Hugvekja sveitarstjóra flutt við jólatré Húsvíkinga

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings flutti eftirfarandi hugvekju sl. laugardag þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu.

Kristján Þór Magnússon.
Kristján Þór Magnússon.

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings flutti eftirfarandi hugvekju sl. laugardag þegar ljósin voru tendruð á jólatrénu.

Kæru vinir

Mikið er gaman að sjá ykkur öll í dag á þessari árlegu hátíðarstund á þegar jólaljósin eru tendruð á jólatrénu okkar hér í miðbænum. Viðlíka stundir höfum við átt saman í gegnum árin við formlegt upphaf forboða jólahátíðarinnar, en fyrsti sunnudagur í aðventu er jú á morgun. Ef ég lygni aftur augunum og hugsa til þessara stunda þegar ég var barn þá fyllist nef mitt mikilli eplaangan, en gjarnan voru það safaríkustu epli veraldar sem jólasveinarnir höfðu meðferðis í pokum sínum við þetta tilefni. Þetta eru kærar minningar.

Í nýlegri heimsókn forseta Íslands hingað í Norðurþing var Guðna tíðrætt um gæði þess sem fólgin eru í að því að búa í samfélagi eins og okkar. Hann talaði um mikilvægi þess að snúa smægð okkar upp í styrkleika. Við Íslendingar eigum örugglega heimsmet í einmitt þessu. Að snúa smægð okkar upp í styrk. Nægir þar að nefna okkar einstöku keppnislandslið í knattspyrnu, handbolta og fjölda annara greina sem staðið hafa jafnfætis milljónaþjóðum á undanförnum árum. En hvað á forsetinn við með sinni brýningu til okkar, að snúa smægð upp í styrk? Hann er til dæmis að tala um tækifærin sem við höfum hér í litlu samfélagi til þess að standa þétt saman, tækifærin sem við höfum til að fylgjast betur með líðan nágrannanns og aðstoða þá sem eru hjálpar þurfi í okkar hópi. Það getur að mörgu leyti verið auðveldara í litlum samfélögum en þeim stærri og það eigum við að sýna. Hann á við það, sem svo sannarlega er rétt, að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og þá er eins gott að þorpið sé gott og öruggt. Þorpið sé opið, víðsýnt, umburðarlynt og kærleiksríkt.

Umræður síðustu vikna um ofbeldi, áreiti og áreitni af ýmsu tagi sýnir svart á hvítu nauðsyn þess að uppræta það sem með gjörðum okkar varpar svörtum skuggum á samfélagið. Við hljótum að vilja uppræta meiðandi umræðu, meiðandi hegðun, meiðandi orðræðu okkar í millum og við eigum að fordæma ofbeldi sem þrýfst í okkar samfélagi. Einelti og erfið neikvæð samskipti milli einstaklinga eru því miður daglegt brauð, hvort sem um er að ræða börn eða fullorðna, innan veggja skóla eða vinnustaða, heimili eða á samfélagsmiðlum og vefnum. Það er sárt að horfa upp á þá staðreynd að í okkar samfélagi séu einstaklingar beittir ofbeldi í skugga einhverskonar yfirburðastöðu gerandans gagnvart þolanda. Það er óþolandi óréttlæti sem ég óska einskis heitar en við tökum höndum saman um að útrýma.

Vöndum okkur í samskiptum við annað fólk og tökum tillit til þess að við höfum ólíkar skoðanir, að við höfum ólíka sýn á lífið og höfum ólíka sýn á það sem okkur þykir skipta meira máli en annað. Einblínum heldur á það sem sameinar okkur í því að vera manneskjur. Við getum öll sameinast í því að sýna hvert öðru virðingu og væntumþykju. Það virðist meira að segja vera hægt að sameina fólk í pólitík frá hægri til vinsti og forma ríkisstjórn. Tökum einfalda ákvörðun. Ákvörðun um að leita fyrst að því jákvæða í fari fólks, frekar heldur en að bera út neikvæðar skoðanir okkar um náungann. Ef við einblínum á það góða í fari fólks þá fer okkur sjálfum að líða svo vel. Samhliða þessu eigum að við að hrósa hvert öðru mikið mun oftar fyrir það sem vel er gert, eða fyrir það sem við kunnum að meta í fari hvers annars. Það er mjög auðvelt í raun og veru.

Á morgun er fyrsti dagur aðventunnar eins og ég minntist á hér í upphafi. Adventus domini, komu ljóssins, komu jólanna. Það er einlæg ósk mín að aðventan verði ykkur öllum tími gleði, samveru með vinum og ættingjum, tími friðsemdar og þakklætis. Það er margt sem við getum verið þakklát fyrir og margt sem við höfum hér sem aðrir í öðrum löndum heimsins myndu gefa aleiguna fyrir að njóta. Þó ekki væri nema bara friðinn sem við njótum hér við ysta haf. Nú á tímum töluverðra breytinga á samfélaginu okkar á Húsavík og í Þingeyjarsýslum bið ég ykkur öll um að opna faðm ykkar fyrir nýju fólki sem hingað flytur. Verum þekkt fyrir það að taka vel á móti nýjum íbúum og nýjum gestum sem hingað vilja koma til að leggja sín mikilvægu lóð á vogarskálar samfélagsins.

Að lokum langar mig til þess að skora á ykkur til þess að nota aðventuna til ákveðins verks. Ég vil skora á hvert og eitt okkar hér í dag til að nota næstu fjórar helgar til að finna eitthvað jákvætt í fari einhvers sem þið þekkið og hrósa viðkomandi sérstaklega fyrir það. Viðbrögðin sem þið munið fá við fallegum orðum ykkar mun minna okkar öll á hve mikið mun sælla er að gefa en þiggja.

Þakka ykkur fyrir.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744