Gísli Auðunsson lætur af störfum eftir hálfa öld af lækningum

Gísli Auðunsson lætur nú af störfum eftir að hafa unnið sem læknir í fimmtíu ár á Húsavík.

Gísli Auðunsson. Mynd: Atli Vigfússon
Gísli Auðunsson. Mynd: Atli Vigfússon

Í meira en hálfa öld hef­ur Gísli Auðuns­son lækn­ir tekið á móti og sinnt sjúk­ling­um. Stærst­an hluta þess tíma á Húsa­vík en hann kom þangað til starfa árið 1966, þá til­tölu­lega ný­út­skrifaður lækn­ir. Frá þessu er greint á mbl.is

„Ég lauk prófi árið 1964 og byrjaði þá mitt kandí­dats­ár eins og það er kallað. Það var síðan haustið 1966 sem ég fór hingað norður til Húsa­vík­ur og fagnaði því 50 ára starfsaf­mæli mínu hér síðastliðið haust,“ seg­ir Gísli í Morg­un­blaðinu í dag en bend­ir þó á að hann hafi starfað í fjög­ur ár er­lend­is meðan hann var í sér­fræðinámi.

Allt á sinn tíma og seg­ir Gísli komið að því að leggja hlust­un­ar­píp­una á hill­una enda orðinn átt­ræður að aldri og hef­ur í nægu að snú­ast á jörð sinni í Keldu­hverfi.

„Ég á þar ágæt­is spildu og hef sinnt skóg­rækt í að verða tutt­ugu ár á henni, þ.e. starfað sem skóg­ar­bóndi. Núna gefst mér tími til að sinna því í fullu starfi,“ seg­ir Gísli sem gekk sinn síðasta stofu­gang á sjúkra­hús­inu á Húsa­vík í gær.

Spurður hvort það eigi eft­ir að freista hans að grípa í læknaslopp­inn aft­ur og hitta sjúk­linga seg­ist Gísli ekki ótt­ast að hann eigi aft­ur­kvæmt í lækn­a­starfið.

„Það er margs að sakna úr starf­inu en ég er kom­inn á þann ald­ur að það er orðið erfiðara fyr­ir mig að fylgj­ast með öll­um nýj­ung­um. Þetta er orðinn lang­ur og góður starfs­fer­ill sem ég kveð sátt­ur.“


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744