„Þau eru svo áhrifagjörn og hafa ekkert vit á þessu!“

Kosningaaldur er eitthvað sem ég hef lengi verið að velta fyrir mér. Af hverju er hann miðaður við 18 ára aldur þegar eintaklingur verður fjárráða, en

Björn Grétar Baldursson.
Björn Grétar Baldursson.

Kosningaaldur er eitthvað sem ég hef lengi verið að velta fyrir mér. Af hverju er hann miðaður við 18 ára aldur þegar eintaklingur verður fjárráða, en ekki t.d. 16 ára þegar hann verður sjálfráða? Af hverju er t.d. 15 ára unglingur sakhæfur, talið forsvaranlegt að gera hann ábyrgan fyrir sínum gjörðum og eftir atvikum dæma hann til betrunnarvistar? En hann er hins vegar ekki talinn hafa forsendur til þess að axla þá ábyrgð að taka upplýsta ákvörðum og kjósa sér fulltrúa í sveitarstjórn eða á Alþingi Íslendinga. Sum svör sem ég hef fengið við þessum spurningum er á þá leið að það væri svo létt að hafa áhrif á 16 ára ungling auk þess sem hann hafi tæplega forsendur til þess að taka upplýstar ákvarðanir í þjóðmálum. Að einhverju leyti er þetta sjálfsagt rétt en gildir það ekki það sama um þá sem eldri eru? Er 18 ára ungmenni ekki jafn áhrifagjarnt og það sem er 16 ára? Ég tel að það sé hægt að virkja ungmenni og auka áhuga þeirra á samfélagsmálum t.d. með því einu að lækka kosningaaldur og um leið veita þeim aukna kennslu í stjórnmálum og þeim viðfangsefnum sem stjórnmálum tengjast.

Á ráðstefnu sem haldin var á vegum Ungmennafélags Íslands með ungmennum um viðfangsefni stjórnsýslunnar, Ungt Fólk og Lýðræði – Stjórnsýslan og við fann ég fyrir miklum áhuga ungs fólks á að hafa áhrif á þeirra nánasta umhverfi. Á ráðstefnunni sjálfri skapaðist mikil umræða um kosningaaldur og þar kom fram mikill áhugi á að læra meira um stjórnmál og hafa meiri áhrif á málefni tengdu ungu fólki. Ég tel því vera grundvöll fyrir því að taka upp öfluga stjórnmálafræðslu í grunnskólum landsins jafnframt því að lækka kosningaaldur niður í 16 ár við næstu sveitarstjórnarkosningar, þó svo að hann væri 18 ár þegar kosið yrði til Alþingis. Með því móti gætu ungmenni kosið um þau málefni sem snerta þau innan þeirra eigin sveitafélaga. Þegar kemur svo að því að kjósa á þing eða á landsvísu væru þau búin að kjósa í tvö ár áður en kæmi að því. Einnig væru þau með meiri reynslu í því hvernig ætti að sækja sér upplýsingar um málefni sem þau hafa áhuga á, tekið sjálfstæðari ákvörðanir og vonandi orðið virkari þátttakendur í sínu nærsamfélagi.

Þess vegna segi ég; Af hverju ekki lækka kosningaaldur? Af hverju ekki gefa þeim tækifæri til þess að hafa áhrif á málefni sem snertir þau? Af hverju ekki gefa þeim það verkfæri til þess að taka sjálfstæðari ákvarðanir í stjórnmálum? Ungt fólk á sautjánda og átjánda ári yrði ekki það stórt hlutfall kjósenda að búast mætti við byltingu í kosningaúrslitum. Það myndi hins vegar gera það að verkum að sveitarstjórnarmenn og síðan þingmenn myndu þurfa að beina athygli sinni í auknu mæli að yngri þegnum samfélagsins og þau þannig höfð með í ráðum þegar verið er að sýsla um málefni ungs fólks. Að unga fólkið verði í auknu mæli gerendur/þátttakendur í sínu nánast umhverfi.

Björn Grétar Baldursson.

Björn Grétar er nemi í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands.




  • Herna

640.is | Ábyrgðarmaður Hafþór Hreiðarsson | vefstjori@640.is | Sími: 895-6744