Kolbrún og Jóhannes í Rauðuskriðu fengu viðurkenningu á Degi íslenskrar náttúru

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, veitti 16. sept. sl., á Degi íslenskrar náttúru, útvarpsþættinum Samfélaginu sem er á dagskrá Rásar 1

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, veitti 16. sept. sl., á Degi íslenskrar náttúru, útvarpsþættinum Samfélaginu sem er á dagskrá Rásar 1 á RÚV hljóðvarpi, fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðu-neytisins.

Við sama tækifæri veitti hún Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti en hana hlutu annars vegar hjónin Kolbrún Úlfsdóttir og Jóhannes Haraldsson á Hótel Rauðuskriðu í Aðaldal og hins vegar Stella Guðmundsdóttir í Heydal í Mjóafirði.

Í rökstuðningi ráðherra vegna Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti kemur m.a. fram að þau Kolbrún og Jóhannes hafi komið Hótel Rauðuskriðu í gegn um strangt vottunarferli norræna Svansins fyrst íslenskra hótela og fyrsti gististaðurinn utan Reykjavíkur. Síðar hafi það fengið gullmerki Vakans, sem er umhverfis- og gæðavottunarkerfi ferðaþjónustunnar. Sterk hugsjón hafi drifið þau áfram og sé litið til Rauðuskriðu sem fyrirmyndarfyrirtækis í ferðaþjónustu í sveitum, ekki bara á Íslandi heldur einnig í umhverfisstarfi hótela á norrænum vettvangi.

Stella hljóti viðurkenninguna m.a. fyrir að hafa skapað náttúruvænt ferðaþjónustufyrirtæki á afskekktu svæði sem annars hefði verið hætt við að legðist í auðn. Þannig hafi hún stuðlað að því að dreifa álaginu sem af fjölgun ferðamanna hlýst með því að skapa og bjóða upp á nýjan áfangastað í íslenskri náttúru. Af nærgætni og virðingu fyrir umhverfinu hafi hún opnað augu ferðamanna fyrir undrum náttúrunnar í þessum ævintýradal.

Meðfylgjandi mynd af handhöfum náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti ásamt ráðherra er fengin af vef Umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744