Framtíðin björt í blakinu

Um síðustu helgi var leikið um bikarmeistaratitla í 2-4 flokki karla og kvenna í blaki.

Framtíðin björt í blakinu
Íþróttir - - Lestrar 290

Fjórði flokkur karla ásamt Sveini þjálfara.
Fjórði flokkur karla ásamt Sveini þjálfara.

Um síðustu helgi var leikið um bikarmeistaratitla í 2-4 flokki karla og kvenna í blaki.

Mótshaldarar voru HK í Kópavogi og var leikið frá laugardags-morgni og framyfir hádegi á sunnudeginum.

Alls voru spilaðir 83 leikir og bikarmeistarar krýndir í sex flokkum.

Í tilkynningu frá Blakdeild Völsungs segir að félagið hafi sent þrjú lið til leiks, sitthvort liðið í 4. flokki kvenna og karla og eitt í 3. flokki karla. 

Þjálfarar með í för voru Sveinn Hreinsson og Hjalti Karl Jónsson og voru foreldrar þeim til aðstoðar þar sem keppt var bæði í Digranesi og Fagralundi. Í karlaflokki voru nokkrir sem kepptu með bæði 3. og 4. flokki og þurftu því að keyra milli staða á sunnudeginum. 

Skemmst er frá því að segja að krakkarnir stóðu sig gríðarlega vel og sýndu miklar framfarir og oft á tíðum alveg frábæra blaktakta.

Niðurstaðan varð 2. sæti í 4. flokki karla þar sem liðið tapaði einungis einum leik á móti bikarmeisturum BF (Blakfélag Fjallabyggðar). Í 3. flokki varð það sömuleiðis silfur eftir hetjulega baráttu við bikarmeistara frá Þrótti Nes. 

Stúlkurnar í 4. flokki kvenna enduðu í 5. sæti af 7 liðum og unnu síðustu tvo leikina með glæsibrag. 

Krakkarnir voru sjálfum sér og Völsungi til mikils sóma innan vallar sem utan og fengu m.a. hrós frá þjálfurum annarra liða fyrir flott og vandað blak og einnig vilja fararstjórar koma því á framfæri að börnin voru kurteis og skemmtileg hvar sem komið var og gekk ferðalagið í alla staði eins og í sögu. 

Áfram Völsungur. 

Ljósmynd - Aðsend

Völsungar fagna stigi.

Ljósmynd - Aðsend

Fjórði flokkur kvenna.

Ljósmynd - Aðsend

Þriðji flokkur karla.

Ljósmynd - Aðsend

Fjórði flokkur karla á verðlaunapalli en þeir hlutu silfur.

Ljósmynd - Aðsend

Þriðji flokkur karla á verðlaunapalli en þeir hlutu silfur.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744