Að búa í jaðarbyggð

Undirrituð er með vissar áhyggjur af málefnum Raufarhafnar. Staðan hefur frekar versnað á síðustu misserum, ekki er neinu einu um að kenna en ég er farin

Að búa í jaðarbyggð
Aðsent efni - - Lestrar 580

Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir.
Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir.

Undirrituð er með vissar áhyggjur af málefnum Raufarhafnar. Staðan hefur frekar versnað á síðustu misserum, ekki er neinu einu um að kenna en ég er farin að hafa verulegar áhyggjur af stöðunni og ef ekkert verður að gert held ég því miður að staðan eigi eftir að versna til muna.

Við í hverfisráði höfum ítrekað sent frá okkur erindi þess efnis en lítið fengið af viðbrögðum.

Þetta á ekki bara við Raufarhöfn heldur allt svæðið austan Tjörness, þetta er eins og allir vita verulega viðkvæmt svæði sem má ekki við neinum frekari skakkaföllum. Máltækið, maður kemur í manns stað á því miður ekki við hér því ef við missum fólk frá okkur er ekki endilega víst að við fáum einhverja aðra til að koma í staðinn!!

Það sem ég ætla að nefna fyrst er nokkuð sem ég held að því miður séu þættir sem langflestir íbúar austan Tjörness upplifa og það virðist vera hálfgert afskiptaleysi sviðstjóra, embættismanna og einnig kjörinna fulltrúa. Ég vil taka það fram að þetta þarf samt ekki endilega að vera raunin, þ.e. að starfsmenn komi ekki hingað, heldur kannski frekar að þeir eru ekki sýnilegir.

Hér á Raufarhöfn var til að mynda flott menningarvika sem stóð í 10 daga, það hefði verið gaman að sjá fleiri andlit úr sveitastjórn sem og öðrum nefndum sveitarfélagsins!

En þeim sem komu þakka ég kærlega fyrir komuna.

Fyrirætlaður niðurskurður fyrir árið 2020 kemur mjög illa við alla, styttur opnunartími, skerðing á þjónustu og sundlaug Raufarhafnar á að vera lokuð í vetur og starfandi rekstraraðilar eru hættir vegna niðurskurðar um 32% sem er í raun óraunhæft, því er dapurt að sjá að ekki er lagður metnaður í að halda uppi slíkri þjónustu við okkur sem skilgreina má sem vissa grunnþjónustu og viðhalda þannig ákveðinni óvissu í þeim málum. Tjaldstæðið sem er í samrekstri við sundlaugina var mjög vel nýtt síðastliðið sumar, hægt er að segja að það hafi verið skemmtilegt að fylgjast með því hversu margir ferðamenn nýttu sér að gista þar, en það þýðir þá að fara þarf í endurbætur á því. Heimskautsgerðið er að draga verulega að ferðamenn, t.d. var hópur ljósmyndara sem kom frá Hong Kong til að mynda norðurljósin, Heimskautsgerðið og okkar fallegu náttúru og þannig mætti lengi telja. Sparnaðaraðgerðir í Öxarfjarðarskóla skjóta líka skökku við þegar svæðið er loksins að byggjast upp og ungt fólk að flytja í héraðið. Þar hafa fæðst sex börn nú á þessu ári.

Þegar sveitafélag stendur fyrir svona niðurskurði er skiljanlegt að allir verði að taka þátt en sannleikurinn er bara sá að við erum búin að vera í niðurskurði í það mörg ár að við megum einfaldlega ekki við frekari niðurskurði, það segir sig sjálft.

Sérstaklega er ég svekkt yfir því að í þessum hagræðingarmálum hafi ekki verið haft samráð við hverfisráðin, mögulega hefur allt það góða fólk sem í þessum ráðum situr góðar hugmyndir um hvernig má spara í sínu nærumhverfi án þess að það bitni á íbúum. Sannleikurinn er þó sá að sárasjaldan eru málum vísað til hverfisráða til umsagnar, sem þó þekkja málin hvað best.

Maður veltir því fyrir sér þessi sex ár sem ég hef búið í Norðurþingi/Raufarhöfn hvort það sé þeirra hinsta ósk að koma okkur öllum í burtu og þar með þurfi ekki að hugsa frekar um jaðarbyggðirnar austan Tjörness. Ég hef alltaf talið mér trú um það að allir sem sitji í sveitarstjórn sé að gera sitt allra besta og vilji öllum íbúum vel en þegar maður er loksins að sjá fyrir endan á göngunum kemur bara annar stærri skellur.

Ég hvet ykkur í sveitastjórn að vinna saman, burt séð frá því hvar þið standið í pólitík. Það er líf austan Tjörness ekki bara tölur á excel skjali. 

Með vinsemd og virðingu 

Formaður Hverfisráðs Raufarhafnar

Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir.



  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744