Jakobsvegurinn - Ferðasaga annar hluti.

Í bænum Zubiri áttum við notalegt kvöld og hittum full af skemmtilegu fólki, en við sáum það fljótt að það skapast skemmtileg stemming meðal ferðalanga í

Jakobsvegurinn - Ferðasaga annar hluti.
Fólk - - Lestrar 2708

Á veitingastað í Cirauqui með norskum pílagrímum.
Á veitingastað í Cirauqui með norskum pílagrímum.

Í bænum Zubiri áttum við notalegt kvöld og hittum full af skemmtilegu fólki, en við sáum það fljótt að það skapast skemmtileg stemming meðal ferðalanga í alberginum á kvöldin, þegar fólk er að útbúa sér kvöldmat, allt upp í tíu manns við eina eldavél, en það urðu aldrei nein vandræði, þar sem allir hafa nógan tíma.

Dagur 2.

Tókum daginn snemma og vorum komnar af stað um 8, veðrið var yndislegt hlýtt og hálfskýjað þegar við hjóluðum áleiðis til Pamplona.

Við fórum stíginn, þ.e. sömu leið og göngufólkið fer, og getur hann verið allavega, þröngar slóðir, malarstígar, grýttir stígar, malbikaðir stígar, og gamlir sveitavegir allt í bland, leiðin þennan morgun var um skóglendi og þurftum við oft að beygja okkur undir trén, virkilega skemmtileg rússíbanaleið.

Magdalenubrúin.

Magdalenubrúin í Pamplona.

Guðað á glugga í kjötbúð.

Girnileg kjötbúð í Pamplona.

í Pamplona.

Í Pamplona.

Þegar við komum til Pamplona fórum við yfir Magdalenubrú á ánni Arga. En Pamplona stendur á hæðarkolli og er umkringd virkisveggjum, sem náðu að umlykja borgina allt til ársins 1900. Við stoppuðum góða stund í borginni en komum þó ekki auga á nein naut á hlaupum.

Sólblómaakur.

Sólblómaakur í nágrenni Pamplona.

Upp upp í mót.

Á leið upp Perdón.

Vindmyllur á Perdónfjalli.

Vindmyllur á Perdón.

Alto de Perdón.

Komnar upp á Alto de Perdón og Pamplona í fjarska.

Áleiðis héldum við og blasti þá við okkur fjallið Alto de Perdón og þurftum við leiða hjólin tölvert á þeirri leið. Fjallið er þakið vindmyllum, og það sennilega ekki af ástæðulausu enda nokkuð vindasamt þarna uppi. Niðurleiðin var ansi grýtt svo við máttum leiða hjólin niður til að byrja með, og áfram héldum við í gegnum nokkra litla bæi og þorp, og var nú leiðin að mestu niður á við, og enduðum við í bænum Cirauqui. Þar fengum við inni á yndislegu albergie við hliðina á kirkjunni. Um kvöldið fórum við í messu, skildum reyndar ekkert en gátum þó farið með faðirvorið og trúarjátninguna þar sem við skynjuðum sama hrinjandann. Eftir messuna borðum við á veitingastað í kjallaranum á alberginu.

Puente la Reina.

Í Puente la Reina.

Þorpið Cirauqui framundan.

Á leið til Cirauqui.

Kvöldstund á veitingastað.

Kvöldverður í Cirauqui með norskum og amerískum pílagrímum.

Albergið í Cirauqui.

Á gististað í Cirauqui.

Dagur 3.

Niður úr þorpinu Cirauqui liggur gamall rómverskur vegur sem mun hafa verið lagður fyrir um 1600 árum og verður nú að segjast að hann hentaði ekki vel fyrir hjólreiðar, en þetta var nú bara smá spotti svo það reddaðist. En eftir þennan kafla leist okkur svo ljómandi vel á malbikaðan veg sem lá meðfram göngustígnum og tókum við hann, en því miður enduðum við inn á hraðbrautinni og vorum búnar að hjóla smá stund þegar vegalöggan kom og benti okkur á að heppilegra væri að fara yfir á stíginn og fengum við því lögreglufylgd að næstu afrein til að komast yfir á stíginn.  Þegar við höfðum svo hjólað svolítinn spotta á stígnum komu þessar elskulegu löggur aftur og vildu endilega benda okkur á gamlan malbikaðan sveitaveg sem væri miklu betri fyrir hjólafólk en til þess að komast á hann þurftum við að fara yfir eins og einn skurð og auðvitað hjálpuðu þeir okkur með hjólin yfir hann, þvílíkir sjentilmenn þessir spánverjar.

Lagt í hann frá Cirauqui.

Erum að leggja í hann frá Cirauqui.

Rómverski stígurinn.

Rómverski stígurinn var frekar erfiður viðureignar.

Ella með spænskum lögregluþjónum.

Með góðkunningjum okkar í spænsku vegalöggunni.

Morgunverður í Estella.

Morgunverður í Estella.

Kirkjan í Estella.

Kirkjan í Estella.

Bærinn Estella  (stjarna) varð næst á vegi okkar virkilega fallegur, þar stoppuðum við og fengum okkur morgunmat, en héldum svo áfram í yndislegu veðri.

Rétt áður en við komum að bænum Los Arcos komum við að vínbúgarði sem við fengum að skoða með leiðsögumanni og versluðum auðvitað rauðvínsflösku fyrir kvöldið, en við vorum búnar að komast að því að eftir eina rauðvínsflösku að kvöldi og einn bolla af magnesíum í heitu vatni sváfum við bara virkilega vel og vöknuðum mjúkar og fínar og til búnar í næsta hjóladag. Já og þess má geta að í Los Arcos stoppuðum við á fallegu torgi og fengum okkur að borða og hittum þá löggurnar yndislegu aftur og urðu miklir fagnaðarfundir.

Vínbúgarðurinn Alzania.

Vínbúgarðurinn sem við heimsóttum.

Vínviður.

Svona var þetta allstaðar meðfram veginum í Rioja.

La Rioja.

La Rioja.

Vínakur í Riojahéraði.

La Rioja í hnotskurn.

Komið til Lograno.

Komnar til Logrono höfuðborgar héraðsins.

Um sex leitið náðum við til borgarinnar Logrono sem er höfuðstaður Riojahéraðs, þá var hitinn kominn í 30 stig og við því fegnar að komast á gott albergue með loftkælingu og fínni þvottaaðstöðu. Þar deildum við herbegi með tveimur texasbúum og einum þjóðverja þeir voru allir um tvítugt, og sögðu þeir okkur að þeir hefðu hitt 91 árs gamlan þjóverja sem var að ganga 5 til 8 km. á dag og sagðist hafa nógan tíma, þannig að það má segja að fólk er þarna á göngu á öllum aldri.

Dagur 4.

Frá Logrono lá leið okkar um fallegar sveitir og þorp Rioja héraðs, stoppuðum fyrst í Navarrete og skoðuðum kirkjuna og fengum stimpil í vegabréfið, þá var bærinn Nájera „staðurinn milli klettanna“ virkilega fallegur bær niður í gili, en okkur hafði nú fundist allir bæir og þorp sem við fórum í gengum hingað til vera upp á hæðum.

Haldið af stað frá Logrono.

Á leið frá Logrono í morgunsárið.

Nájera.

Í Nájera.

í Nájera.

Og þessi líka frá Nájera.

Leiðin til Santo Domingi de la Calzada.

 Á veginum til Santo Domingo de la Calzada.

Hádegisverður í Santo Domingo de la Calzada.

Hádegisverður.

Um klukkan 2 vorum við komnar í bæinn Santo Domingo de la Calzada og hitinn kominn yfir 30 stig svo við ákváðum að taka okkur góða siestu og matarhlé. Við héldum svo áfram seinnipartinn og náðum til bæjarins Belorado, en það höfðu greinilega fleiri náð þeim áfanga því að nú voru öll albergin orðin full, og vorum við á leið út úr bænum þegar við komum að hóteli, þar sem Guðrún náði að heilla hótelstjórann upp úr skónum og kría út síðasta herbegið, og mikið vorum við fegnar þar sem 12 km voru í næsta gististað, en við vorum búnar að hjóla 73 km þennan dag.

Dagur 5.

Frá Belorado lá leiðin uppá við um fjöllin „Montes de Oca“ en sagan segir að pílagrímum hafi staðið stuggur af stigamönnum í fjöllunum hér áður fyrr, en nú er þar ræktaður nytjaskógur og var þetta mjög friðsæl leið hjá okkur. Við fórum í gegnum þorpið Villafranca Montes de Oca og skammt fyrir ofan það er hæðin Alto La Pedraja, þar komum við að minnisvarða um fólk sem hvarf í borgarstyrjöldinni á Spáni 1936-1939 , en þarna fanns fjöldagröf fyrir nokkrum árum og talið er að um 300 manns beri þar beinin. Við höfðum sérstakan áhuga á að finna þennan minnisvarða, en í sumar hittum við frænku Guðrúnar, Helgu Jónsdóttur (Jóns Ármanns Héðinssonar) en hún býr í Burgos og er gift spánverja og sagði hún okkur að afi mannsins hennar hefði horfið í borgarstyrjöldinni og talið er að hann liggi í þessari fjöldagröf.

Á leið upp Montes de Oca.

Á leið upp Montes de Oca.

Minnismerkið La Pedraja.

Minnismerkið á La Pedraja.

Nú lá leiðin  að mestu niður á við og stefndum við á borgina Burgos sem er í norðurjaðri hásléttunnar í um 800 m hæð. Í Burgos voru höfðustöðvar Francos í borgarstyrjöldinni. Mikið er um gotneska byggingarlist í borginni og er kirkjan „Cathedral de Santa María de Burgos“ stórglæsileg. Við vorum komnar inn í borgina upp úr hádegi og fengum inni á mjög fínu albergie við hlið kirkjunnar, eftir góða sturtu fórum við að skoða miðborgina og að sjálfsögðu kirkjuna fallegu og tók það góðan tíma en óteljandi kapellur eru í kirkjunni.

Pílagrímar í Burgos.

Portúgalinn og frakkinn sem við hittum í Burgos.


Í Burgos.

Í Burgos.

Kirkjan í Burgos.

Cathedral de Santa María de Burgos.

Um kvöldið fórum við í messu í kirkjunni og borðuðum svo tapas á veitingastað á móti alberginu, þar hittum við tvo gamla kalla, portúgala og frakka sem kynnst höfðu á göngunni, en frakkinn var að ganga fjórða,sumarið í röð, tók eina viku á hverju sumri og reiknaði með að klára leiðina næsta sumar.

499 km. eftir til Santiago de Compostela……..

Með því að smella á myndirnar er hægt að fletta þeim og skoða í stærri upplausn.

Hér má lesa fyrstu greinina um ferð okkar um Jakobsveginn.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744