Bruggstofa í gömlu mjólkurstöðinni

Skömmu fyrir jól opnaði fyrirtækið Húsavík öl bruggstofu í húsnæði þess í gömlu mjólkurstöð KÞ.

Bruggstofa í gömlu mjólkurstöðinni
Almennt - - Lestrar 530

Þorsteinn Snævar bruggmeistari í Húsavík öl.
Þorsteinn Snævar bruggmeistari í Húsavík öl.

Skömmu fyrir jól opnaði fyrirtækið Húsavík öl bruggstofu í húsnæði þess í gömlu mjólkurstöð KÞ.

Upp á ensku heitir þetta taproom, en það er skilgreiningin þegar brugghús og gestastofa eru undir sama þaki.

„Viðtökur hafa verið frábærar og farið fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Þorsteinn Snævar Benediktsson, bruggmeistari og eigandi Húsavík öl. Starfsemina segir hann enn vera í mótun en í byrjun verði hún opin fimmtudags-, föstudags- og laugardagskvöld en alla daga á sumrin.

Eins og áður hefur komið fram á 640.is var fyrirtækið stofnað í janúar á síðasta ári og hófst framleiðsla þess í fyrravor. Eru nú bjórtegundir fyrirtækisins á markaði orðnar á þriðja tug en þar er einungis bruggað öl, það er ekki lagerbjór, mjöður eða annað áfengi.

„Ég rúlla þessu aðeins og nýjar tegundir eru sífellt í þróun, bjórinn hefur til þessa aðallega verið í boði á veitingastöðum á Húsavík og á R5 á Akureyri. Þá eru Sjóböðin á Húsavíkurhöfða með bjórinn á boðstólum fyrir gesti sína,“ segir Þorsteinn Snævar og bætir við að innan skamms verði bjór frá honum fáanlegur á höfuðborgarsvæðinu.

Eins og fyrr segir eru nýjar bjórtegundir stöðugt í þróun hjá Húsavík öl og um jól og áramót var til að mynda hægt að fá Krubb og Rjúpuna. „Krubbur er milkstout-bjór og nafnið á honum kom nú bara þannig til að það var djöfullegt krubbsveður hér þegar ég bruggaði hann. Um Rjúpuna var það þannig að ég auglýsti eftir bláberjum og tvær konur hér í bæ létu mig fá slatta sem ég nýtti í þennan bláberja-„saison“,“ sagði Þorsteinn Snævar. Bætir hann við að sarpur rjúpunnar sé stútfullur af berjum og lyngi eins og þessi bjór og því hafi nafnið Rjúpan bókstaflega blasað við.

Og nú þegar Þorrinn er framundan er ekki úr vegi að spyrja Steina hvort það sé ekki Þorrabjór væntanlegur frá Húsavík Öl ? 

„Jú við verðum með Ræpuna, sem er rúg-Ipabjór. Megn en gífurlega ferskur bjór sem mun passa vel með þorramatnum". Segir Þorsteinn Snævar að lokum en þess má geta að Ræpuna verður m.a hægt að fá á Þorrablóti kvenfélagsins í íþróttahöllinni um næstu helgi.

Þorsteinn Snævar Benediltsson 2019.

Þorsteinn Snævar Benediktsson á Húsavík öl.

 


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744