Cíeseyjar, perlur í mynni Vigoflóa sem vert er að heimsækja

Ef þú lesandi góður átt leið um Galisíu á Spáni eru Cíeseyjar áfangastaður sem vert er að heimsækja.

Horft til Cíeseyja á landstíminu.
Horft til Cíeseyja á landstíminu.

Ef þú lesandi góður átt leið um Galisíu á Spáni eru Cíeseyjar áfangastaður sem vert er að heimsækja.

Eyjarnar, sem eru þrjár, eru annar vinsælasti áfangastaðurinn í Galisíu á eftir dómkirkjunni í Santiago de Compostela, þar sem ferðalangar á Jakobsvegi enda ferð sína.

Eyjarnar, sem heita Monte Agudo, O Faro og San Martiño eiga sér margra alda sögu og fundist hafa hlutir, gullhringur, keramik og verkfæri sem talin eru frá tímum rómverja, sem varðveitt eru á byggðasafni í Pontevedra. Sagt er að Rómverjar hafi kallað eyjarnar eyjar Guðanna, vegna legu þeirra fyrir mynni Vigóflóans en þær mynda náttúrulegt skjól fyrir Atlanshafinu.

Á nítjándu öld og allt fram á miðja tuttugustu voru eyjarnar byggðar bændum og sjómönnum. Fyrsti vitinn Faro de cíes var byggður 1852 og stendur hann hæst á mið eyjunni. Um miðja tuttugustu öldina fer fólki verulega að fækka í eyjunum og eftir 1960 hefur þar enginn fasta búsetu. Eftir það fara eyjarnar að verða vinsælar sem ferðamannastaður yfir sumarið og byggðist þá upp töluverð þjónusta. Vinsælastar eru dagferðir, en einnig er hægt að gista í tjaldi, sem þú getur komið með sjálfur eða leigt. Lítil verslun og nokkrir veitingastaðir eru opnir yfir hásumarið.

Á síðustu árum hefur ferðalöngum sem heimsækja eyjarnar fjölgað svo gífurlega, að nú er aðgangsstýring og aðeins 2200 manns fá að fara út í eyjarnar á degi hverjum, og einnig tekur þú allt með þér úr eyjunni sem þú kemur með og ruslatunnur eru ekki í boði. Allt til verndar náttúrunni.

Drifhvítar strendur og kristaltær sjór vekja athygli þeirra sem leggja leið sína útí eyjarnar, en árið 1980 voru þær gerðar að náttúruverndarsvæði  og 2002 urðu þær síðan hluti af þjóðgarði sem nær yfir þær eyjar við strendur Galisíu sem snúa að Atlandshafi. Þar á meðal eru Ons, Sálvora, Noro, Vionta, Cortegada og Malveiraseyjar.

Sigling út í eyjarnar frá Vigo tekur um 40 mínútur en einnig er hægt að komast frá bæjunum Cangas og Baiona sem eru sitt hvoru megin við flóann. Yfir hásumarið er nauðsynlegt að bóka ferðir og gistingu út í eyjarnar.

Með því að smella á myndirnar er hægt að fletta þeim og skoða í hærri upplausn.

Ciéseyjar

Skútur liggja við akkeri undan Rodasströndinni.

Ciéseyjar

Rodasströndin tengir saman eyjarnar Monteagudo og do Faro.

Ciéseyjar

Rodasströndin með sínum drifhvíta sandi er ein besta strönd í heimi að mati breska tímaritsins The Guardian.

Ciéseyjar

Þessi hlaðni stígur er á milli eyjanna do Faro og Monteagudo.

Ciéseyjar

Allt er gert til þess að vernda brothætta náttúruna á Cíes-eyjum enda eru þær nær ósnertar. Allt sem raskað getur náttúrunni er bannað. 

Ciéseyjar

Þessi litla strönd á do Faro er ein níu stranda á eyjunum þar sem hvítur sandurinn og tær sjórinn draga að sér ferðamenn.

Ciéseyjar

Lítil steinbryggja á do Faro og San Martiño í fjarska.

Ciéseyjar

Nokkrar merktar gönguleiðir eru á eyjunum.

Ciéseyjar

Vitinn á do Faro er í 175 metra hæð yfir sjávarmáli og útsýni þaðan er stórfenglegt.

Ciéseyjar

Horft frá vitanum á toppi do Faro niður á annan minni neðar í hlíðinni.

Ciéseyjar

San Martiño liggur syðst eyjanna þriggja.

Ciéseyjar

Horft til norðureyjarinnar.

Ciéseyjar

Borgin Vigo lúrir þarna inn með flóanum sunnanverðum.

Ciéseyjar

Rodasströndin séð úr hlíðum do Faro.

Ciéseyjar

Gönguleiðirnar eru vinsælar.

Ciéseyjar

Á do Faro er tjaldsvæði þar sem bæði er hægt að leigja sér tjald eða koma með sitt eigið. Bóka þarf pláss eða tjald á hjá þeim aðilum sem selja ferðir út í eyjarnar.

Ciéseyjar

Tjaldstæðið á do Faro.

Ciéseyjar

Það er víða hrjóstugt á að líta við strendur Galisíu.

Ciéseyjar

Bryggjan og einn af veitingastöðunum í eyjunum með Rodasströndina í forgrunni.

Ciéseyjar

Engar ruslatunnur eru á eyjunum og eru ferðamenn vinsamlegast beðnir um að taka ruslið sitt með sér aftur til baka þegar haldið er til skips.

Ciéseyjar

Ferja við bryggjuna á Monteagudo en hægt er að sigla út í eyjarnar frá Vigo sem og nágrannabæjunum Baiona og Cangas.

 Ciéseyjar

Kvöldsigling í land, do Faro í fjarska þar sem sjá má vitann bera við himinn upp á hæsta tindi eyjarinnar.

Ciéseyjar


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744