þessum slóðum. Þegar vel er að gáð leynist þó af og til einhver mylsna hér hjá okkur sem vekur áhuga hirðumanna í höfuðstaðnum við Eyjafjörð og nú var það Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga. Þeim hafði sést yfir þessa þingeysku starfsemi sem rekin hafði verið á Húsavík um áratuga skeið og gengið bærilega en að þeirra mati fyrir löngu átt að vera komin til Akureyrar.

 Þá voru góð ráð dýr. Þeir hugsa skýrt  þar innfrá þegar hagsmunir eru annars vegar og lykilmenn okkar urðu sér úti um lipurmenni sem víðast í fyrrnefndu beitilandi. Mannkynssagan kann frá slíku að greina og heyrir það því ekki til nýmæla. Niðurstaðan hnígur í þá átt  að ekki hafi þurft um torleiði að fara að settu marki. 

Sú afstaða mín sem ég gat um hér að framan fékk aldeilis byr í seglin nú á dögunum þegar Akureyringar kröfðust og fengu bæði stjórnarformann og framkvæmdastjóra ásamt höfuðstöðvum nýs félags sem verða munu á Akureyri. Sá dólgslegi yfirgangur sem þetta sýnir er mér umhugsunarefni og hann undirstrikar hvers við gætum vænst af samtökum þessum. Sveitarstjóri og oddvitar hér um slóðir skilja ekki þann hroll sem setur að sumum umbjóðendum þeirra. Reykvíkingum svo dæmi sé tekið dettur ekki í hug að krefjast formanns stjórnar sambands Ísl. Sveitarfélaga þó þar hafi safnast fyrir reytingur af fólki. Svona sporðrennir úlfurinn okkur  eins og þeim langmæðgum ömmu og Rauðhettu litlu í ævintýrinu, því þær voru ósköp hrekklausar. 

Er yfir höfuð eitthvað sem getur orðið glámskyggnum til bjargar? Það held ég ekki, og alls ekki ef Glópagull er í boði. Um árabil hefur Eyþing nuddað í þá átt að koma höndum yfir Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga og notað til þess allar færar leiðir. Lengi vel reyndist sú fyrirstaða hér um slóðir að hvorki gekk né rak. Smátt og smátt dofnaði þó andstaðan hér í Norðurþingi þar sem í aðalatriðum einn bæjarfulltrúi meirihlutans beitti sér gegn þeirri snautlegu hugmyndafræði sem hér óð uppi. Svo kom að því. Vegna fjölskylduaðstæðna   þurfti hann að taka sér frí frá störfum og þá rann málið í gegn um meirihlutann.

Er einhver glóra í stjórnsýslu af þessu tagi? Vissu sveitarstjórnarmenn Norðurþings og aðrir sem að þessu komu virkilega ekki hvað þeir voru að gera? Við hér á Húsavík höfum undanfarna áratugi með skipulögðum hætti verið rúin störfum sem öll hafa verið flutt til Akureyrar. Nú sjáum við sjálf um rúninginn og komum að sjálfsögðu frá honum bæði kaghýdd og blóðrisa. Erum við virkilega svona  snautlega undirbúin eða er kannski eitthvað allt annað hér á ferðinni? Það er fjölmargt sem við Þingeyingar þurfum til Akureyrar að sækja eðli málsins samkvæmt, þó við flettum okkur ekki klæðum þegar þeim hentar.

Kristján Pálsson

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744