John Andrews ráðinn þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Völsungi

Knattspyrnudeild Völsungs hefur náð samkomulagi við John Andrews um þjálfun meistaraflokks kvenna næsta tímabil.

Harpa, John og Dagbjört. Lj. Græni herinn
Harpa, John og Dagbjört. Lj. Græni herinn

Knattspyrnudeild Völsungs hefur náð samkomulagi við John Andrews um þjálfun meistaraflokks kvenna næsta tímabil.

John er frá Cork á Írlandi og kom hingað frá Indlandi eftir gott tímabil þar sem hann vann með Dsk Shivajians og alþjóðlegu akademíunni frá Liverpool FC.

Frá þessu segir á fésbókarsíðu Græna hersins:

Hann er með UEFA-A þjálfararéttindi ásamt því að hafa lokið háskólagráðu í íþróttafræðum og heilsu. Hann er einnig vottaður ISSA og FMS einkaþjálfari

John hefur áður starfað á Íslandi en hann lék knattspyrnu fyrir Aftureldingu í nokkur ár og gerðist síðar þjálfari fyrir félagið. M.a. sem aðalþjálfari mfl. kvenna hjá Aftureldingu í Pepsi deildinni í nokkur ár. 

John mun einnig sinna þjálfun tveggja yngri flokka hjá félaginu sem og styrktarþjálfun bæði hjá yngri flokkum og meistaraflokkunum.

Þessi ráðning er gífurlega mikill fengur fyrir Völsung og liður í því að koma meistarflokknum, sem er í 2. deild upp í 1. deild. Hjá liðinu eru nú þegar ungar og efnilegar stelpur ásamt nokkrum reynslumeiri. Unnið er að því að stækka leikmannahópinn og hafa Harpa Ásgeirsdóttir og Dagbjört Ingvarsdóttir endurnýjað samninga sína við liðið. Harpa hefur spilað 141 leik fyrir Völsung og skorað 46 mörk. Hún hefur einnig spilað með KR í efstu deild. Dagbjört hefur spilað 79 leiki fyrir Völsung og skorað 13 mörk. Hún hefur verið fyrirliði liðsins undanfarin tvö ár.

En hvað finnst John um að vera kominn til starfa hjá Völsungi?

"Ég er himinsæll og glaður að vera komin aftur til Íslands! Ég var farin að sakna rækjusalatsins og þessarar miklu orku og metnaðar sem einkennir Íslendinga. Þetta er á margan hátt bara eins og á Írlandi - bara á öðru tungumáli!

Ef þið rekist á mig þá hikið ekki við að heilsa og spjalla. Ég er alltaf tilbúinn að setjast niður og ræða boltann, heilsu og líkamsrækt. Nú eða bara hvað sem þið viljið spjalla um!

Húsavík er dásamlegur staður og gæðin hér í Völsungi og starfinu eru mjög mikil. Ég get hreinlega ekki beðið eftir því að fá að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem er framundan hér og skrifa söguna á jákvæðan hátt fyrir þennan magnaða bæ og frábæra félag!


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744