Hæfileikamótun ungra knattspyrnuiðkenda á Húsavík

Fimmtudaginn 17.maí kom Þorlákur Árnason til Húsavíkur til að sjá um Hæfileikamótun drengja og stúlkna fædd árin 2003 og 2004 af öllu Norðurlandi.

Hæfileikamótun ungra knattspyrnuiðkenda á Húsavík
Íþróttir - - Lestrar 649

Atli Barkarson og Þorlákur Árnason.
Atli Barkarson og Þorlákur Árnason.

Fimmtudaginn 17.maí kom Þorlákur Árnason til Húsavíkur til að sjá um Hæfileikamótun drengja og stúlkna fædd árin 2003 og 2004 af öllu Norðurlandi.

Er þetta í fyrsta sinn er Hæfileikamótun KSÍ er haldin á Húsavík.

Þorlákur Árnason er þrautreyndur þjálfari sem hefur þjálfað í efstu deildum karla og kvenna. Unnið Íslandsmótið í efstu deild kvenna oftar en einu sinni og stýrt yngri landsliðum Íslands bæði karla og kvenna.

Fimmtudaginn notaði Þorlákur í að skoða bæinn og nærumhverfi og lét vel af. Um kvöldið tóku þjálfarar sig til og buðu honum í grillkjöt, sem var í boði Norðlenska. Kærar þakkir fyrir það! Eftir matinn fór Þorlákur yfir starf sitt, Hæfileikamótun, yngri landsliðin og reyndar A-landsliðin líka. Hans sýn á hvernig meta skal hæfileika á þessum aldri og knattspyrnuþjálfun almennt. Eftir góða kynningu og fræðslu frá Láka spunnust umræður og margar spurningar vöknuðu.

Hann gerði Völsung og Húsavík að umræðuefni og lét vel af því sem hann sá hér. Hann hrósaði starfinu og stefnu knattspyrnunnar hjá Völsungi. Gefum Láka orðið:

Maður finnur hvað þetta er sterkt hjá ykkur. Byrjar á meistaraflokki þar sem spilað er nær eingöngu á heimamönnum. Þetta vita bæði leikmenn meistaraflokks og yngri flokka.

Síðan er svo skýrt hver „players pathway“ er hjá ungum leikmönnum, þeir fá smjörþef af meistaraflokki og síðan taka þeir sitt hlutverk þegar þeir eru tilbúnir. Þetta er ein leið til að keppa við betri aðstöðu höfuðborgarliða, sem kristallast í fleiri betri leikmönnum, fleiri keppnisleikjum og lengra tímabili í raun. Þetta gerir það líka að verkum að ungir efnilegir leikmenn þurfa ekki að fara eitthvað annað snemma á sínum ferli.“

Í umræðum um uppeldi leikmanna og gæði starfsins fannst honum Húsavík hafa staðið sig vel í gegnum tíðina og hafði ákveðnar hugmyndir um af hverju það væri:

„Þá verður að segjast eins og er að það er ákveðin fótboltaþekking í bænum. Hefð. Hún kemur hugsanlega vegna þess að það er hefð fyrir því að Völsungur búi til góða leikmenn.

Þið vitið hvað er gott, hvað gæði eru. Þetta er ekki alls staðar og oft finnst mér menn ofmeta sína leikmenn í minni kaupstöðum þar sem menn sjá ekki stóru myndina.

En samskipti mín við Völsung sem landsliðsþjálfari hafa alltaf verið á þann hátt að félagið hefur bara prómótað sterka leikmenn. Þið hafið ekki viljað senda marga leikmenn í úrtökur til þess að koma fjöldanum að. Ég hef mikið hugsað um þetta. Það þarf auðvitað ekki að vera að þetta sé lykill að árangri en mér finnst eins og þið setjið ránna einfaldlega hátt, gerið kröfur.

Þannig að það er þekking í félaginu og einnig í umræðunni í bænum, fólk veit töluvert um fótbolta. Þetta er misjafnt eftir félögum og oft er minni þekking í yngri félögum.

Þá eruð þið auðvitað mjög heppnir með þjálfara, þrír UEFA A þjálfarar og einn UEFA B þjálfari ásamt öðrum og eruð í þessu af lífi og sál. Einnig held ég að í svona litlu bæjarfélagi þá sé það mikilvægt að hafa einhverja sem geta verið í fullu starfi til að taka obbann af sjálfboðaliðstarfinu hjá ykkur. Þá brenna þeir síður út sem starfa við þetta.

Í litlum bæ þurfa allir að multitaska og því mikilvægt að maður missi ekki gott fólk út.“

Á föstudeginum var Þorlákur svo með æfingarnar í Hæfileikamótuninni. Strákarnir riðu á vaðið og þar áttum við Völsungar tvo fulltrúa. Það voru Andri Már Sigursveinsson og Jakob Héðinn Róbertsson og stóðu þeir sig með prýði eins og við var að búast. Ekki skemmdi fyrir að Láki fékk Atla Barkarson með sér sem aðstoðarþjálfara en Atli var í U17 ára liðinu sem Láki þjálfaði og náði góðum árangri. Strákunum fannst spennandi að Atli skildi tala aðeins við þá fyrir æfingu og hlustuðu með athygli á góð ráð um það hvernig mætti alltaf bæta sig.

Stelpurnar voru svo á eftir og fengu einnig að hitta á Atla fyrir æfinguna sína. Þær voru fjórar galvaskar. Karen Vala Daníelsdóttir markvörður, Guðrún Þóra Geirsdóttir, Berta María Björnsdóttir og Sigrún Marta Jónsdóttir. Allar stóðu þær sig mjög vel og var Láki heilt yfir ánægður með báðar æfingarnar. Gaman að sjá okkar krakka spreyta sig á æfingum með svona sterkum hópi af öllu Norðurlandi.

Eftir góða heimsókn kvaddi Láki okkur með góðri gjöf en boltarnir 20 sem hann notaði á æfingunum skildi hann eftir fyrir okkur. Höfðinglega gert og kunnum við Þorláki Árnasyni bestu þakkir fyrir góða heimsókn og gagnlega. /JKG

Hæfileikamótun KSÍ

Hæfileikamótun KSÍ

Hæfileikamótun KSÍ

Hæfileikamótun KSÍ


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744