Lögeign fasteignasala opnuð á Húsavík

Fasteigna- og lögfræðistofan Lögeign hefur opnað skrifstofu að Garðarsbraut 26 á Húsavík en fyrirtækið var stofnað fyrr í sumar.

Lögeign fasteignasala opnuð á Húsavík
Almennt - - Lestrar 749

Hermann Aðalgeirsson lögfræðingur og fasteignasali
Hermann Aðalgeirsson lögfræðingur og fasteignasali

Fasteigna- og lögfræðistofan Lögeign hefur opnað skrifstofu að Garðarsbraut 26 á Húsavík en fyrirtækið var stofnað fyrr í sumar.

Það er Hermann Aðalgeirsson lögfræðingur og löggiltur fasteignasali sem stendur að rekstrinum.

“Ég flutti til Húsavíkur s.l. haust eftir 12 ára útlegð í höfuð-borginni ásamt konu og tveimur drengjum. Ég er menntaður lögfræðingur og hef starfað á lána- og fasteignamarkaði frá útskrift og hef því mikla reynslu af fasteignaviðskiptum og skjalagerð henni tengdri.

Þegar ákvörðun var tekin um að flytja norður ákvað ég að bæta við mig fasteignasöluréttindunum og starfaði ég hjá Pétri Berg Eggertssyni á fasteignasölunni Höfðabergi fyrstu sex mánuðina og gekk það samstarf vel. Úr varð samt að ég opnaði mína eigin stofu nú í byrjun sumars sem ber nafnið Lögeign” sagði Hermann í samtali við 640.is.

Að sögn Hermanns hafði hann ágætis þekkingu á fasteignamarkaðnum og nærsveitum áður en þau fluttu heim, bæði vegna þess að hann hafi alltaf fylgst vel með því sem gerist á heimaslóðum og eins vegna þess að hann þurfti í fyrra starfi að þekkja vel fasteignamarkaðinn víða um land.

“Ég var því vel meðvitaður um þá hækkun sem hefur átt sér stað á svæðinu og þeirri húsnæðiþörf sem hafði myndast sem endurspeglast í háu leiguverði. Ég var einnig svo heppinn að fá strax að koma nálægt sölu á stórum og metnaðarfullum verkefnum líkt og byggingunum á Höfðavegi 6 og Útgarði 6. Ólík hús, en eftirspurnin eftir eignum í þessum húsum sýnir vel hversu mikill þörfin var á nýjum eignum á svæðinu.

Það er ekki langt síðan ég sá tölfræði yfir það að á Húsavík eru einna flestir fermetrar á einstakling. Skýringin á því er að mörgu leyti sú að mikið að eldri hjónum eða einstaklingum er í mjög stórum eignum með oft á tíðum stórum og viðhaldsfrekum garði. Hef ég strax orðið var við það á fyrstu mánuðum mínum í starfi að erfitt hefur verið fyrir þessa einstaklinga að minnka við sig og fara í “hentugra” húsnæði þar sem takmarkað framboð hefur verið á þess háttar eignum.

Þess vegna held ég að Útgarður 6 muni koma til með að koma ákveðinni hringrás á stað sem er nauðsynleg í öllum sveitarfélögum, þar sem yngra fjölskyldufólk leysir það eldra af í stærri húsnæðum. 

Eins verð ég strax var við töluverðan áhuga hjá fólki á að flytja til Húsavíkur eða í nærsveitir, og er þá oft um að ræða brottflutta sem vilja flytja “heim”. Og blessunarlega hefur verið töluvert um það undanfarna mánuði. Það sem helst hefur aftrað þeim einstaklingum frá því sem ég hef rætt við hafa verið annarsvegar atvinnumál og hins vegar húsnæðismál” segir Hermann.

Að lokum hvetur Hermann fólk sem er í sölu- eða kauphugleiðingum að heyra í honum heimsækja hann á skrifstofuna, sem er eins og áður kemur fram, til húsa að Garðarsbraut 26.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744