Grípa til aðgerða til að bregðast við neyð leigjenda

Ráðherra húsnæðismála, Þorsteinn Víglundsson, hefur falið Íbúðalánasjóði að grípa til sérstakra aðgerða vegna erfiðrar stöðu leigjenda en í nýrri könnun

Grípa til aðgerða til að bregðast við neyð leigjenda
Fréttatilkynning - - Lestrar 584

Frá undirritun reglugerðanna í morgun.
Frá undirritun reglugerðanna í morgun.

Ráðherra húsnæðismála, Þorsteinn Víglundsson, hefur falið Íbúðalánasjóði að grípa til sérstakra aðgerða vegna erfiðrar stöðu leigjenda en í nýrri könnun sjóðsins kemur fram að hlutfall fólks á leigumarkaði sé enn að aukast.

Í aðgerðunum felst að greiðsla húsnæðisbóta mun færast til sjóðsins frá Vinnumálastofnun, sem annast þær nú. Mun sjóðurinn fara í sérstakt átak til að auka útgreiðslur til fólks á leigumarkaði.

Þá hefur ráðherra falið sjóðnum að undirbúa stofnun leigufélags sem muni eignast og leigja út þær íbúðir, sem nú eru í höndum sjóðsins, á hóflegu verði. Um er að ræða tímabundna aðgerð til að bregðast við miklum skorti á hagkvæmu húsnæði til leigu. Síðar verður stefnt að því að íbúðir leigufélagsins fari í umsjá viðeigandi sveitarfélaga eða inn í nýtt kerfi leiguheimila sem nýtur opinberra stofnframlaga.
 
Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur undirritað tvær nýjar reglugerðir sem opna á þessar aðgerðir. Ráðherra segir að útgáfa reglugerðanna styðji við nýtt hlutverk Íbúðalánasjóðs sem sé að stuðla að jafnvægi á húsnæðismarkaði „Lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs takmarkast nú við félagsleg lán og lán til svæða þar sem önnur lán bjóðast ekki. Nú bætist við útgreiðsla húsnæðisbóta og aðkoma að fjölgun hagkvæmra leigubúða. Ég hef auk þess falið sjóðnum að annast víðtækt hlutverk á sviði efnahagsmála þar sem hagdeild sjóðsins framkvæmir hlutlausar greiningar á þróun húsnæðismála og miðlar þeim upplýsingum til almennings. Þá höfum við falið sjóðnum samræmingu nýrra húsnæðisáætlana sveitarfélaga og útdeilingu fjár í formi stofnframlaga til óhagnaðardrifinna byggingarverkefna,“ segir Þorsteinn.
 

Einungis 40% leigjenda nýta rétt sinn

Leigjendur eru margir í sárri neyð vegna hárrar leigu og skorts á leiguíbúðum. Sé litið til alþjóðlegra viðmiða þá býr meirihluti leigjenda á Íslandi við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Í nýrri leigumarkaðskönnun hagdeildar Íbúðalánasjóðs, sem gerð var í ágúst og september, kemur fram að leigjendur greiða að meðaltali 41% tekna sinna í húsaleigu og sumir mun meira. Þrátt að greiða svo háa leigu þá nýta einungis ríflega 40% leigjenda rétt sinn til húsnæðisbóta. Umtalsverð hækkun bótanna og hækkun tekjuviðmiða við síðustu áramót og aftur í vor, virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri við að bæta stöðu leigjenda.
 
Í tengslum við yfirfærslu útgreiðslu bótanna til Íbúðalánasjóðs mun sjóðurinn ráðast í nánari skoðun á því hverju það sætir að stór hluti þeirra sem rétt eiga á slíkum greiðslum láti hjá líða að sækja þær. „Fólk getur verið að fara á mis við háar upphæðir á ársgrundvelli,“ segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra. „Einstaklingur sem er á leigumarkaði og er með undir 550.000 kr. í laun á mánuði á rétt á 6.798 kr. í húsnæðisbætur eða sem nemur samtals 81.576 kr. á ári. Fjögurra manna heimili með sömu tekjur á rétt á 44.935 kr. eða 539.220 kr á ári. Þetta eru upphæðir sem skipta fólk máli og því er brýnt að komast að því hvers vegna þær eru ekki að skila sér. Ríkisvaldið hefur ákveðið að jafna stöðu fólks á húsnæðismarkaði með þessum bótum og í húsnæðiskrísu, eins og nú ríkir, þá er sérstaklega mikilvægt að þessir peningar rati á réttan stað,“ segir Þorsteinn.
 
Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, segir að sjóðurinn hafi gert ítarlegar kannanir á stöðu leigjenda og hann fagni því að fá tækifæri til að koma auknum fjárhagsstuðningi til þessa hóps. „Ég hugsa að margir átti sig einfaldlega ekki á því hvað húsnæðisbætur, sem áður nefndust húsaleigubætur, hafa hækkað mikið og að fólk eigi kannski rétt á þeim núna þó það hafi ekki átt hann áður, t.d. vegna of hárra tekna. Í öllu falli er þarna er hópur með millitekjur sem greiðir mjög háa leigu en lætur umtalsverðar fjárhæðir liggja óhreyfðar hjá hinu opinbera, sem það á sannarlega rétt á að fá,“ segir Hermann.
 
Rúm 70% leigjenda á Íslandi sem eru með heimilistekjur undir 400 þúsund kr. á mánuði þiggja húsnæðisbætur. Hlutfallið lækkar hins vegar í 44% þegar heimilistekjurnar liggja á bilinu 400-549 þúsund kr. „Þegar heimilistekjur eru á þessu bili eiga nær allir rétt á bótum. Við þurfum að finna út hvernig við komum þessum húsnæðisstuðningi til skila og bætum þannig hag einstaklinga og fjölskyldna,“ segir Hermann.
 

Leigufélag stofnað utan um íbúðir Íbúðalánasjóðs

Annar megin þáttur í aðgerðunum nú til að bregðast við bágri stöðu leigjenda er stofnun leigufélags utan um fullnustueignir Íbúðalánasjóðs. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra mæltist til þess í byrjun júlí að sjóðurinn hætti við sölu um 300 íbúða í eigu sjóðsins. Íbúðalánasjóður hafði fyrirhugað að selja flestar eignanna fyrir áramót. Í dag eru tæplega 500 íbúðir í eigu sjóðsins en um tveir þriðju hluti íbúðanna eru í útleigu. Leigjendur þeirra eru í mörgum tilfellum fyrrverandi eigendur íbúðanna eða leigjendur fyrri eigenda sem misstu íbúðirnar í hendur sjóðsins vegna vanskila. 

Þorsteinn segir að Íbúðalánasjóður muni kanna hvort íbúðirnar geti í framhaldinu orðið að svokölluðum leiguheimilum en það eru íbúðir sem eru keyptar eða byggðar með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga. „Leiguheimiliskerfið er hugsað fyrir þann hóp sem fellur ekki undir hefðbundin félagsleg úrræði en er samt líklegur tekna sinna vegna til þess að vera í vandræðum með að greiða markaðsleigu eða kaupa eigin fasteign.“ 

Ráðherra segir einnig koma til greina að íbúðirnar renni inn í félagsíbúðakerfi viðkomandi sveitarfélaga þegar fram líði stundir. Brýnt sé að bregðast við því neyðarástandi sem ríki á leigumarkaði og nýtt leigufélag Íbúðalánasjóðs sé leið til þess. Ekki komi til greina að selja íbúðirnar eins og staðan sé nú.

Íbúðalánasjóður

Ráðherra við undirritun reglugerðanna í morgun í húsnæði Velferðarráðuneytisins. Fv. Ellý Alda Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri, Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttismálaráðherra og Hermann Jónasson forstjóri Íbúðalánasjóðs.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744