Góð aðsókn að Vælukjóa - Aukasýningar á miðviku- og fimmtudag

Píramus og Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík, frumsýndi í síðustu viku leikritið Vælukjóa í Samkomuhúsinu á Húsavík.

Leikurum fagnað í frumsýningarlok.
Leikurum fagnað í frumsýningarlok.

Píramus og Þispa, leikfélag Framhaldsskólans á Húsavík, frumsýndi í síðustu viku leikritið Vælukjóa í Samkomuhúsinu á Húsavík.

Mjög góð aðsókn hefur verið á sýningarnar fjórar sem fyrirhugaðar voru og nú hefur verið ákveðið að bæta við tveimum aukasýningum.  

Þær verða á miðvikudag og fimmtudag kl. 18:00.

Vælukjói kallast á frummálinu „Cry-Baby" og kom fyrst fram sem söngvamynd með Johnny Depp í aðalhlutverki árið 1990. Verkið gerist á sjötta áratugnum og segir frá átökum tveggja þjóðfélagshópa með áhersluna á ást pilts og stúlku úr sitt hvorum hópnum en það samband er ekki til vinsælda eða friðsemdar fallið.

Með hlutverk unga parsins fara Kristjana Freydís Stefánsdóttir og Eyþór Kári Ingólfsson en þau koma bæði úr Framhaldsskólanum á Laugum.

Auk nemenda úr FSH taka þátt í sýningunni nemendur úr Framhaldsskólanum á Laugum og Borgarhólsskóla á Húsavík. Um fjörutíu nemendur koma að sýningunni á einn eða annan hátt.

Vælukjói

Um leikstjórn sá Karen Erludóttir sem nýkomin er úr námi frá Bandaríkjunum en hún nam leiklist í New York Film Academyskólanum í Los Angeles.  Karen segir einn af kostunum sem sá skóli hefur sé sá að þrátt fyrir að vera á leiklistarbraut þá lærir maður á allar stöður sem þarf þegar kemur að kvikmyndagerð eða uppsetningu leikrita. Þannig kláraði hún nokkra áfanga þar sem farið var yfir leikstjórn og leikstýrði nokkrum skólaverkefnum. 

Eftir að Karen flutti aftur heim sl. vor ákvað hún að bjóða upp á leiklistar-námskeið fyrir börn hér á Húsavík í sumar. “Það var ekkert svoleiðis í boði þegar ég var að alast upp hér og mér fannst það alveg ömurlegt svo ég ákvað að taka það bara í eigin hendur að bæta úr því. Námskeiðið stóð yfir í tvo mánuði og sem endaði svo á leiksýningu.

Fljótlega að því loknu fór ég að vinna með 10. bekk í Borgarhólsskóla, en þau setja upp leiksýningu á hverju ári sem fjáröflun fyrir þeirra útskriftarferðalag. Við settum upp leikritið Gauragang sem gekk bara alveg ótrúlega vel, þó ég segi sjálf frá. En ég á það til að taka svolítið mikið að mér og var því byrjuð að vinna með Píramus og Þispu rúmri viku fyrir frumsýningu Gauragangs. Svo á tímabili var ég að vinna í að setja upp tvö leikrit á sama tíma. Eitthvað sem ég ætla nú ekki að mæla með reyndar, en ég hef sjaldan skemmt mér jafn mikið!

En eftir Gauragang fórum við alveg á fullt með Píramus og Þispu og ég gæti ekki óskað mér betri hóp. Þvílíkur kraftur í þessum krökkum og algjör forréttindi að fá að setja upp Vælukjóa með þeim” Segir Karen en hún er einnig í hlutastarfi í Borgarhólsskóla þar sem hún kennir börnum leiklist.

Hvað framtíðina varðar hjá þessari ungu atorkukonu í leiklistinni er óráðið þó draumur hennar sé að geta lifað af leiklistinni. ”Ég veit þó að ég verð á Húsavík í vetur því eftir áramót tekur annað og spennandi verkefni við. Þá mun ég setja upp leiksýningu með unglingastigi Borgahólsskóla í samstarfi við Þjóðleikhúsið. Verkefnið kallast Þjóðleikur og er mjög spennandi. Ég var eitthvað um sjö ára gömul þegar ég steig fyrst inn í Þjóðleikhúsið og var það algjörlega ást við fyrstu sýn, svo þetta er mér mikill heiður” Sagði Karen Erludóttir að lokum en hér að neðan eru myndir frá frumsýningarkvöldinu og með því að smella á þær er hægt að fletta þeim og skoða í stærri upplausn.

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

Vælukjói

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744