Lærði bjórgerð í Englandi

"Bjórnum hefur verið mjög vel tekið og það sást kannski best á Mærudögunum.

Lærði bjórgerð í Englandi
Almennt - - Lestrar 827

Þorsteinn Snævar afgreiðir öl á Mærudögum.
Þorsteinn Snævar afgreiðir öl á Mærudögum.

"Bjórnum hefur verið mjög vel tekið og það sást kannski best á Mærudögunum. Ég er virkilega þakklátur Húsvíkingum og nærsveitungum fyrir hlý orð og bara móttökurnar yfir höfuð” Segir Þorsteinn Snævar Benediktsson bjórgerðarmaður í handverksbrugghúsinu Húsavík Öl.

Húsavík Öl hóf framleiðsluna í vor og hafa tíu tegundir af bjór komið á markað til þessa en Þorsteinn Snævar bruggar einungis öl, s.s ekki lagerbjór, mjöð né annað áfengi. Hægt er að brugga 500 lítra í senn og afkastagetan er um 3000 lítrar á mánuði en hann gæti bætt við gerjunartanki fyrir næsta sumar og aukið framleiðsluna eitthvað.

“Ég hef verið að gera nokkuð klassíska stíla, þá aðallega pale ales en einnig aðeins leikið mér að belgískum stílum, og  notast við mjög hefðbundin hráefni en á næsta ári langar mig að nýta aðeins meira hráefnið sem er hér í kringum okkur, t.d. greni, ber eða blóðberg.

En eins og staðan er nú notast ég að mestu við korn frá Þýskalandi og Englandi, þá aðallega bygg og hveiti en líka hafra og rúg. Humlarnir eru flestir amerískir, ástralskir eða nýsjálenskir. 

Ég mun rúlla þessu aðeins og nýjar tegundir eru sífellt í þróun en nokkrir spennandi bjórar eru væntanlegir. Bjórinn hefur aðallega farið til veitingastaða á Húsavík og í nágrenni. Þá munu Sjóböðin á Húsavíkurhöfða vera með bjórinn á boðstólum fyrir gesti sína og munu þau klárlega verða mikilvægur viðskiptavinur”. Segir Þorsteinn Snævar.

Bjóráhuginn kviknaði í Menntaskóla

Þorsteinn Snævar segist hafa verið á fjórða ári í Menntaskólanum á Akureyri þegar bjóráhuginn kviknaði. “Mér fannst vanta betri bjór og byrjaði strax að ferðast og leita eftir betri bjórum og flutti til að byrja með til Austurríkis þar sem ég ætlaði í bjórgerðarnám. En svo fór nú að ég nam fræðin í Bretlandi og útskrifaðist frá Brewlab í Sunderland sem er samvinnuverkefni brugghúsa og háskólanna í Sunderland og Newcastle í Englandi.

Ég var allann tímann að fara að koma upp brugghúsi á Húsavík og hvergi annarstaðar. Eftir að ég kom heim þurfti ég að vinna og safna upp svolitlum pening í startið og eins huga að húsnæði fyrir brugghúsið. Ég fékk mjög góða aðstoð hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og Ari Páll og Reinhard reyndust mér gífurlega vel við að koma þessu af stað”. Sagði Þorsteinn Snævar.

Þá kom fram í spjalli hans við 640.is að fljótlega hafi sú ákvörðun verið tekin að opna einnig ölstofu innan brugghússins sem staðsett er í gömlu mjólkurstöðinni á Húsavík. Unnið verður að því að koma henni upp í vetur samhliða því að brugga eðalöl handa bjórþystum viðskiptavinum.

Húsavík Öl

Þorsteinn Snævar Benedikstsson bjórgerðarmaður í Húsavík Öl.

Með því að smella á myndina er hægt að skoða hana í stærri upplausn.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744