Jákvæðir kjósendur og minna skítkast!

Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar og listarnir hafa verið birtir hver á fætur öðrum og framundan er mikil vinna hjá þessu flotta fólki.

Jákvæðir kjósendur og minna skítkast!
Aðsent efni - - Lestrar 1376

Kristjana María Kristjánsdóttir.
Kristjana María Kristjánsdóttir.

Nú styttist í sveitarstjórnarkosningar og listarnir hafa verið birtir hver á fætur öðrum og framundan er mikil vinna hjá þessu flotta fólki.

Í fyrra, áður en ég flutti til Noregs, byrjaði ég eins og áður að fylgjast með alþingiskosningunum. Sjálf telst ég sennilega nokkuð pólitísk og hef gaman af því að fylgjast með pólitík en í fyrra hætti ég, slökkti á sjónvarpinu og útvarpinu því ég gat bara ekki meir. Neikvæðnin og nornaveiðarnar sem einkenndu kosningabaráttuna voru svo með ólíkindum að ég var miður mín. Ég þrífst afar illa í neikvæðu umhverfi og þetta var of mikið fyrir mig.

Þessi grein er þverpólitísk og beinist ekki að neinum sérstökum flokkum né aðilum og hvar ég stend í pólitík skiptir heldur ekki máli.

Það skipti heldur ekki máli í hvaða flokki menn voru eða kusu í fyrra, það fengu allir á baukinn. Í stað þess að einbeita sér að málefnum og  líta á framtíðina með jákvæðum augum og góðum lausnum þá vildi fólk frekar einbeita sér að því að grafa upp sora um alla frambjóðendur, á öllum listum og tala um allt sem miður fór eða gekk ekki upp (að þeirra mati).

Ég vil með þessari grein biðja fólk um að staldra aðeins við og líta í eigin barm í komandi kosningabaráttu.  Það er mjög mikilvægt að þeir sem eru í framboði nái augum og eyrum kjósenda á eigin forsendum með því að kynna stefnuskrána, sannfæra kjósendur að einmitt þessi stefnuskrá sé sú besta. Alltof oft fellur fólk í þá gröf að ætla að hala inn atkvæðum með því að ná þeim frá öðrum... skemma og eitra fyrir næsta manni og vonast þannig til þess að fólk gefi sér atkvæðið í staðinn.

Þetta á líka við um kjósendur! Þeir falla mjög oft í þá gröf að tjá sig um allt neikvætt til að reyna að hafa áhrif á aðra... áhrif á hvað þeir eiga ekki að kjósa í stað þess að vera jákvæðir um það sem þeir trúa á og reyna þannig að fá fólk til að kjósa það sama!

Við erum með fullt af ungu og öflugu fólki sem er að stíga sín fyrstu skref í pólitík með góðri aðstoð þeirra eldri og reyndari. Gefum þessum einstaklingum tækifæri á að sýna okkur hvað þeir hafa fram að færa, hlustum á hvaða lausnir þeir hafa og framtíðarsýn.

Það er til dæmis mun líklegra til ávinnings að rölta á milli framboðsskrifstofanna, spjalla við frambjóðendur um þeirra stefnur og koma sínum hugmyndum á framfæri heldur en að „skítakastast“ á netinu. Þar vinnur enginn.

Ég get auðvitað bara talað fyrir mig en ég held að fólk hljóti að kjósa þann flokk eða það fólk sem kemur hreint fram og setur fram sínar hugmyndir með góðum og jákvæðum hætti. Ég persónulega vil ekki að fólk reyni að ná mínu atkvæði með því að segja mér eitthvað sem hinir flokkarnir gera eða gerðu rangt, það get ég kynnt mér sjálf og miðað skoðun mína út frá því! Ég vil fá að vita hvað sá hinn sami frambjóðandi ætlar að gera rétt!

Í lokin vil ég segja þetta: Það skiptir nefnilega meginmáli að kjósa það sem maður trúir á en ekki það sem einhver sagði okkur að trúa ekki á.

Bestu kveðjur frá Noregi

Kristjana María

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744