Að taka þátt í knattspyrnustarfinu með barninu sínu

Mörg börn æfa fótbolta. Eins og margar aðrar tómstundir þá er fótboltaiðkun skipulagt tómstundastarf sem býður upp á svo gríðarlega margt.

Að taka þátt í knattspyrnustarfinu með barninu sínu
Aðsent efni - - Lestrar 345

Jóhann Kr. Gunnarsson.
Jóhann Kr. Gunnarsson.

Mörg börn æfa fótbolta. Eins og margar aðrar tómstundir þá er fótboltaiðkun skipulagt tóm-stundastarf sem býður upp á svo gríðarlega margt.

Við foreldrarnir þurfum ekki að hafa brennandi áhuga á fótbolta til að styðja barnið okkar í iðkun sinni. Við þurfum ekki einu sinni að hafa hundsvit á íþróttinni yfir höfuð! Við eigum að treysta fagfólkinu til þess að sjá um fótboltahlutann. Æfingarnar og leikina.

En okkar stuðningur er alveg gríðarlega mikilvægur. Við þurfum ekki að mæta á allar æfingar og jafnvel ekki einu sinni alla leiki (þó það sé auðvitað skemmtilegra fyrir alla). Að ræða iðkunina, vandamál sem upp koma, tala um velgengni og viðbrögð við henni. Vera til staðar og ræða málin þegar illa gengur. Vera öxlin þegar tárin koma og ræða málin af yfirvegun þegar reiðin blossar upp.

Fótbolti er ekki ljótur og leiðinlegur hlutur sem vekur upp það vonda í mannfólkinu. Fótboltinn vekur upp tilfinningar og viðbrögð rétt eins og aðrar keppnir og leikir. Það er okkar þjálfaranna og foreldranna að hjálpa iðkendum að bregðast við og takast á við þessar tilfinningar. Hvernig er best að takast á við velgengni? Hvernig er best að takast á við þegar illa gengur?

Hvað er heiðarleg framkoma? Hvað er óheiðarleg framkoma?

Eru þjálfarar, foreldrar og eldri leikmenn alltaf fullkomnar fyrirmyndir? Eru Messi og Ronaldo fullkomnar fyrirmyndir?

Svarið er nei, því miður. En mikið væri gaman ef svo væri.

Þá komum við foreldrarnir aftur sterkastir inn. Við getum nefnilega rætt við börnin okkar og útskýrt að þó að þjálfari, leikmaður eða aðstandandi meistaraflokks hafi sýnt slæm viðbrögð við tapi á síðustu sekúndu leiksins þá viti hann betur. Hann hafi gert eitthvað sem átti ekki að gera. Hann veit það og þegar reiðin rann þá baðst hann afsökunar og ætlar að reyna til hins ýtrasta að þetta komi ekki fyrir aftur.

Við eigum að geta útskýrt fyrir barninu að þó að Messi hafi kennt dómurum um tapið hjá landsliðinu sínu þá var það bara andartökum eftir leik. Hann var reiður og hugsaði ekki skýrt. Hann veit það sjálfur og sér eftir þessum ummælum. Dæmum Messi ekki of hart. Útskýrum bara að hann er mannlegur og gerir mistök. En hann sé líka á þeim stað í dag sem hann er vegna þess að hann gerir líklega færri mistök en aðrir. Því hann er alltaf að reyna að læra af þeim.

Tíminn sem við eigum með barninu okkar í tómstundum eins og fótbolta í yngri flokkum er takmarkaður. Hverjir eiga ekki fyndnar, skemmtilegar og jafnvel gæsahúðarminningar frá keppnisferðalögum, mótum, leikjum eða öðru tengdu fótboltanum hjá barninu? Þegar lítið 5 eða 6 ára barnið skottast um völlinn á Curio mótinu í Ágústsólinni og foreldrarnir, amma og afi horfa stolt á kafrjótt barnið elta boltann. Nú eða bara gleyma sér við að horfa á fugl eða bora í nefið. Í Völsungstreyjunni sinni sem því finnst svo flott og fín og amma og afi gáfu í jólagjöf. Svitaperla á enninu þegar barnið nartar í pylsuna með annarri og horfir á viðurkenninguna fyrir þátttökuna í hinni. Dáleitt af ánægju með daginn. Öll úrslit löngu gleymd fyrir kvöldmat.

Þessi tími er ótrúlega stuttur.

Því er það okkar starf. Okkar þjálfaranna, að hámarka ánægju, möguleika og getu barnsins á þessum tíma. Það er bókstaflega okkar starf. Við erum ekki bara að reyna að búa til næsta Eið Smára eða næstu Söru Björk. Okkar starf er að sjá til þess að iðkendur fái þá upplifun sem þau eiga skilið í íþróttinni. Sumir og jafnvel margir verða aldrei góðir. En þeir geta æft fótbolta eins lengi og þeir vilja og haft gaman af. Lenda kannski á bekknum og sumir missa áhugann. Það er ósanngjarnt og leiðinlegt oft. En svona er íþróttin, eins og lífið. Aldrei sanngjarnt.

En öll getum við ráðið því hvort við höfum gaman af því meðan á því stendur.

Ég skora á foreldra og aðstandendur að hjálpa okkur við að hjálpa iðkendunum okkar að hámarka ánægju sína af því að vera í fótbolta. Ég skora á alla að standa þétt við bakið á sínum iðkanda óháð getu og aldri. Verum foreldrið sem virkaði frekar of áhugasamt og alltaf til í að taka þátt.

Tíminn sem börnin okkar eru í fótbolta er dýrmætur fyrir þau en alls ekki endalaus. Þessi tími getur verið mjög dýrmætur og góður fyrir foreldra og aðstandendur líka. Sýnum stuðning í verki og hjálpum þeim að gera þennan tíma eins eftirminnilegan og hægt er.

Hann er nefnilega ótrúlega fljótur að líða.

Áfram Völsungur!

Jóhann Kristinn Gunnarsson.


  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744