Áhrif fótboltans – Íslendingar eru frægir

Það er ljóst að Ísland er til umræðu allsstaðar, ekki bara hér heima heldur víða erlendis. Fjölmiðlar víða á Jörðinni gefa landinu gaum eftir frækilegan

Áhrif fótboltans – Íslendingar eru frægir
Fólk - - Lestrar 1095

Inga Björk flaggar því gjarnan að vera Íslendingur
Inga Björk flaggar því gjarnan að vera Íslendingur

Það er ljóst að Ísland er til umræðu allsstaðar, ekki bara hér heima heldur víða erlendis. Fjölmiðlar víða á Jörðinni gefa landinu gaum eftir frækilegan árangur karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM. Að þjóð sem samanstendur af um 325 þús. einstaklingum skuli ná þeim árangri sem raun ber vitni í knattspyrnu í Evrópu.

Allt sem er íslenskt vekur nú áhuga fjölmiðla, hvort sem það er landið sjálft, fiskurinn, lopapeysan eða fólkið. Útvarpsstöðin Localradios í Nordrhein-Westfalen fylkinu í Þýskalandi starfrækir staðbundnar útvarpsstöðvar víða í fylkinu. Einni þeirri þótti merkilegt að Íslendingur byggi á þeirra svæði og var óskað eftir því að sá hinn sami gæfi sig fram. Sú var Inga Björk Hafliðadóttir sem býr í Recklinghausen, borg sem telur álíka marga íbúa og Reykjavík.

Inga Björk var boðuð í viðtal fyrir það eitt að vera Íslendingur. Fyrir utan hefðbundnar spurningar um hvers vegna hún byggi á svæðinu, hvenær hún hafi flutt þangað og hvernig henni líkaði að búa í Þýskalandi var hún spurð um land, þjóð og veður. „Þeir spurðu um fótboltann og fannst merkilegt að pabbi minn hafi spilað fótbolta með Sigþóri eða Sissa bakara, pabba Kolbeins og afa Eiðs Smára. Já, og að föðurbróðir Kolla byggi við hliðina á foreldrum mínum heima á Húsavík“. Inga Björk var spurð um stemninguna heima á Íslandi, hjá vinum og ættingjum, hvernig umræðan væri um landsliðið og fleira í þeim dúr.

Inga Björk sagðist vera frá bæ sem taldi aðeins um 2300 íbúa, „útvarpsmennirnir spurðu undrandi; er það þorp eða alvöru bær og ég sagði þar væri allt sem maður þyrfti,skólar, heilsugæsla, verslanir o.fl.“ Inga Björk gaf þeim svo grafinn silung, veiddan í Vestmannsvatni í Aðaldal þar sem móðurbróðir hennar ætti heima og heilluðust þeir af því, af smæðinni en frægðinni! „Svo átti ég auðvita að spá fyrir um leikinn en ég spái því að Frakkland fari með sigur af hólmi með tveimur mörkum gegn engu. En ég hef aldrei haft rétt fyrir mér varðandi úrslit í fótbolta“, segir Inga Björk. Útvarpsmennirnir voru ekki sælir með þessa spá og hlustendur væri eflaust sárir og svekktir enda einstök stemning með íslenska liðinu á EM.

Það er því ljóst að hróður Íslands fer víða vegna velgengni landsliðsins á EM sem er reglulega góð landkynning sem sér ekki fyrir endann á. Íslendingar, þessir rúmlega þrjúhundruð þúsund einstaklingar eru frægir um þessar mundir fyrir það að vera Íslendingar þökk sé strákunum okkar á EM. Við vonum svo sannarlega að Inga Björk hafi rangt fyrir sér og segjum, ÁFRAM ÍSLAND!

Inga Björk ásamt fjölskyldu sinni en synir hennar báðir eru miklir fótboltaáhugamenn og æfa báðir fótbolta.

Inga Björk ásamt vinkonu sinni í miðborg Recklinghausen þar sem fólk kemur saman til að horfa á EM.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744