Hvalaráðstefna á Húsavík í kvöld

Hvalaráðstefnan er nú haldin í annað sinn á Húsavík og því orðin að árlegum viðburði eins og stefnt var að í byrjun.

Hvalaráðstefna á Húsavík í kvöld
Fréttatilkynning - - Lestrar 364

Hvalaráðstefnan er nú haldin í annað sinn á Húsavík og því orðin að árlegum viðburði eins og stefnt var að í byrjun. 

Ráðstefnan er samstarfsverkefni Hvalasafnsins og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík.

 

Í tilkynningu segir að markmið ráðstefnunnar sé að kynna þær rannsóknir sem eru og hafa verið stundaðar í Skjálfandaflóa og efla tengslin á milli hvalaskoðunarfyrirtækja, Hvalasafnsins, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands og vísindafólks. Með þess konar samvinnu og samræðum, geta hvalaskoðunarfyrirtækin og Hvalasafnið miðlað nýjustu upplýsingum og aukið gæði svæðisins sem eitt besta svæði landsins til að skoða og fræðast um hvali.

Í gegnum árin hafa verið gerðar hér rannsóknir í flóanum og hafa þær niðurstöður ekki alltaf skilað sér inn á dekk til fyrirtækjanna, því langar okkur að bjóða upp á þennan vettvang til að miðla upplýsingum, fræðast og spyrja spurninga en slíkur vettvangur nýtist einnig vel sem hluti af þjálfun nýrra leiðsögumanna og endurmenntun eldri leiðsögumanna, þar sem áhugaverðar upplýsingar koma fram og umræður gætu skapast.

Ráðstefnan verður haldin í sal Hvalasafnsins þriðjudagskvöldið 30. júní, hefst hún kl. 19:30 og eru allir hjartanlega velkomnir. Að henni lokinni er boðið upp á léttar veitingar og vettvang fyrir spurningar og umræður.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744